Categories
Greinar

Samvinna er svarið

Deila grein

10/10/2019

Samvinna er svarið

Mál­efni norður­slóða eru for­gangs­mál í ís­lenskri ut­an­rík­is­stefnu og má þá áherslu greina glöggt í stjórn­arsátt­mála rík­is­stjórn­ar­inn­ar. Hags­mun­ir Íslands eru mikl­ir en augu alþjóðasam­fé­lags­ins bein­ast í aukn­um mæli að norður­slóðum og sum­ir ræða um að ákveðið kapp­hlaup sé hafið um yf­ir­ráð á þessu víðfeðma svæði. Ísland tók við for­mennsku í Norður­skauts­ráðinu á þessu ári en ráðið er þunga­miðja í okk­ar alþjóðasam­starfi á norður­slóðum. Megin­á­hersl­ur ráðsins á um­hverf­is­mál og sjálf­bæra þróun gera það að verk­um að vís­indi og rann­sókn­ir skipa stór­an sess í störf­um ráðsins. Í ljósi þró­un­ar síðustu miss­era verður æ brýnna að stefnu­mót­un stjórn­valda á norður­slóðum bygg­ist á vís­inda­leg­um grunni og virkri sam­vinnu.

Árang­urs­rík sam­vinna

Ísland og Jap­an hafa um ára­tuga skeið átt frjótt vís­inda­sam­starf á norður­slóðum og það sam­band hyggj­umst við treysta til framtíðar. Ísland og Jap­an standa sam­eig­in­lega að alþjóðleg­um ráðherra­fundi um vís­indi á norður­slóðum í Tókýó í nóv­em­ber 2020. Fund­ur­inn verður sá þriðji í fundaröð sem hófst árið 2016 í Washingt­on, D.C. Ráðherr­ar vís­inda­mála, hvaðanæva úr heim­in­um, munu koma sam­an til að ræða aðgerðir og stefnu­mót­un í mál­efn­um norður­slóða. Það er þörf á auknu alþjóðlegu sam­starfi um rann­sókn­ir á norður­slóðum og ráðherra­fund­irn­ir eru þýðing­ar­mik­ill vett­vang­ur fyr­ir umræðu um sam­eig­in­leg­ar áskor­an­ir okk­ar. Við þurf­um að þekkja stefnu, áhersl­ur og innviði sam­starfs­ríkja til þess að þróa ár­ang­urs­ríka sam­vinnu á sviði vís­inda og rann­sókna, ekki síst í sam­hengi við hlýn­un á norður­slóðum og að mínu mati hvíl­ir á okk­ur ákveðin skylda til þess að vinna sam­an.

Mik­il­vægi mennt­un­ar og vís­inda

Íslensk­ir vís­inda­menn og stofn­an­ir búa yfir dýr­mætri reynslu og þekk­ingu á fjöl­mörg­um sviðum norður­slóðarann­sókna, má þar sem dæmi nefna jökla­rann­sókn­ir, rann­sókn­ir á sam­fé­lags­leg­um áhrif­um lofts­lags­breyt­inga, breyt­ing­um á vist­kerfi sjáv­ar og kort­lagn­ingu hafs­botns­ins. Þá gegn­ir mennta­kerfið lyk­il­hlut­verki í að miðla þekk­ingu til kom­andi kyn­slóða og kveikja áhuga ungs fólks á mál­efn­um norður­slóða, til að mynda með auk­inni áherslu á raun­greina­kennslu og með því að efla vís­inda­áhuga barna og ung­linga á fjöl­breytt­um sviðum.

Gagn­sæi og virk þátt­taka

Við erum þakk­lát fyr­ir það góða sam­band sem er milli Íslands og Jap­an. Sem eyjaþjóðir deil­um við meðal ann­ars áhyggj­um af heil­brigði og lífsþrótti sjáv­ar. Sam­eig­in­lega fleti má einnig finna í áhersl­um ríkj­anna á um­hverf­is­vernd og sjálf­bærni. Leiðarljós í sam­vinnu land­anna í tengsl­um við ráðherra­fund­inn og í áfram­hald­andi sam­starfi okk­ar er gagn­sæi, hag­nýt­ing vís­inda og miðlun. Lögð verður rík áhersla á virkja sem flesta í aðdrag­anda fund­ar­ins og hefst það ferli form­lega í dag, í tengsl­um við Hring­borð norður­slóða. Við finn­um þegar fyr­ir mikl­um áhuga á ráðherra­fund­in­um og trú­um því að hann verði mik­il­væg­ur vett­vang­ur fyr­ir leiðtoga, bæði á hinu póli­tíska sviði og inn­an vís­inda­heims­ins, til þess að ræða aðgerðir og for­gangs­röðun.

Sam­vinna við alla aðila, jafnt inn­an sem utan norður­slóða, mun skipta miklu fyr­ir hag­sæld og ör­yggi á svæðinu. Með aukn­um sigl­ing­um og starf­semi gæti áhersla á sjálf­bæra þróun orðið mik­il­væg­ur liður í að draga úr spennu á svæðinu, t.d. vegna auk­inna hernaðar­um­svifa. Í ljósi þess hve viðkvæmt og marg­brotið svæði norður­slóðir eru, hvort sem litið er til um­hverf­is, ör­ygg­is­mála, efna­hags­legra eða fé­lags­legra þátta, er brýnt að stefnu­mót­un fyr­ir svæðið í heild sinni ein­kenn­ist áfram af stöðug­leika, sjálf­bærni og sam­vinnu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. október 2019.