Categories
Fréttir

Heilsa og velferð manna og dýra

Deila grein

13/05/2019

Heilsa og velferð manna og dýra

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar og Þórarinn Ingi Pétursson, varaþingmaður Framsóknar, skrifuðu grein 8. maí á visir.is þar sem þau fylgdu eftir varnaðarorðum varðandi innflutning á kjöti til Íslands frá virtum vísindamönnum, innlendra og erlendra.
„Með því að opna á innflutning á hráu kjöti, eins og heildsalar og ákveðin stjórnmálaöfl þeim hliðholl, hafa krafist væru íslensk stjórnvöld einfaldlega að gera tilraun sem allar líkur eru á að endi illa. Varðar það bæði sýkingar í matvælum og einnig áður nefnt sýklalyfjaónæmi sem virtar alþjóðlegar stofnanir og vísindamenn telja að muni draga fleiri jarðarbúa til dauða árið 2050 en ógnvaldurinn krabbamein. Viljum við slíka tilraunastarfsemi? Og vill verslunin stunda slíka tilraunastarfsemi í skiptum fyrir fleiri krónur í kassann?,“ segja greinarhöfundar.
„Samkeppni er öllum holl en hún verður að vera skynsamleg fyrir lýðheilsu þjóðarinnar og verður að tryggja að íslenskir bændur keppi á jafnréttisgrundvelli við innfluttar vörur. Þær varnaðaraðgerðir sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra leggur til í frumvarpi sínu sem liggur fyrir Alþingi eru í rétta átt en betur má ef duga skal. Stíga verður stærra skref sem felur í sér hreint og klárt bann við dreifingu matvæla sem sýkt eru af salmonellu og kampýlóbakter og innihalda sýklalyfjaónæmar bakteríur yfir ákveðnu marki“, segja Halla Signý og Þórarinn Ingi.