Categories
Fréttir

Hafa neytendamál fengið nægt vægi hér á Íslandi?

Deila grein

20/03/2019

Hafa neytendamál fengið nægt vægi hér á Íslandi?

Willum Þór Þórsson, alþingismaður, var málshefjandi í sérstakri umræðu um stöðu Íslands í neytendamálum á Alþingi í gær. Willum Þór fór yfir að mikilvægt væri að neytendamál væru ekki aðeins rædd á vettvangi þingsins er fram koma lagafrumvörp eða þingsályktanir „heldur ekki síður að við veltum því upp hver staða þessara mála er, hver staða íslenskra neytenda er í raun í samanburði við Norðurlöndin t.d. og í öðrum alþjóðlegum samanburði.“
Síðustu áratugina hafi hagsmunir neytenda og neytendaréttur hefur verið að fá meira vægi í löggjöf á Vesturlöndum og þótt margt jákvætt hafi áunnist hér á Íslandi eru „neytendamál og neytendavernd engu að síður enn brotakenndur málaflokkur á Íslandi.“
„Lög og reglur eiga að tryggja rétt neytenda, aukinheldur að gera neytendum kleift að ná fram rétti sínum. Margbreytileiki viðskipta og umfang er augljós og munur á því að kaupa til að mynda gallabuxur úti í búð sem reynast vera gallaðar þegar heim kemur eða fjárfesta í húsnæði með leyndan galla eða útkljá ágreiningsefni á leigumarkaði þegar leigutaki þarf að leita réttar gagnvart leigusala,“ sagði Willum Þór.
Ræða Willum Þórs Þórssonar, alþingismanns, á Alþingi 19. mars 2019.

Ný frumvörp um úrskurðarnefndir á sviði neytendamála er ætlað „að tryggja neytendum aðgang að skilvirkri og faglegri málsmeðferð við lausn ágreinings neytenda við seljendur og treysta umgjörð um lausn deilumála utan dómstóla.“
„Einnig liggur fyrir þinginu þingsályktunartillaga um skilarétt, inneignarnótur og gjafabréf og þar er brýnt að uppfæra og samræma verklagsreglur. Þá veltir maður fyrir sér hversu upplýstir neytendur eru um rétt sinn — við tölum oft um neytendavitund í því efni — og um hvert þeir geti leitað og hversu aðgengileg þjónustan er.“
„Hvernig umhverfi höfum við búið neytendum á sviði réttar og verndar? Það eru upplýsingar, fræðsla, lög, reglur og stofnanaumgjörð. Neytendastofa gegnir mikilvægu lagalegu hlutverki á sviði neytendaréttar. Hún sinnir eftirliti í neytendamálum, stuðlar að fræðslu til almennings um neytendamál og tekur við kvörtunum og ábendingum neytenda og sinnir jafnframt kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa. Neytendasamtökin eru frjáls félagasamtök og sinna vel öflugu starfi við að gæta hagsmuna neytenda og tala máli þeirra. Á vegum samtakanna er líka starfrækt neytendaaðstoð sem er sérstök þjónusta fyrir alla og er hún fjármögnuð að hluta til með opinberu fé. Til marks um umfangið og mikilvægi málaflokksins, vil ég segja, bárust neytendaaðstoðinni 6.000 erindi árið 2016. Allsherjarréttarlegt eftirlit með háttsemi aðila á neytendamarkaði er svo fyrst og fremst í höndum Neytendastofu og Fjármálaeftirlits.“
Að lokum sagði Willum Þór, „eftir standa stórar spurningar, hvort neytendamál hafi hreinlega fengið nægt vægi hér á Íslandi og hvað hæstv. ráðherra hyggst fyrir til að auka vægi málaflokksins, hvað við getum lært af Norðurlöndunum til að mynda á þessu sviði, og eins og formaður Neytendasamtakanna, Breki Karlsson, kallaði nýverið eftir í umræðu um verðlagsmál matvöru, hvort ekki skorti hreinlega heildarstefnu fyrir málaflokkinn.“