Categories
Greinar

Að kvöldi þjóðhátíðardags 2019

Deila grein

17/06/2019

Að kvöldi þjóðhátíðardags 2019

Þá er þjóðhátíðardagur að kveldi kominn. 75 ára afmæli lýðveldisins Íslands var haldið hátíðlegt um allt land. Hátíðahöldin hjá mér hófust á Austurvelli, síðan færði ég mig inn í Alþingishúsið þar sem ungt fólk fyllti þingsal með sérstöku ungmennaþingi. Áherslur ungmennanna voru sérstaklega skýrar þegar kom að loftlagsmálum: Þau vilja skýra stefnu og aðgerðir. Að ungmennaþingi loknu tók ég ásamt þingflokki Framsóknar á móti gestum þegar dyr Alþingis voru opnaðar almenningi. Eftir góðan dag í borginni tók sveitin mín við okkur í þjóðhátíðarskapi, sólrík og fögur.

Það eru margar tilfinningar sem bærast innra með manni á þessum hátíðisdegi íslensku þjóðarinnar. Ættjarðarást, stolt og bjartsýni. Saga Íslands er ákaflega merkileg. Ekki er síst áhugavert að horfa eina og hálfa öld aftur í tímann og sjá þær breytingar og framfarir sem hafa orðið hér á landi. Við tókum stórt stökk inn í framtíðina og erum nú í fremstu röð þjóða miðað við alla helstu mælikvarða á lífsgæðum.

Við getum verið þakklát fyrri kynslóðum fyrir að koma samfélaginu á þann stað sem það er á núna.

Og heimurinn breytist hratt. Við þurfum ekki að horfa lengra aftur í tíma en fimmtán ár til að sjá hversu mikinn breytingatíma við upplifum. Fyrir sextán árum var ekki til Facebook, ekki Instagram, ekki Twitter, ekki Spotify. Fyrir þann tíma hafði netið breytt heiminum með aðgengi að upplýsingum og afþreyingu. Núna upplifum við nýjar víddir í samskiptum og samfélagi með tilkomu samfélagsmiðla. Við opnum glugga inn í líf okkar og skyggnumst inn um glugga í líf annarra. Þessar nýju víddir hafa ekki síst haft áhrif á stjórnmálin.

Áhrifin nýrra miðla sjást glöggt á kosningum víða um heim síðustu misserin. Allskonar óhróður og fals berst víða án þess að hægt sé að svara því og án þess að þeir sem að falsinu standa séu gerðir ábyrgir. Það er ekki síður óhugnanlegt að áhrifin af falsinu koma líka fram í heilsu mannkyns og tengist því að stækkandi hópur foreldra lætur ekki bólusetja börnin sín af ótta við að einhverfu. Sama hvað vísindasamfélagið gerir reynist erfitt að kveða niður þessa bábilju. Svipað ástand ríkir varðandi loftlagsmál og hamfarahlýnun.

Við þurfum að halda vöku okkar í aukinni öfgavæðingu samfélaga, vera vakandi fyrir breytingum á samfélaginu. Og þá þurfum við líka að þekkja söguna og samfélagið og vita hvað við stöndum fyrir og hvert við viljum stefna og ekki síst hvernig við viljum ná áfangastað. Í heimi lýðskrumsins er það ágreiningurinn, ofbeldið og uppskipting samfélagsins í með og á móti sem er vinsælust því það hefur reynst vel vestan hafs og austan.

Þegar þessi fallegi þjóðhátíðardagur er að kveldi kominn er ég fyrst og fremst þakklátur fyrir að vera hluti af þessari fámennu þjóð sem er svo ótrúlega fjölbreytt og kraftmikil. Hingað erum við komin. Þá er ekkert annað að gera en að halda áfram að byggja upp á Íslandi. Samfélög mega ekki hætta að þróast. Við erum öll þjóðin þátttakendur í að ákveða stefnuna og verkfæri okkar heitir stjórnmál.

Ég óska ykkur til hamingju með 75 ára lýðveldið Ísland.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.