Categories
Greinar

Betri vegir, fyrr

Deila grein

26/02/2020

Betri vegir, fyrr

Stórt stökk er tekið til að bæta umferðaröryggi sem birtist í samgönguáætlun sem ég lagði fram á Alþingi í byrjun desember. Þar eru settar fram tillögur um að flýta samgönguframkvæmdum upp á 214 milljarða króna. Fjármagn til vegaframkvæmda mun aukast um fjóra milljarða króna hvert ár næstu fimm árin. Fjármagn til viðhalds og þjónustu mun aukast um milljarð á ári næstu 15 árin.

Ríkisstjórnin er sammála um að örvun hagkerfisins er sjaldan eins nauðsynleg og nú þegar tekjur ríkisins eru fallandi og atvinnuleysi fer vaxandi. Mikilvægt er að forgangur innviðafjárfestinga mæti uppsafnaðri fjárfestingaþörf, auki framleiðni og séu þjóðhagslega arðbærar. Reiknað hefur verið að hvert og eitt alvarlegt umferðarslys kosti kringum 90 milljónir króna, slys með minni meiðslum um 30 milljónir og að samfélagslegur kostnaður vegna banaslysa sé yfir 600 milljónir króna. Ofan á þetta bætist hinn mannlegi harmleikur sem slysin hafa í

Hver króna sem flýtir samgönguframkvæmdum skilar sér margfalt til baka í aukinni framleiðni. Með flýtingu samgönguframkvæmda verður tekið stórt skref í átt að núllsýn í umferðaröryggi. Með samstilltu átaki hefur tekist að fækka slysum á sjó, slíkt er einnig hægt í umferðinni. Þetta snýst um hugsun og skipulag, þar sem aðilar sameinast um að sætta sig ekki við að missa mannslíf. Sú sýn er þegar orðuð í umferðaröryggisáætlun og í samgönguáætlun sem ég hef lagt fram tvisvar sinnum til að flýta framkvæmdum. Það skiptir sköpum fyrir umferðaröryggi að aðskilja akstursstefnur á umferðarþyngstu þjóðvegum og stofnbrautum. Það verða mikilvægustu öryggisaðgerðir sem við höfum ráðist í hér á landi í seinni tíð.

Á landsbyggðinni er framkvæmdum flýtt um 125 milljarða sem allar miða að því að bæta umferðaröryggi. Þær stærstu eru Reykjanesbraut, Vesturlandsvegur (Kjalarnes), Suðurlandsvegur, brú yfir Ölfusá, jarðgangaframkvæmdir á Austfjörðum og Vestfjörðum. Samstillt átak allra aðila þarf til að útrýma banaslysum og alvarlegum slysum sem byggist á veginum, ökutækinu og ökumanni. Umferðaröryggi er þjóðhagslega arðbært.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 24. febrúar 2020.