Categories
Greinar

Góð þjónusta í Hafnarfirði

Deila grein

07/02/2020

Góð þjónusta í Hafnarfirði

Gallup framkvæmir árlega þjónustukönnun meðal tuttugu stærstu sveitarfélaga landsins og á fundi bæjarráðs í Hafnarfirði nú í lok janúar var farið yfir niðurstöður síðasta árs. Óhætt er að segja að niðurstöðurnar séu gleðilegar fyrir okkur, en ánægja með þjónustu við barnafjölskyldur, þjónustu leikskóla og þjónustu við fatlað fólk hefur ekki mælst hærri frá upphafi mælinga. Aðrir þættir ná einnig hæsta gildi og eru níu af hverjum tíu íbúum ánægðir með bæinn sinn.

Við höfum talað mikið fyrir aukinni áherslu á barnafjölskyldur í Hafnarfirði og höfum sýnt það í verki með mjög afgerandi hætti í formi verkefna og aðgerða sem innleidd hafa verið undanfarið ár. Markvisst höfum við t.a.m. bætt aðstæður og lækkað álögur á barnafjölskyldur með því að stórauka systkinaafslætti á leikskólagjöldum, innleiða nýja á skólamáltíðir grunnskólabarna, hætt gjaldtöku á ungmenni í sund, byggt skynsamlega upp íþróttamannvirki og hækkað frístundastyrki svo fátt eitt sé nefnt. Rík áhersla hefur jafnframt verið á fjölgun félagslegs húsnæðis og byggingu búsetukjarna fyrir fatlað fólk. Öflugt og traust atvinnulíf er hverju samfélagi mikilvægt og árið 2018 steig núverandi meirihluti stórt skref þegar tekin var ákvörðun um að lækka álagningastuðul fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði úr 1,57% í 1,40%. Var það liður í því að létta undir með atvinnulífinu hér í bæ og skapa því aðlaðandi og traust umhverfi.

Líkt og sjá má hefur rík áhersla hefur verið lögð á innleiða og framkvæma í öllum málaflokkum og virðist það skila sér beint í mælingar. Það á bæði við um þá sem nýta sér þjónustuna og þeirra sem leggja mat á hana út frá tilfinningu og umtali í bæjarfélaginu. Þessar niðurstöður þjónustukönnunar Gallup gefa okkur því nokkuð góða mynd af ánægju íbúa og eru um leið mikilvæg hvatning til okkar um að gera enn betur á næstu misserum og árum. Það er gott að búa og starfa í Hafnarfirði.

Ágúst Bjarni Garðarsson, bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 7. febrúar 2020.