Categories
Fréttir

Bankakerfið vinni ávallt í samfélagslega þágu

Deila grein

22/10/2019

Bankakerfið vinni ávallt í samfélagslega þágu

Willum Þór Þórsson, alþingismaður Framsóknar í Suðvesturkjördæmi, tók þátt í sérstakri umræðu um íslenskt bankakerfi og sölu á hlutum ríkisins í bönkunum á Alþingi í gær.
„Það verður auðvitað að skoða þróunina á viðskiptaumhverfinu og kannski ekki síst í ljósi þeirra verðmæta sem eru skráð í bókum ríkisins og meta hvað er skynsamlegast að gera til að nýta þau verðmæti á sama tíma og við tryggjum það kerfi sem þjónar almenningi hvað best, eins og hv. málshefjandi vakti máls á,“ sagði Willum Þór.
Hvernig og hverjum ætti að selja?
„Lengi hefur verið rætt um að aðskilja viðskiptabankastarfsemi frá fjárfestingarbankastarfsemi en vegna þess hversu takmörkuð samkeppnin er höfum við mögulega ekki stigið það skref. Það hlýtur að skipta máli að sama skapi þegar við ræðum aðkomu ríkisins að rekstri banka hvernig þeim málum er fyrir komið. Það má auðvitað svara því að einhverju marki af hverju skynsamlegt er að losa um eignarhlut ríkisins en það er erfiðara að svara því hvernig og hverjum ætti að selja.“
„Það liggur fyrir að hæstv. ríkisstjórn vill draga úr eignarhaldi bankanna eins og boðað er í stjórnarsáttmála og hefur unnið að því markvisst, m.a. með útgáfu hvítbókar þar sem liggja til grundvallar markmið um traust, gagnsæi og stöðugleika, sem eru lykilatriði sem verður að hafa í huga. Þau þurfa ávallt að vera viðmiðin, auk þess sem það er niðurstaða hvítbókarinnar að burt séð frá eignarhaldi eða eignarformi — og það er kannski mikilvægast af öllu — vinni bankakerfið ávallt í samfélagslega þágu,“ sagði Willum Þór.