Categories
Fréttir

Tæki 40 ár að uppfylla fyrirliggjandi samninga

Deila grein

10/10/2019

Tæki 40 ár að uppfylla fyrirliggjandi samninga

Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, benti á í störfum þingsins í gær, að umræða um loftslagsmál og bindingu kolefnis hafi varla farið fram hjá íbúum þessa lands.
„Að rækta skóg er einn af þeim þáttum sem horft er til er binda á kolefni. Blásið hefur verið til sóknar í skógrækt og landgræðslu af hálfu stjórnvalda, en einhver brotalöm er á því ferli því að frá árinu 2008 hefur orðið meira en 40% samdráttur í fjárveitingum og umsvifum í skógrækt á lögbýlum. Ríkið stendur ekki við samninga við bændur, og þrátt fyrir að í þeim sé gert ráð fyrir að það taki tíu ár að gróðursetja á hverju lögbýli tæki það 40 ár að uppfylla fyrirliggjandi samninga miðað við fjárveitingar 2019,“ sagði Þórarinn Ingi.
„Markmið skógræktar á bújörðum, eins og það er skilgreint í lögum nr. 95/2006, um landshlutaverkefni í skógrækt, er að skapa skógarauðlind á Íslandi, rækta fjölnytjaskóga og skjólbelti, treysta byggð og efla atvinnulíf. Í hverju landshlutaverkefni skal stefnt að ræktun skóga á a.m.k. 5% af flatarmáli láglendis neðan 400 m yfir sjávarmáli,“ sagði Þórarinn Ingi.
Uppfylla markmið Parísarsáttmálans í loftslagsmálum
„Mögulegt er að auka kolefnisbindingu skóga mjög hratt með því að standa við þegar gerða samninga og vinna samkvæmt áætlun og skipulagi sem tilbúið er. Þar næðist árangur hratt án þess að bæta þyrfti við innviðum eða umgjörð við framkvæmdina.
Fjármagn sem varið væri til verkefnisins gæti skilað sér beint í ræktun. Í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands eftir Brynhildi Davíðsdóttur, frá febrúar 2017, kemur fram að með því að fjórfalda aðgerðahraða í skógrækt væri hægt að auka kolefnisbindingu úr 369.000 tonnum í allt að 535.000 tonn árið 2030,“ sagði Þóarinn Ingi.