Á þessum hátíðardegi fögnum við því að 75 ár eru liðin frá ákvörðun Alþingis um að slíta formlega konungssambandinu við Danmörku og stofna lýðveldið Ísland. Allar götur síðan frá fullveldi og lýðveldisstofnun hafa lífskjör á Íslandi aukist verulega en þjóðartekjur hafa vaxið mikið. Hrein erlend staða þjóðarbúsins er jákvæð sem nemur 21% af landsframleiðslu, sem þýðir að erlendar eignir þjóðarinnar erum mun meiri en skuldir. Tímamót sem þessi gefa okkur færi á að líta um öxl en ekki síður horfa björtum augum til framtíðar.
Sjálfsmynd þjóðar
Þegar við hugsum til þess sem helst hefur mótað lýðveldið okkar og það sem skilgreinir okkur sem þjóð berst talið oft að menningunni; að tungumálinu, bókmenntunum og náttúrunni. Í sjálfstæðisbaráttunni var þjóðtungan ein helsta röksemd þess að Íslendingar væru sérstök þjóð og sjálfstæðiskröfur okkar réttmætar. Tungumálið er þannig lykillinn að sjálfsmynd okkar og sjálfsskilningi, og líkt og lýðræðið stendur íslenskan á ákveðnum tímamótum. Hvorugt ættum við að álíta sjálfsagðan hlut, hvorki þá né í dag. Íslensk stjórnvöld hafa í þessu samhengi kynnt heildstæða áætlun sem miðar að því að styrkja stöðu íslenskunnar. Aðgerðirnar snerta ólíkar hliðar þjóðlífsins en markmið þeirra ber að sama brunni; að tryggja að íslenska verði áfram notuð á öllum sviðum samfélagsins. Nýverið náðist sá ánægjulegi áfangi að Alþingi samþykkti samhljóða þingsályktunartillögu mína um eflingu íslensku sem opinbers máls á Íslandi. Megininntak hennar verða aðgerðir í 22 liðum sem snerta m.a. skólastarf, menningu, tækniþróun, nýsköpun, atvinnulíf og stjórnsýslu.
Mikilvægi kennarans
Kennarar og skólafólk eru lykilaðilar í því að vekja áhuga nemenda á íslensku máli en slíkur áhugi er forsenda þess að íslenskan þróist og dafni til framtíðar. Aukinheldur er kennarastarfið mikilvægasta starf samfélagsins, því það leggur grunninn að öllum öðrum störfum. Ef við ætlum okkur að vera í fremstu röð meðal þjóða heims verðum við að styrkja menntakerfið og efla alla umgjörð í kringum kennara á öllum skólastigum. Mikilvægt er að stuðla að viðurkenningu á störfum kennara, efla faglegt sjálfstæði og leggja áherslu á skólaþróun. Íslensk stjórnvöld hafa í samvinnu við fagfélög kennara, atvinnulíf, háskóla og sveitarfélög ýtt úr vör fjölþættum aðgerðum til þess að auka nýliðun í kennarastéttinni. Skemmst er frá því að segja að verulegur árangur er þegar farinn að skila sér af þeim aðgerðum en umsóknum um kennaranám hefur fjölgað umtalsvert í háskólum landsins. Kennarar eru lykilfólk í mótun framtíðarinnar og munu leggja grunninn að áframhaldandi framsókn íslensks samfélags um ókomna tíð – en öll efling menntunar stuðlar að jöfnuði, því að menntunin setur alla undir sömu áhrif og veitir þeim aðgang að sama sjóði þekkingar.
Sendiherrar um allan heim
Sem frjálst og fullvalda ríki eigum við að halda áfram að rækta góð samskipti við aðrar þjóðir og skapa tækifæri fyrir fólk og fyrirtæki til þess að reyna fyrir sér á erlendri grundu. Þar gegnir menntakerfið mikilvægu hlutverki en fjölmargir íslenskir námsmenn fara erlendis til þess að sækja sér þekkingu og að sama skapi kemur fjöldinn allur af erlendum námsmönnum hingað til lands í sömu erindagjörðum. Námsmenn verða á sinn hátt sendiherrar þeirra ríkja þar sem þeir dvelja, þó dvölin sé ekki löng geta tengslin varað alla ævi. Dæmin sanna að námsdvöl erlendis verður oft kveikja að mun dýpri og lengri samskiptum og það byggir brýr milli fólks og landa sem annars hefðu aldrei orðið til. Við sem þjóð búum að slíkum tengslum því með þeim ferðast þekking, skilningur, saga, menning og tungumál.
Gagnrýnin hugsun og frelsi
Samhliða öðrum samfélags- og tæknibreytingum stöndum við sífellt frammi fyrir nýjum og krefjandi áskorunum. Meðal þeirra helstu er gott læsi á upplýsingar og gagnrýnin hugsun til að greina rétt frá röngu. Við getum horft til afmælisbarns dagsins, Jóns Sigurðssonar forseta, í því samhengi. Hann hafði djúpstæð áhrif á Íslandssöguna sem fræði- og stjórnmálamaður, og fræðistörfin mótuðu um margt orðræðu hans á vettvangi stjórnmálanna. Hann var óhræddur við að vera á öndverðri skoðun en samtímamenn sínir, hann beitti gagnrýnni hugsun, rökum og staðreyndum, í sínum mikilvæga málflutningi. Það var raunsær hugsjónamaður sem kom okkur á braut sjálfstæðis. Gagnrýnin hugsun er að mínu mati það sem einna helst mun stuðla að jákvæðri þróun þessara tveggja lykilþátta; lýðræðisins og tungumálsins. Það sem helst vinnur gegn þeim eru áhuga- og afskiptaleysi. Virk þátttaka og rýni til gagns skila okkur mestum árangri, hvort sem verkefnin eru lítil eða risavaxin. Þjóðir sem annast sín eigin málefni sjálfar eru frjálsar og þeim vegnar betur.
Fögnum saman
Sú staðreynd að við getum fjölmennt á samkomur víða um land til þess að fagna þessum merka áfanga í sögu þjóðarinnar er ekki sjálfgefið. Sú elja og þrautseigja sem forfeður okkar sýndu í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar lagði grunninn að þeim stað sem við erum á í dag. Það er okkar og komandi kynslóða að halda áfram á þeim grunni og byggja upp gott, skapandi, fjölbreytt og öruggt samfélag þar sem allir geta fundið sína fjöl. Hafa skal í huga að í sögulegu samhengi, þá er lýðveldið okkar ungt að árum og við þurfum að hlúa stöðugt að því til þess að efla það. Okkur ber skylda til að afla okkur þekkingar um málefni líðandi stundar til að styrkja lýðræðið. Ég óska okkur öllum til hamingju með 75 ára afmæli lýðveldisins Íslands og ég vona að sem flestir gefi sér tækifæri til þess að taka þátt í viðburðum sem skipulagðir eru víða um land af þessu hátíðlega tilefni.
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. júní 2019.