Með breytingum á sveitarstjórnarlögum 2018 var sett inn ákvæði um að sveitarstjórnarráðherra geri áætlun um framtíðarsýn ríkisins í málefnum sveitarfélaganna, skal áætlunin gerð til 15 ára með aðgerðaráætlun til 5 ár. Nú hefur sveitarstjórnarráðherra lagt fyrir Alþingi slíka áætlun í formi þingsáætlunartillögu.
Áætlun þessari er ætlað að setja ramma um fjölmörg atriði og áherslur ríkisins um starfsemi sveitarfélaga sem þeim ætlað að starfa eftir. Einnig er fjallað um samstarf ríkis og sveitarfélaga.
Megin markmið áætlunarinnar er að efla sveitarstjórnarstigið þannig að sveitarfélögin verði öflug stjórnsýslueining sem geti borið ábyrgð á rekstri nærþjónustu byggðanna þannig að öllum íbúum landsins sé tryggð sambærileg grunnþjónusta auk þess að tryggja lýðræðislega stjórnun þeirra ásamt því að auka aðkomu íbúanna til að hafa áhrif á starfsemi sveitarfélaganna.
Til að ná þessum markmiðum verða sveitarfélögin að stækka og stjórn þeirra að eflast, þess vegna er lagt til að settar verði reglur um lágmarksíbúafjölda í sveitarfélögunum og þannig að ekkert sveitarfélag verði með minna en 1000 íbúa árið 2026.
Þá er lögð áhersla á aukið íbúalýðræði en nú er tækniþróunin orðin þannig að öll mannleg samskipti verða mun auðveldari.
Eitt af áhyggjuefnunum er starfsumhverfi sveitarstjórnarmanna í minni sveitarfélögunum þar sem erfitt er að sinna þeim störfum með fullri vinnu, það verður til þess að fólk endist mjög stutt í sveitarstjórnarstörfunum. Ef styrking sveitarfélaganna gengur eftir yrði auðveldara að greiða sveitarstjórnarmönnum eðlilega fyrir sína vinnu og þar með yrðu störf þeirra áhugaverðari.
Þá er lögð áhersla á fjárhagslega styrkingu sveitarstjórnarstigsins með bættri fjárhagslegri stöðu þeirra.
Jöfnunarsjóði er ætlað að koma myndarlega að verkefninu með sérstökum framlögum til þeirra sveitarfélaga sem sameinast.
Þessar tillögur munu hafa veruleg áhrif að eflingu sveitarfélaganna til að takast á við þróun og eflingu byggðarlaganna, sveitarfélögin eru sterkasta aflið til að berjast fyrir hagsmunum og eflingu byggðanna þess vegna er mjög mikilvægt að efla og styrkja stöðu sveitarfálaganna.
Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga hefur lagt áherslu á framgang málsins og auka Landsþing sambandsins samþykkt að mæla með samþykkt þingnáætlunartilögunnar með miklum meirihluta.
Nú er komið að alþingi að afgreiða málið og trúi ég að alþingismenn klári það með myndar brag og átti sig á mikilvægi þess að sveitarstjórnarstigið taki breytingum í samræmi við þær miklu breytingar sem hafa orðið í þjóðfélaginu á síðustu áratugum ekki síst í rekstri og umfangi sveitarfélaganna.
Þessi breyting er nauðsynleg, ef hún gengur ekki eftir er hætta á að til verði þriðja stjórnsýslustigið sem mér heyrist enginn vilji að gerist. Sú þróun hefur verið vaxandi að ríkiskerfið snúi sér að landshlutasamtökum sveitarfélaga þegar um er að ræða stærri mál og gangi þá fram hjá sveitarfélögunum vegna þess flækjustigs sem er að ná og hafa samband við mörg og jafnvel sundurleit sveitarfélög.
Austfirðingar eru á undan öðrum svæðum að hugsa til framtíðar og leifa sér að vera með nýja sýn á þessum málum þar sem þeir skynja þörfina fyrir samtakamættinum og ætla að nýta tæknina til að auðvelda að hugsa út fyrir boxið, ég tek ofan fyrir þeim.
Að lokum vil ég hvetja sveitarstjórnir til að grípa þetta tækifæri og setja fram tillögur á sínum svæðum í samráði víð íbúa um sameiningu og eflingu sveitarfélaganna þannig að íbúarnir geti tekið upplýsta ákvörðun um ný mörk sveitarfélaganna það yrði stórt skref í eflingu byggðarlaganna.
Valgarður Hilmarsson, fyrverandi sveitarstjórnarmaður og formaður starfshóps um málefni sveitarfélaga.