Categories
Greinar

Það eru verkin sem tala

Deila grein

26/02/2020

Það eru verkin sem tala

Allt frá aldamótum hafa úttektir og skýrslur verið gerðar um starfs- og tæknimenntun í landinu, þar sem niðurstaðan er sú sama. Aðgerða er þörf, til að fjölga fólki á vinnumarkaði með færni sem samfélagið kallar eftir. Allar eru úttektirnar góðar og gagnlegar en duga ekki einar og sér. Verkin verða að tala.

Þörfin á að rækta tiltekna færni í samfélaginu er raunveruleg, því vöntun á henni hefur í för með sér háan samfélagslegan kostnað. Efnahags- og framfarastofnunin (e. OECD) segir þetta ójafnvægi leiða til minni framleiðni, sem á endanum bitnar á lífsgæðum í landinu. Stofnunin bendir líka á leiðir til úrbóta, þar sem menntakerfið gegnir lykilhlutverki.

Stjórnvöld hafa þegar gripið til margvíslegra aðgerða. Við höfum fjárfest ríkulega í framhaldsskólamenntun og gjörbreytt rekstrarforsendum starfsmenntaskólanna, sem hafa nú meiri burði til að fjárfesta í búnaði og tækjum til kennslu. Undirbúningur vegna fyrirhugaðra fjárfestinga í nýju húsnæði er á fleygiferð. Ásókn í starfs- og tækninám hefur þegar aukist, en það er mikilvægt að nýta meðbyrinn og ráðast í aðgerðir sem munu brúa færnibilið á vinnumarkaði. Einnig höfum við stuðlað að aukinni viðurkenningu á störfum kennara og bent á samfélagslegt mikilvægi starfsins, gert áhugasömum auðveldara að sækja sér kennaramenntun og opnað fyrir flæði kennara milli skólastiga.

Margir eru um borð í bátnum sem rær á þessi mið; atvinnulífið, stjórnvöld, samtök starfs- og iðngreina, fulltrúar atvinnurekenda og skóla, svo nokkrir séu nefndir. Við höfum sett okkur skýr og sameiginleg markmið; að auka markvisst áhuga á starfs- og tæknimenntun, tryggja að ungt fólk kynnist þeim fjölbreyttu náms- og starfsmöguleikum sem bjóðast og ryðja úr vegi kerfishindrunum. Við ætlum jafnframt að bæta aðgengi fólks með tækni- og starfsmenntun að háskólamenntun.

Hver vegferð hefst með einu skrefi. Við höfum þegar tekið mörg og erum komin á fulla ferð.