Categories
Fréttir

Lenging fæðingarorlofs í 12 mánuði samþykkt!

Deila grein

18/12/2019

Lenging fæðingarorlofs í 12 mánuði samþykkt!

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, fékk samþykkt á Alþingi í gær frumvarp sitt um lengingu fæðingarorlofs úr níu mánuðum í tólf mánuði. Markmið er að tryggja börnum frekari samvistir við báða foreldra sína og gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.

„Þetta er gríðarlega mikið hagsmunamál barnafjölskyldna á Íslandi að þessi lenging komi til framkvæmda. En, við skulum heldur ekki gleyma því að núverandi ríkisstjórn er líka búinn að hækka greiðslu úr fæðingarorlofi og það er gaman að frá því að segja að loknu þessu kjörtímabili þá munu heildar greiðslur sem renna til barnafjölskyldna á Íslandi í gegnum fæðingarorlofskerfið hafa aukist úr 10 milljörðum í 20 milljarða á ársgrunni,“ sagði Ásmundur Einar við atkvæðagreiðslu á Alþingi í gær.

Enn og aftur er það undir forystu Framsóknar sem stigið er skref til aukinna réttinda fyrir fjölskyldur í landinu.


***

Lenging fæðingarorlofs og fæðingarstyrks

Samkvæmt fjármálaáætlun fyrir árin 2020-2024 er gert ráð fyrir því að samanlagður réttur foreldra til fæðingarorlofs og fæðingarstyrks verði lengdur úr 9 mánuðum í 12 mánuði vegna barna sem fæðast eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur árin 2020 og 2021.

Þannig er fyrirhugað að lengingin komi til framkvæmda í tveimur áföngum og taki eins og áður segir til foreldra barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur árin 2020 og 2021 en ekki er gert ráð fyrir lengingu fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks vegna barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur fyrir þann tíma.

Árið 2020 (foreldrar barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur árið 2020 eða síðar):

  • Sjálfstæður réttur foreldra mun lengjast um 1 mánuð í 4 mánuði.
  • Sameiginlegur réttur foreldra verður 2 mánuðir í stað 3 áður.
  • Samanlagður réttur foreldra verður því 10 mánuðir (4-4-2)
  • Réttur foreldris sem er eitt verður 10 mánuðir (Hitt foreldrið hefur andast á meðgöngu barns og barnið fæðist lifandi, einhleyp móðir sem hefur gengist undir tæknifrjóvgun eða einhleypt foreldri sem hefur ættleitt barn eða tekið barn í varanlegt fóstur).

Árið 2021 (foreldrar barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur árið 2021 eða síðar):

  • Sjálfstæður réttur foreldra mun lengjast um 2 mánuði í 5 mánuði.
  • Sameiginlegur réttur foreldra verður 2 mánuðir.
  • Samanlagður réttur foreldra verður því 12 mánuðir (5-5-2)
  • Réttur foreldris sem er eitt verður 12 mánuðir (Hitt foreldrið hefur andast á meðgöngu barns og barnið fæðist lifandi, einhleyp móðir sem hefur gengist undir tæknifrjóvgun eða einhleypt foreldri sem hefur ættleitt barn eða tekið barn í varanlegt fóstur).