Categories
Greinar

Matvælalöggjöf

Deila grein

18/06/2019

Matvælalöggjöf

Fyrir tíu árum var matvælalöggjöf EES innleidd á Íslandi. Tilgangur matvælalöggjafar EES er að tryggja gæði og öryggi matvæla og stöðu neytenda. Við gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og í þeirri stöðu eiga neytendur rétt á því að sambærilegar kröfur séu gerðar til innfluttra matvæla.

Varnir tryggðar

Framsóknarflokkurinn hefur í vetur tekið sér stöðu og verið óhræddur við að benda á þá ógn sem við stöndum frammi fyrir hvað varðar fjölónæmar bakteríur. Þessar áhyggjur eru ekki gripnar úr lausu lofti. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni er sýklalyfjaónæmi einhver mesta ógn við heilsufar manna í dag.

Undir þetta taka fjölmargir sérfræðingar á sviði sýkla- og veirufræða. Þeir hafa brýnt fyrir okkur að verja þurfi þá sérstöðu sem við búum við á Íslandi. Við afgreiðslu lagabreytinga um innflutning ferskra matvæla náðist góð samvinna í atvinnuveganefnd sem skilaði niðurstöðu sem rímar vel við landbúnaðarkafla stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Þar segir að Ísland eigi að vera leiðandi í framleiðslu á heilnæmum landbúnaðarafurðum en auk þess boðar ríkisstjórnin metnaðarfull áform í loftslagsmálum.

Aðgerðaráætlun um heilnæm matvæli

Afgreiðsla nefndarinnar skilaði þingsályktunartillögu sem felur í sér 17 aðgerðir til að tryggja heilnæm matvæli og vernd búfjárstofna hér á landi. Þar kveður á um bann við dreifingu kjöts sem inniheldur kamfýlobakter og salmonellu og aðgerðir til að koma í veg fyrir dreifingu matvæla sem innhalda sýklalyfjaónæmar bakteríur.

Í aðgerðaráætluninni er mikilvægi þess að setja á fót og virkja áhættumatsnefnd undirstrikað og ætla má að hún taki til starfa á næstu dögum. Þá er mælt fyrir um átak í merkingu matvæla auk þess sem bæta á upplýsingagjöf til ferðamanna.

Framsókn mun ekki liggja á liði sínu í eftirfylgni áætlunarinnar og einstakra aðgerða, enda er það forsenda fyrir aðgangi neytenda að heilnæmum matvælum og að heilbrigði búfjár sé tryggt hér á landi.

Halla Signý Kristjánsdóttir og Þórarinn Ingi Pétursson, alþingmenn Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 13. júní 2019.