Categories
Fréttir

„Það eru blikur á lofti“

Deila grein

27/01/2020

„Það eru blikur á lofti“

Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, tók þátt í umræðu um stefnu stjórnvalda í matvælaframleiðslu á Alþingi í liðinni viku. Sagði hann réttilega það vera mikla „áskorun alla daga að framleiða matvæli, áskorun fyrir okkur sem þjóð að framleiða matvæli með tilliti til loftslagsmála og fæðuöryggis þjóðarinnar“.
„Það er mikil áskorun að framleiða og fæða þjóðina en það eru blikur á lofti. Við störfum í alþjóðlegu matvælaumhverfi sem kallar á mikla samkeppni erlendis frá, samkeppni sem ekki er sanngjörn ef horft til stærðar og hagkvæmnissjónarmiða.
Samkeppnislög hér á landi eru hamlandi fyrir þróun innlendrar matvælaframleiðslu. Því verðum við að breyta.
Sérstaða okkar er hrein náttúra, ferskleiki matvæla og aðgangur að hreinu vatni. Gott hráefni er undirstaða matvælaframleiðslu út frá lýðheilsusjónarmiðum. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna leggja m.a. áherslu á ábyrga neyslu með minni matarsóun, sjálfbæru verklagi við opinber innkaup og upplýstu samfélagi um sjálfbæra þróun. Með því að velja innlend matvæli í stað sambærilegra innfluttra matvæla er stuðlað að auknu fæðuöryggi og eflingu atvinnustarfsemi hér á landi.
Virðulegi forseti. Það veldur mér áhyggjum hvernig er haldið utan um íslenskan landbúnað innan opinberrar stjórnsýslu. Vægi landbúnaðar innan ráðuneytis sjávarútvegs og landbúnaðar er lítið og það er mín einlæga skoðun að stofna eigi að nýju ráðuneyti landbúnaðar því að málaflokkurinn krefst mikillar yfirlegu og athygli til að mæta þeim áskorunum sem matvælaframleiðsla framtíðarinnar ber í skauti sér,“ sagði Þórarinn Ingi.