Nú í febrúar fagnar Félag heyrnarlausra 60 ára afmæli. Félagið er baráttu- og hagsmunafélag sem veitir hvers konar ráðgjöf og álit er snúa að málefnum heyrnarlausra. Menning og saga heyrnarlausra er stórbrotin og saga mikillar baráttu fyrir tilverurétti sínum. En heyrnarlausir eru málminnihlutahópur með merkilega sögu og ríka menningu en þurfa því miður að reiða sig mikið á túlka í sínum samskiptum í samfélaginu þar sem þeirra tungumál er lítt þekkt í íslensku samfélagi.
Baráttusaga þeirra er merkileg og hreint ótrúleg og baráttan fyrir tungumáli þeirra hefur ekki verið áfallalaus í gegnum tíðina. Í áratugi var táknmálið bannað og það var ekki fyrr en árið 1980 að það var leyft aftur. Árið 2011 var táknmálið lögleitt sem fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra og aðstandenda þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta. Þar með skuldbundu stjórnvöld sig til að hlúa að því og styðja. Þarna var mikilvægum áfanga náð.
Mörg baráttumál
Þó þessum áfangi sé náð eru baráttumálin mörg. Þrátt fyrir að táknmálið sé opinbert mál hér á landi er lítil sem engin fræðsla eða kennsla í skólum landsins. Lítið sem ekkert er gert til að kynna og kenna íslenskt táknmál sem og menningu og sögu heyrnarlausra fyrir nemendum en það er með þetta eins og svo margt annað að með því að auka fræðslu í samfélaginu myndu fordómar minnka og aukinn skilningur yrði á þörfum náungans. Textun og túlkun á sjónvarpsefni er gríðarlega ábótavant í íslensku samfélagi. En það myndi koma mjög mörgum til góða ef þessi einfalda þjónusta stæði til boða bæði heyrnarlausum og heyrnarskertum börnum sem og öðrum (svo sem innflytjendum, börnum sem eru að læra stafsetningu og fleirum). Þeir sem lifa ekki og hrærast í nálægð við döff samfélagið þekkja sjaldnast þetta stórkostlega íslenska mál sem á erindi við alla, vegna þess hversu skemmtilegt og opið það er. Þess vegna eru heyrnarlausir háðir túlkaþjónustu í sínu hversdagslega lífi.
Táknmál er ekki einkamál
Táknmál er ekki einkamál heyrnarlausra, heldur er það tungumál stórs hóps og opinbert mál hér á landi og ætti auðvitað að vera gert hærra undir höfði heldur en nú er gert. Öll opinber þjónusta ætti að huga betur að þessu.
Ég vil nota tækifærið og færa Félagi heyrnarlausra árnaðaróskir í tilefni þessara tímamóta og þakka þeim þeirra baráttu fyrir réttindum þessa málminnihlutahóps.
Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. febrúar 2020.