Categories
Greinar

Þjóð undir þaki

Deila grein

05/12/2019

Þjóð undir þaki

Íslenski húsnæðismarkaðurinn hefur einkennst af miklum sveiflum í gegnum tíðina. Ýmist hefur verið skortur á húsnæði eða offramboð og það sama má segja um aðgang að lánsfé. Núverandi stjórnvöld leggja áherslu á að draga úr því ójafnvægi sem ríkt hefur og kappkosta að mynda traustari umgjörð um húsnæðismál.

Frá því ég tók við embætti hefur það verið stefna mín að tryggja nægjanlegt framboð húsnæðis fyrir alla, óháð efnahag og búsetu. Þjóð undir þaki – jafnrétti og jafnvægi var yfirskrift Húsnæðisþings sem haldið var í síðustu viku. Þar var farið yfir stöðuna, þær aðgerðir sem ráðist hefur verið í og framhaldið.

Þegar hefur farið fram mikil endurskipulagning og umbótavinna á sviði húsnæðismála. Stjórnskipulag hefur verið einfaldað með tilfærslu mannvirkjamála yfir til félagsmálaráðuneytisins, þar sem húsnæðismál voru fyrir. Þá hef ég mælt fyrir frumvarpi um sameiningu Íbúða­lánasjóðs og Mannvirkjastofnunar í nýja Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sem er ætlað að stuðla að betri heildarsýn yfir málaflokkinn.

Umfangsmikil vinna við gerð húsnæðisáætlana sveitarfélaga hefur átt sér stað. Þeim er ætlað að tryggja að byggt sé í samræmi við þörf en á það hefur skort. Þá hefur hlutverk Íbúðalánasjóðs tekið mikilvægum breytingum en sjóðurinn ber ábyrgð á framkvæmd húsnæðismála og gerir nú reglulegar og ítarlegar greiningar á húsnæðismarkaði. Þannig geta stjórnvöld tekið skilvirkari ákvarðanir sem tryggja að stuðningur skili sér þangað sem þörfin er mest.

Umbætur í húsnæðismálum voru ein grunnforsenda lífskjarasamninga sem undirritaðir voru fyrr á þessu ári. Því lögðu stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins í mikla vinnu við að greina stöðu húsnæðismála og skilgreina aðgerðir til úrbóta. Rúmlega 40 húsnæðistillögur voru lagðar fram og eru nú í úrvinnslu en þær fela meðal annars í sér stóraukin framlög til uppbyggingar almenna íbúðakerfisins, bætta réttarstöðu leigjenda og innleiðingu hlutdeildarlána fyrir ungt fólk og tekjulága.

Ekki stendur til að skilja landsbyggðina eftir í þessum efnum og síðustu misseri hafa verið kynntar lausnir til að mæta ólíkum áskorunum sveitarfélaga á landsbyggðinni. Erum við þegar farin að sjá árangur þess og uppbyggingu á stöðum þar sem ríkt hefur stöðnun um lengri tíma. Ég bind vonir við að þessar aðgerðir, og fleiri til, styrki húsnæðismarkaðinn svo um munar til framtíðar.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 5. desember 2019.