Categories
Fréttir

„Sígandi lukka er best“

Deila grein

03/12/2019

„Sígandi lukka er best“

„Mér hefur reynst vel að sígandi lukka sé best. Það á þá vel við þegar talað er um uppbyggingu samgöngumannvirkja. Nýverið skrifuðu borgarstjóri og ráðherra samgöngumála undir samkomulag sem má skilja á tvo vegu með góðum vilja. Áfram verður haldið með athuganir á flugvallarkostum í Hvassahrauni og framtíð flugvallarins í Vatnsmýrinni er tryggð a.m.k. næstu tvo áratugi. Eitthvað virðist þetta samkomulag hafa farið öfugt ofan í suma og litið svo á að frekari uppbyggingu á öðrum flugvöllum, eins og t.d. á Akureyri, væri slegin af. En svo er nú aldeilis ekki,“ sagði Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, í störfum þingsins á Alþingi í dag.
Skoska leiðin
„Öflugt innanlandsflug er mikilvægt byggðamál og einn lykillinn að jafnræði byggðanna. Samhliða bættu viðhaldi á flugvöllum landsins þarf að jafna aðstöðumun landsmanna. Skoska leiðin er mikilvægt skref í þá átt. Flugfargjöld eru há í samanburði við það sem býðst í millilandaflugi. Tíðni flugferða er ekki alltaf hentug og sætanýting breytileg. Greiðsluþátttaka stjórnvalda hefur reynst vel til að mæta þessum vanda í Skotlandi og er ætlunin að hrinda henni í framkvæmd hér á landi seinni hluta næsta árs. Næsta skref varðandi Akureyrarflugvöll er að útfæra leiðir til að nýta fjárlagaheimildir um stækkun flugstöðvarinnar og útfæra rekstur hennar þannig að það nýtist byggðunum og markmiðum stjórnvalda um nýja gátt inn í landið.
Stöndum saman að því að klára það sem byrjað hefur á, t.d. eins og flughlaðið á Akureyrarflugvelli. Innviðir Norðurlands eru til staðar og meira en tilbúnir til að taka á móti erlendum gestum sem vilja dvelja hjá okkur og njóta þess sem hin rómaða fegurð og náttúruperlur Norðausturlands hafa upp á að bjóða. Breið samvinna er lykill að árangri í þeim efnum.
Virðulegi forseti. Eins og svo oft er sagt í Þistilfirði: Sígandi lukka er best,“ sagði Þórarinn Ingi.