Categories
Fréttir

„Þekkingunni ber að viðhalda“

Deila grein

27/01/2020

„Þekkingunni ber að viðhalda“

„Fyrir tíu árum gerðumst við aðilar að matvælalöggjöf EES. Tilgangur matvælalöggjafarinnar er að stýra því að auka gæði matvæla og bæta stöðu neytenda. Við gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og að sama skapi eiga neytendur rétt á því að sambærilegar kröfur séu gerðar til innfluttra matvæla,“ sagði Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, í umræðu um stefnu stjórnvalda í matvælaframleiðslu á Alþingi í liðinni viku.
Halla Signý benti á að loftslagsmál væri eitt helsta áherslumál ríkisstjórnarinnar og að aðgerðaáætlun í loftslagsmálum hafi að markmiði að Ísland ná markmiðum Parísarsamkomulagsins árið 2030 og kolefnishlutleysi árið 2040.
„Hluti af þeirri áætlun hlýtur að vera að stefna að því að styrkja innlenda matvælaframleiðslu og styrkja alla umgjörð og nýtingu lands í átt að sjálfbærni. Innlend matvælaframleiðsla er best til þess fallin að fækka kolefnissporum og stuðla að minni umhverfissporum. Fæðuöryggi byggist á þekkingu á matvælaframleiðslu og -vinnslu. Slík þekking er oft staðbundin og hér á landi þarf að viðhalda þeirri þekkingu á sérstöðu okkar. Íslenskir bændur þekkja handbragð við heimaslátrun. Það eru verðmæti sem ber að varðveita. Meðhöndlun íslenska lambakjötsins er því mikilvæg og við sem höfum alist upp við það að hafa aðgang að heimaslátruðu kjöti og vitum hversu mikilvægt er að kjötið nái að meyrna vitum að þar nást fram mestu gæði kjötsins,“ sagði Halla Signý.
„Þekkingunni ber að viðhalda. Þess vegna er það skylda okkar löggjafans að vinna að því að búa svo um að handbragð við heimaslátrun verði áfram hluti af íslenskri menningu. Viðbrögð á undanförnum árum við heimaslátrun hafa í besta falli verið vandræðaleg og fálmkennd. Við leggjum á boð og bönn í þágu heilbrigðiskrafna þrátt fyrir að vita betur. Því er sala nú á heimaslátruðu kjöti glæpur, já, eins og að selja fíkniefni,“ sagði Halla Signý.