Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður, skrifar um mjög áhugaverða grein í Bændablaðið í liðinni viku. Þar rekur Silja Dögg þær breytingar sem séu fyrirsjáanlegar varðandi framleiðslu jarðefnaeldsneytis, en að innan nokkurra áratuga muni sú framleiðsla dragast verulega saman. Stillir hún fram möguleikum um að framleiða nýja orkugjafa á Íslandi sem séu endurnýjanlegir og umhverfisvænir. „Að framleiða eigið eldsneyti í stað þess að flytja það inn til landsins eiga að kalla á umfangsmikla greiningu á þeim hagræna ávinningi sem mun skapast fyrir þjóðarbúið, bændur og framleiðendur og ekki síst út frá umhverfislegum markmiðum,“ segir Silja Dögg.
Í rannsóknum hefur komið fram að bíódísill úr repjuolíu geti komið í staðinn fyrir jarðefnaeldsneyti, bíódísill er lífræn dísilolía og endurnýjanlegur orkugjafi og telst einn umhverfishlutlausasti orkugjafinn sem getur komið í stað jarðdísilolíu á bíla, skip og flugvélar.
„Repjuræktun og framleiðsla á eldsneyti úr repjuolíu er sjálfbær leið til að sjá fiskiskipaflotanum fyrir eldsneyti sem ekki veldur koltvísýringsútblæstri. Við brennslu á bíódísil, sem framleiddur hefur verið úr repjuolíu, er talið að um rúmlega 70% minni mengun sé að ræða en þegar jarðdísill er notaður. Repjuræktun felur í sér tvöfalda kolefnisjöfnun með tilliti til útblásturs á koltvísýringi þar sem ræktunin tekur til sín tvöfalt meira af koltvísýringi en brennsla olíunnar gefur frá sér við útblástur,“ segir Silja Dögg.
„Undirbúa þarf sem fyrst og með kostgæfni notkun bíódísils á aðalvélar íslenskra skipa með hagkvæmni og umhverfislegan ávinning að leiðarljósi. Byrja mætti í minni skipum og síðan auka sviðið jafnt og þétt. Einnig mætti byrja á lágu íblöndunarhlutfalli bíódísils í jarðdísil eins og til dæmis 5% og hækka síðan hlutfallið jafnt og þétt með aukinni repjuræktun og framleiðslu á bíódísil.“
Silja Dögg hefur lagt fram skriflega fyrirspurn á Alþingi til samgönguráðherra varðandi ræktun og nýtingu íslenskra orkujurta fyrir fiskiskipaflotann. „Það verður áhugavert að sjá hver næstu skref verða í þeim efnum, þar sem stórkostlega tækifæri felast í aukinni nýtingu íslenskra orkujurta, ekki síst fyrir umhverfið og orkuöryggi þjóðarinnar.“
Categories
Stórkostleg tækifæri felast í aukinni nýtingu íslenskra orkujurta
02/07/2019
Stórkostleg tækifæri felast í aukinni nýtingu íslenskra orkujurta