Blindrafélagið, samtök blindra og sjónskertra á Íslandi, fagnaði áttatíu ára afmæli þann 19. ágúst síðastliðinn. Frá upphafi hefur félagið unnið að hagsmunamálum blindra og sjónskertra auk þess að veita margvíslega þjónustu og standa fyrir öflugu félagsstarfi, fræðslu og jafningjastuðningi. Félagið hefur jafnframt stuðlað að því að tryggja samræmda heild í þjónustunni þar sem ríki, sveitarfélög og hagsmunasamtök notenda hafa tekið höndum saman með góðum árangri.
Á liðnum árum hefur Blindrafélagið unnið markvisst að því að fjölga leiðsöguhundum til að mæta þörfum félagsmanna sinna. Áratugahefð er fyrir því að blindir og sjónskertir um nánast allan heim nýti hunda í daglegu lífi til þess að komast á milli staða. Hefðin er ekki eins rík hér á landi en á rætur að rekja til þess að fyrir rúmum tíu árum safnaði Blindrafélagið ásamt Lionshreyfingunni á Íslandi fyrir fjórum leiðsöguhundum sem keyptir voru frá Noregi. Það markaði upphafið að því sem síðan hefur verið kallað leiðsöguhundaverkefnið og félagið stendur að í samvinnu við Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu.
Tólf leiðsöguhundar hafa verið keyptir í gegnum þetta verkefni á síðastliðnum tíu árum og sem stendur eru átta leiðsöguhundar hér á landi. Fimm koma fullþjálfaðir frá Svíþjóð og þrír eru fæddir og þjálfaðir hér á Íslandi. Hundarnir mættu hins vegar vera fleiri enda eru þeir afar mikilvægur liður í því að auka sjálfstæði blindra og aðlögun þeirra og þátttöku í samfélaginu.
Fyrir liggur greinargóð skýrsla Blindrafélagsins og fyrrnefndrar Þjónustu og þekkingarmiðstöðvar um hvernig staðið hefur verið að þjálfun, fjármögnun og úthlutun á leiðsöguhundum hér á landi. Þar er jafnframt að finna tillögur til framtíðar. Í tilefni afmælis félagsins ákvað ég að leggja verkefninu lið með þriggja milljón króna styrk fyrir kaupum og þjálfun á leiðsöguhundi. Hugmyndin er að flýta þannig fyrir framvindu verkefnisins. Þá hyggst ég stofna sérstakan samráðshóp sem fær það hlutverk að vinna að framþróun verkefnisins með tilliti til þeirra tillagna sem komið hafa fram.
Blindrafélagið hefur alla tíð vakað yfir þörfum félagsmanna og stöðugt leitað leiða til að sækja fram á við með það að markmiði að bæta lífskjör og aðstæður þeirra. Leiðsöguhundaverkefnið er skýrt dæmi þess.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. ágúst 2019.