Categories
Fréttir

Búa nemendur undir lífið – takast á við tilveruna

Deila grein

02/07/2019

Búa nemendur undir lífið – takast á við tilveruna

„Skapandi og gagnrýnin hugsun, læsi og þátttaka í lýðræðissamfélagi verður áfram undirstaða íslenska skólakerfisins. Á dögunum samþykkti Alþingi frumvarp sem festir í sessi faglega umgjörð um starfsemi lýðskóla. Til þessa hefur ekki verið nein löggjöf í gildi um slíka skóla,“ segir Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður í grein í Dagskránni Fréttablaði Suðurlands á dögunum.
„Hlutverk lýðskóla er fyrst og fremst að búa nemendur undir lífið, gera þá að fjölhæfum einstaklingum og reiðubúna til að takast á við tilveruna. Fjölbreytni er menntakerfinu mikilvæg, nemendur hafa ólíkar þarfir og þeir þurfa að hafa val um sitt nám. Meðal ástæðna brotthvarfs úr framhaldsskólunum okkar er ákveðin einsleitni í námsvali og það að nemendur finna sig ekki í námi. Það er vel að fjölbreytni námsframboðs hér á landi hefur aukist, ekki síst á framhaldsskólastiginu og að fleiri nemendur séu opnir fyrir námskostum t.d. á sviði verk- og tæknigreina,“ segir Silja Dögg.