Categories
Fréttir

„Við flýjum ekki af hólmi þegar berjast þarf fyrir hagsmunum þjóðarinnar“

Deila grein

28/08/2019

„Við flýjum ekki af hólmi þegar berjast þarf fyrir hagsmunum þjóðarinnar“

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar, sagði í umræðu um 3. orkupakkan, ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn, að ekkert nýtt hafi komið fram sem ekki hefur verið hrakið af helstu lögspekingum landsins og öðrum sérfræðingum, bæði varðandi stjórnarskrá Íslands og einnig varðandi EES-samninginn sjálfan. „Hluti hans hefur áður verið tekinn inn í lög og reglugerðir og þá vinnu leiddu meira að segja þeir sem harðast berjast gegn honum í dag,“ sagði Sigurður Ingi.

Hvað felst þingsályktunartillögu og lagafrumvörpum sem rætt er um?

„Að hagsmunir neytenda verða betur varðir með sjálfstæðari og sterkari íslenskri Orkustofnun og svo hitt. Að ólíkt því sem gildir í dag verður ekki lagður raforkusæstrengur til Íslands án þess að Alþingi Íslendinga taki um það sérstaka ákvörðun fyrir utan þau réttindi sem Íslendingar hafa auðvitað í gegnum hafréttarsáttmálann sem færir okkur Íslendingum full yfirráð yfir landgrunni og landhelgi okkar.

 • Öllum spurningum um fullveldi og mögulegt fullveldisafsal hefur verið svarað með aðgerðum ríkisstjórnarinnar.

 • Utanríkisráðherra og orkumálastjóri Evrópusambandsins hafa undirritað sameiginlega yfirlýsingu sem staðfestir þann skilning íslenskra yfirvalda að reglur sameiginlega orkumarkaðarins í Evrópu gildi ekki hér þar sem við erum ótengd. Þessi yfirlýsing sýnir að þótt við tengdumst með raforkusæstreng væri Ísland enn með stöðu einangraðs orkukerfis ótengt, sem eyja.

 • Enn fremur hefur verið fengin yfirlýsing EFTA-landanna sama efnis sem fulltrúar ESB í sameiginlegu EES-nefndinni mótmæltu ekki. Annars vegar hefur yfirlýsing ráðherranna pólitískt gildi og hins vegar bókun í sameiginlegu EES-nefndinni þjóðréttarlegt gildi samkvæmt 31. gr. Vínarsáttmálans.

 • Auk þess liggur fyrir áðurnefnt frumvarp sem við ræðum á morgun sem tryggir að ákvörðun um raforkusæstreng verður aðeins tekin á Alþingi Íslendinga.“

Um hvað snýst þá málið?

„Jú, hún snýst um að róta í sama grugguga vatninu og helst er í tísku að róta í víða um heim og felur í sér að etja borgurunum saman til að ná völdum. Þeir sem harðast hafa barist gegn orkupakkanum hafa hrakist frá einum hálfsannleik til annars í málflutningi sínum og hafa allar svokallaðar röksemdir verið hraktar þegar þær hafa komið fram.
Það styttist í ellefu ára afmæli hrunsins. Við erum enn að berjast við að græða þetta stóra sár sem það skildi eftir og einkennist helst af skorti á trausti. Því finna allir fyrir. Það sár verður ekki grætt og það traust verður ekki endurheimt með því að hlaupa eftir órökstuddum fullyrðingum manna sem hafa það eitt á stefnuskránni að magna upp ófrið í samfélaginu, helst til að breiða yfir eigin vandræði.

 • Við erum ekki kosin á Alþingi Íslendinga til að takmarka tækifæri komandi kynslóða.

 • Við erum heldur ekki kosin á Alþingi til að hafa vit fyrir þeim.

 • Við erum kosin til að tryggja aukin tækifæri, stærri tækifæri fyrir framtíðina og það hefur sýnt sig að framtíðinni er oftast betur treystandi en fortíðinni.

Framsókn hefur ætíð verið framsækinn og alþjóðasinnaður flokkur og það sem felst í því að vera alþjóðasinnaðir er að hafa sterkar tengingar til nágranna- og vinaþjóða í gegnum bandalög og samninga.

 • Ég nefni Norðurlandaráð og Norðurlandasamstarf.

 • Ég nefni NATO, samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og fjölmarga fríverslunarsamninga við þjóðir úti um allan heim.

Ég heyri í umræðunni að margir eru farnir að óttast, jafnvel fyrirlíta, þennan stimpil, alþjóðasinnaður. Þeir telja felast í honum afsal valds og undirlægjuhátt.
Þá ber að horfa til þess að Íslendingar hafa allt frá landnámi, líkt og allar þjóðir, búið í samfélagi með öðrum þjóðum, misjafnlega nánu og niðurnjörvuðu.

 • Við höfum verið undir konungum Noregs og Danmerkur, þjóða sem í dag eru okkar helstu vina- og samstarfsþjóðir.

 • Öllu skynsömu fólki hlýtur að vera ljóst hversu gríðarlega mikilvægur samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið er Íslendingum.

 • Við erum alþjóðasinnað samfélag sem á allt sitt undir því að vera í góðum samskiptum við viðskiptaþjóðir okkar.

Alþjóðasamningar eru okkur öllum mikilvægir. Horfum bara á sjávarútveginn með sína mikilvægu vinnustaði á sjó og landi.

 • Horfum á tæknigeirann, Marel, 3X, Össur.

 • Horfum á nýsköpunarfyrirtækin, Kerecis á Ísafirði, CCP hér í Reykjavík, landbúnaðinn, orkufyrirtækin, iðnaðinn, skapandi greinarnar, ferðaþjónustuna sem hefur eflt samfélag um allt land.

Fyrir hverju eiga íslenskir stjórnmálamenn að berjast ef ekki fyrir því að næstu kynslóðir Íslendinga sjái sér hag í að búa og starfa á þessu fallega landi, alls staðar á landinu og gegnum alþjóðasamninga að koma vöru sinni á markað heimsins.

Við Íslendingar stöndum árið 2019 frjáls og fullvalda þjóð og getum borið höfuðið hátt, þjóð sem má segja að hafi áhrif í heiminum langt umfram það sem eðlilegt má teljast ef miðað væri við höfðatölu.

Sú staða hefur ekki síst náðst fyrir tilstilli Framsóknar og þeirrar gríðarlegu áhrifa sem flokkurinn hefur haft á íslenskt samfélag í ríflega aldarlangri sögu sinni.
Sú staða hefur ekki náðst með því að við sitjum heima, bak við læstar dyr, heldur vegna þess að við þorum að vera í alþjóðlegu samstarfi, vegna þess að

 • við flýjum ekki af hólmi við stjórn landsins.

 • Við flýjum ekki af hólmi þegar berjast þarf fyrir hagsmunum þjóðarinnar.

Í pólitík er mikilvægt að vita hvenær á að taka slaginn og hvenær á ekki að taka slaginn. Saga Framsóknar sannar að við höfum jafnan borið gæfu til að taka yfirvegaðar ákvarðanir frekar en að slá frá okkur þegar aðrir ragmana okkur.

 • Það þarf kjark til að hugsa um hagsmuni heildarinnar, um heildarhagsmuni Íslands.

 • Það þarf sterk bein til að sitja undir aðdróttunum og jafnvel svívirðingum sem hafðar hafa verið uppi síðustu mánuðina.

Þetta er eins og á sveitaböllunum í gamla daga. Það gáfust mörg tækifærin til slagsmála þegar einstaka ófriðarmaður bauð upp í slíkan dans. Það þarf hins vegar ekki alltaf að taka þátt í þeim slagsmálum. Þau skila engu.
Þessi ríkisstjórn stendur þéttan vörð um heildarhagsmuni íslensku þjóðarinnar og tekur þá slagi sem þarf að taka. Það er mikilvægt þegar kemur að auðlindum Íslands að tryggja full yfirráð þjóðarinnar yfir þeim.

 • Það er mikilvægt að við hugsum um hagsmuni heildarinnar í bráð og í lengd.

 • Það er einnig mikilvægt að við tökum ákvarðanir um hagsmuni þjóðarinnar á réttum forsendum, að við göngum ekki inn í stjórnmál reiðinnar, stjórnmál óttans og gerum þau að okkar lögheimili og varnarþingi.

Eftir átök þessa þings hlýtur öllum að vera ljóst að við þurfum að leggja mun meiri áherslu á hagsmuni Íslands í allri vinnu varðandi EES-samninginn.
Orkupakki þrjú kom á sjóndeildarhringinn fyrir meira en tíu árum og algjörlega óeðlilegt að málið hafi ekki komist inn í almenna umræðu fyrr en á síðasta ári.
Það er líka alvarlegt hvernig haldið var á málum varðandi innflutning á kjöti á sínum tíma. Þeir sem koma að vinnu við EES-samninginn fyrir Íslands hönd verða að gera sér fulla grein fyrir því að hagsmunir Íslands ganga öllum hagsmunum framar við samningaborðið.
Það er síðan íslenskra stjórnmála að skilgreina betur ríka hagsmuni Íslands og slá hreinni og sterkari tón í hagsmunagæslunni.
Eitt af því jákvæða sem hatrömm umræða síðustu mánaða ætti að kenna okkur og við að taka með okkur út úr henni er að við verðum að vera grimmari á fyrstu stigum hvers máls sem kemur upp í EES-samningnum og við verðum smæðar okkar vegna að forgangsraða kröftunum og einbeita okkur að hagsmunum sem tengjast auðlindum okkar. Með öðrum orðum: Allt frá fyrsta degi umræðu, til að mynda um orkupakka fjögur, verður að greina áhrifin og tryggja íslenska hagsmuni, m.a. með ítrekun á núverandi fyrirvörum með bókunum á fyrstu stigum máls.

 • Ríkisstjórnin hefur sett aukinn kraft og mannafla til að geta verið öflugri í hagsmunagæslunni á fyrstu stigum.

En hvernig höfum við í ríkisstjórnarflokkunum nálgast þetta verkefni?

Jú, við höfum hlustað á áhyggjur manna. Við höfum kallað til sérfræðinga. Við höfum hlustað á álit. Við höfum komist að niðurstöðu.
Hagsmunir Íslands eru tryggðir með fyrirvörum og aðgerðum sem eru skrifaðir eftir ráðgjöf helstu sérfræðinga og taka tillit til þeirra áhyggjuradda sem hafa verið uppi í samfélaginu, ekki fyrirvörum sem eru settir einhliða af Alþingi heldur hafa bréfin tvö sem bárust í vor, annars vegar frá EFTA og hins vegar orkumálastjóra Evrópusambandsins, bæði pólitískt og þjóðréttarlegt gildi samkvæmt Vínarsáttmálanum.

 • Slíkar yfirlýsingar eru bindandi. Um það hafa fallið fjölmargir dómar sem sérfræðingar hafa vitnað um fyrir utanríkismálanefnd.

 • Ísland er fullvalda ríki.

 • Hingað leggur enginn sæstreng, virkjar eða fer í nokkrar mannvirkjaframkvæmdir án aðkomu íslenskra yfirvalda. Með aðgerðum ríkisstjórnarinnar verður það enn erfiðara en til að mynda nú.

 • Það er ekki minnst á skyldu Íslendinga í orkupakka þrjú til að leggja sæstreng. Það hefur verið hrakið margsinnis. Engin grein pakkans fjallar um það.

 • Ekki er um að ræða neitt brot á fjórfrelsinu ef íslensk stjórnvöld neita að leggja hingað streng. Fjórfrelsið fjallar um viðskiptahindranir. Það er ekki viðskiptahindrun að neita að byggja mannvirki.

 • Við höfum okkar eigið regluverk, hafréttarsáttmála, skipulagslög, sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga og eftir morgundaginn frumvarp þar sem Alþingi tekur ákvörðunina og margt fleira.

 • Það er ekki verið að framselja vald til erlendra stofnana með innleiðingu á orkupakka þrjú. Þátttaka EFTA-ríkjanna byggir á tveggja stoða kerfinu.

 • Eins og orkupakki þrjú er lagður fram er heldur ekki um brot á stjórnarskrá að ræða, samanber álit allra okkar helstu sérfræðinga, líka þeirra sem voru með efasemdir í upphafi, alveg eins og við Framsóknarmenn. Þess vegna stöldruðum við við og fundum leiðir sem tryggðu hagsmuni Íslands, fullveldi og yfirráð okkar yfir auðlindum landsins, líka orkuauðlindinni sem er ein okkar allra mikilvægasta auðlind til langrar framtíðar.

Ég hef hlustað á umræðuna í allan dag og fylgst með umræðunni í sumar. Það hefur ekkert breyst frá yfirferð utanríkismálanefndar frá því í vor nema hvað þessi lykilatriði eru orðin enn skýrari en áður. Því er meirihlutaálit utanríkismálanefndar enn í fullu gildi. Þar stendur í næstsíðustu málsgreininni, með leyfi forseta:

„Framangreindar yfirlýsingar hafa bæði pólitískt og þjóðréttarlegt gildi. Í tilkynningu Íslands til EFTA-skrifstofunnar um afléttingu stjórnskipulegs fyrirvara verður vísað sérstaklega bæði til yfirlýsingar framkvæmdastjóra orkumála í framkvæmdastjórn ESB og utanríkisráðherra frá 20. mars sl. og til sameiginlegrar yfirlýsingar EFTA-ríkjanna innan EES sem gefin var í sameiginlegu EES-nefndinni 8. maí sl. Þar með er skjalfestur sá sameiginlegi skilningur allra aðila að Ísland hafi eftir sem áður full yfirráð yfir orkuauðlindum sínum.“

Móttaka þessa formlega bréfs þegar það fer án andmæla er enn ein staðfesting á máli okkar.

Ég hef hins vegar fullan skilning á áhyggjum margra landsmanna, ekki síst í ljósi þróunar heimsmála þar sem við höfum séð meiri uppskiptingu auðs þar sem þeir ríkari verða ríkari og frekari til fjár og áhrifa en aðrir bera minna úr býtum.

Ein birtingarmynd hérlendis er uppkaup auðmanna, ekki síst erlendra, á landi á Íslandi. Margir landsmenn hafa rætt það í tengslum við orkupakka þrjú sem auðvitað tengist því ekki neitt.

 • Þar er nefnilega við okkur sjálf að eiga. Við höfum ekki borið gæfu til, alla vega ekki hingað til, að setja regluverk um kaup á landi og endurskoða þar með þá löggjöf sem sett var fyrir fimmtán árum og opnaði allar gáttir og tók út allar hindranir. Ríkisstjórnin hefur hins vegar í hyggju að setja aftur á slíkar reglur.

 • Annað atriði sem margir ræða í tengslum við orkupakka þrjú en hefur heldur ekkert með orkupakka þrjú að gera er mismunandi dreifingarkostnaður á rafmagni í landi og síhækkandi kostnaður við dreifingu, ekki síst í dreifbýli. Þar sem auðlindin er að langmestu leyti í eigu almennings ættu auðvitað allir landsmenn að sitja við sama borð þegar kemur að dreifingarkostnaði. Það er jafnræði.

En núverandi fyrirkomulag er ekki vegna orkupakka eitt eða tvö.

Þetta eru íslensk lög sem við sjálf getum sett og núverandi ríkisstjórn ætlar sér að breyta. Við getum líka sett ákvæði um sameign þjóðarinnar á auðlindum til að tryggja þetta enn frekar.
Þannig er margt sem rætt er um í tengslum við orkupakka þrjú sem hefur ekkert með hann að gera en eru hins vegar mjög mikilvæg mál sem við þurfum að setja á dagskrá, þurfum að sammælast hér í þinginu um að klára á næstu vikum, mánuðum, misserum. Það erum við svo sannarlega klár í í ríkisstjórnarflokkunum.

 • Við ætlum að taka þessi mál því að þau eru í okkar eigin höndum, þau varða ekki Evrópusambandið eða orkupakka þrjú eða EES-samninginn, þau eru í okkar höndum.

 • Við ætlum í ríkisstjórnarflokkunum að breyta í þágu almennings á Íslandi.“