Categories
Fréttir

„Við framræslu votlendis á Íslandi voru gerð margvísleg mistök“

Deila grein

09/10/2019

„Við framræslu votlendis á Íslandi voru gerð margvísleg mistök“

„Framræst votlendi getur losað mikið af gróðurhúsalofttegundum, þegar gróðurleifar rotna hraðar í þurru landi en blautu. Gleymum samt ekki að náttúran stendur aldrei í stað, hún breytist sífellt eftir árstíðum og með tímanum og lengd grafinna skurða er ekki mælikvarði á losun,“ sagði Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, í störfum þingsins á dögunum.
„Þannig hefur náttúran nú þegar leyst vandann sums staðar og er búin að bleyta upp í landi sem áður var ræst. Annars staðar er hún á góðri leið með það. Þá er töluvert til af skurðum sem breyttu aldrei neinu því að náttúran lék bæði á mælingarmennina og gröfumennina.“

Flestir skurðir á Íslandi voru grafnir milli 1950 og 1970. Síðan hafa skurðir vegna landbúnaðar einkum verið grafnir til að viðhalda eða bæta framræslu á áður þurrkuðu landi. Það tekur lífrænt efni, mólag, sem er einn metri á þykkt meira en 100 ár að rotna. Á meðan losna gróðurhúsalofttegundir. Lífrænt efni í mýrum er hins vegar mjög misþykkt. Sumt framræst votlendi losar enn mikið en annað gerir það ekki. Rotnun losar líka um næringarefni sem aftur getur aukið grasvöxt og þar með bindingu í hringrás árstíðanna en auk þess getur losunin dregið úr áburðarþörf í landbúnaði.
Endurheimt verður að ígrunda vel, gæta þess að opna ekki land fyrir jarðvegsrofi og muna að allt votlendi þarf afrennsli. Snögg umbreyting getur líka veikt gróðurþekju og mótstöðu vistkerfa. Ef mögulegt er leyfum votlendi sem ekki er notað að blotna upp vegna verkunar náttúrunnar sjálfrar, leyfum skurðum að síga saman og breytast aftur í læki. Notum sem minnst inngrip.

„Við framræslu votlendis á Íslandi voru gerð margvísleg mistök. Dettum ekki í sömu gryfju við endurheimtina. Henni verður ekki best sinnt með gulum gröfum út um allar flár og flóa. Notum skynsemina og vísindin og nýtum fjármagn til endurheimtar vistkerfa vel. Það verður að taka út hvert svæði áður en endurheimt hefst,“ sagði Líneik Anna.