Categories
Fréttir

Vonbrigði að málið sé ekki enn komið fyrir Alþingi

Deila grein

08/10/2019

Vonbrigði að málið sé ekki enn komið fyrir Alþingi

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, var  málshefjandi í sérstakri umræðu um jarðamál og eignarhald lands á Alþingi í dag.
„Land er auðlind, landið sjálft, jarðvegurinn og gróðurinn sem þar þrífst. Fyrir tæpu ári átti ég hér orðastað við hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um eignarhald á bújörðum og mögulegar takmarkanir á því samkvæmt ákvæðum ábúðar- og jarðalaga. Sú umræða fór fram í kjölfar þess að starfshópur um endurskoðun eignarhalds á bújörðum skilaði af sér tillögum og skýrslu. Í framhaldinu var sett af stað vinna á vegum forsætisráðuneytisins,“ sagði Líneik Anna.
Um mitt þetta ár átti Líneik Anna orðastað við forsætisráðherra í fyrirspurnatíma og lýsti hún nú því yfir að það væru vonbrigði að vinna ráðuneytisins væri ekki enn komin til umræðu á Alþingi. Hún taldi sér kunnugt um að vinnan væri enn í gangi og kærkomið tækifæri nú að ræða framvindu vinnunnar í þingsal og fá frekari upplýsingar.
„Mig langar því að spyrja:

Hver er staðan í vinnu á vegum forsætisráðuneytisins við gerð skýrari lagaramma fyrir jarða- og landaviðskipti?
Er vinnan sem fram fer bundin við jarða- og ábúðarlög eða falla fleiri aðgerðir og verkefni þar undir?“

Minnti hún á að þingflokkur Framsóknarmanna hafi lagt fram þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun til styrkingar á lagaumgjörð og reglum um ráðstöfun og nýtingu auðlinda á landi ásamt aðgerðum til að styrkja grundvöll til eftirfylgni slíkra reglna. Aðgerðaáætlunin hafi það að markmiði að tryggja eignarhald landsmanna á jörðum, þ.e. auðlindum á Íslandi, ásamt því að skapa frekari tækifæri til heilsársbúsetu í dreifbýli og til fjölbreyttrar, sjálfbærrar landnýtingar og matvælaframleiðslu í landinu.
„Tillagan felur í sér sjö verkefni og aðgerðir sem öllum er ætlað að bæta umsýslu lands því að það eru ekki til nein ein töfralausn til að bæta umgjörðina. Lög, stjórntæki og verklag verður að mynda eina heild ef vel á að takast til. Verkefnin eru:

1. Lögfestar verði reglur um að skilgreind tengsl við Ísland séu forsenda fyrir eignarhaldi á jörðum hér á landi og um takmarkanir á fjölda jarðeigna í eigu sama aðila.
2. Jarðakaup verði leyfisskyld.
3. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið flýti gerð leiðbeininga um flokkun landbúnaðarlands og móti leiðir til að skilgreina búsetuskyldu í dreifbýli við skipulagsgerð.
4. Löggjöf á sviði skráningar landeigna og eignarmarka verði endurskoðuð og bætt.
5. Fasteignamat í dreifbýli verði uppfært en dæmi er um að fasteignamat jarða hafi ekki verið uppfært í áratugi. Það mætti nýta sem stjórntæki.
6. Komið verði á lánasjóði vegna jarðakaupa.
7. Lög er varða ráðstöfun jarða og auðlinda á landi verði endurskoðuð í ljósi framvindu annarra aðgerða og reynslu af lögunum. Það þarf m.a. að tryggja betur að tekjur af landi og hlunnindum skili sér til þeirra sem vilja búa í dreifbýli og til dreifbýlissamfélaganna.

Mér leikur því einnig forvitni á að vita að hve miklu leyti vinna forsætisráðuneytisins nær yfir eða skarast við þessar aðgerðir,“ sagði Líneik Anna.
(Svör forsætisráðherra koma inn síðar)