Categories
Fréttir

Tvímælalaust hvatning fyrir mikilvæga starfsemi – ávinningur af starfi þriðja geirans til almannaheilla getur styrkt samfélagið allt

Deila grein

05/02/2020

Tvímælalaust hvatning fyrir mikilvæga starfsemi – ávinningur af starfi þriðja geirans til almannaheilla getur styrkt samfélagið allt

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, fór yfir, í störfum þingsins á Alþingi í gær, starf starfshóps er Willum Þór Þórsson, alþingismaður, leiddi um skattumhverfi almannaheillastarfsemi sem fellur undir þriðja geirann. Starfshópurinn skilaði af sér nýlega tillögu til ríkisstjórnarinnar.
„Þar er átt við starfsemi sem fellur hvorki undir einkageirann né opinbera geirann, svo sem eins og starfsemi íþróttafélaga, björgunarsveita, góðgerðarfélaga og mannúðarsamtaka.“

„Starfshópurinn leggur áherslu á aukna skattalega hvata til að efla starfsemi þessara aðila með því að útvíkka núverandi hvata og lögfesta nýja. Meðal nýmæla eru tillögur um:

  • hvata til einstaklinga til að styrkja félög,
  • fjárstuðning á móti útlögðum kostnaði vegna viðhalds eða endurbóta á mannvirkjum undir starfsemi til almannaheilla, og
  • niðurfellingu á fjármagnstekjuskatti aðila sem verja hagnaði sínum einungis til almannaheilla.“

„Þá er lögð áhersla á að almannaheillafélagaskrá verði komið á, eins og raunar er lagt til í frumvarpi sem nú þegar liggur fyrir Alþingi, og lagðar eru til breytingar á:

  • erfðafjárskatti,
  • fasteignaskatti,
  • fjármagnstekjuskatti,
  • stimpilgjaldi,
  • tekjuskatti og
  • virðisaukaskatti.“

„Leitað er fyrirmynda í nágrannalöndunum og tillögur hópsins eru greinilega vel ígrundaðar og vandaðar. Þær munu styrkja rekstrarleg skilyrði almannaheillastarfsemi og færa starfsskilyrði nær nágrannaríkjum okkar.
Ég hef væntingar til þess að ríkisstjórnin fylgi tillögunum eftir og ég legg áherslu á að við fáum frumvörp til þingsins sem allra fyrst til að tryggja nauðsynlegar lagabreytingar til að hrinda tillögunum í framkvæmd. Skýr umgjörð um starfið og skýrir hvatar geta tvímælalaust orðið hvatning fyrir mikilvæga starfsemi því að ávinningur af starfi þriðja geirans til almannaheilla getur styrkt samfélagið allt og haft mikil áhrif á samfélagsþróun í smáum og stórum byggðum um land allt. Á síðustu vikum höfum við einmitt upplifað hvað bjargir samfélaganna sem liggja í almannaheillasamtökunum eru mikilvægar,“ sagði Líneik Anna.