Categories
Greinar

Nýir tímar í starfs- og tækninámi

Deila grein

26/02/2020

Nýir tímar í starfs- og tækninámi

Mark­mið rík­is­stjórn­ar­inn­ar er að styðja við ný­sköp­un og hug­vits­drifið hag­kerfi til framtíðar. Við ætl­um að efla ís­lenskt mennta­kerfi með mark­viss­um aðgerðum í sam­starfi við skóla og at­vinnu­líf, þannig að færniþörf sam­fé­lags­ins verði mætt á hverj­um tíma. Hraðar tækni­breyt­ing­ar auka þörf­ina á skil­virk­ari mennt­un.

Eitt af því sem hef­ur verið ein­kenn­andi fyr­ir mennta­kerfið okk­ar er að mun færri sækja starfs- og tækni­nám á Íslandi en í sam­an­b­urðarlönd­um. Á Íslandi út­skrif­ast um 30% úr starfs- og tækni­námi en það hlut­fall er 50% í Nor­egi. Af­leiðing­in er sú að efla þarf færn­ina á ís­lensk­um vinnu­markaði í þágu sam­fé­lags­ins. Sam­kvæmt Efna­hags- og fram­fara­stofn­un­inni (e. OECD) er fram­leiðni á Íslandi und­ir meðaltali Norður­landa­ríkj­anna, sem skýrist af færni­m­is­ræmi á vinnu­markaði. Fram kem­ur í skýrslu Rík­is­end­ur­skoðunar frá ár­inu 2017 að yf­ir­völd mennta­mála hafi í gegn­um tíðina eytt mikl­um tíma og fjár­mun­um í grein­ing­ar en illa hafi gengið að koma aðgerðum til fram­kvæmda. Rík­is­end­ur­skoðun seg­ir jafn­framt að brýnt sé að stjórn­völd grípi til mark­vissra aðgerða sé raun­veru­leg­ur vilji til þess að efla starfs­nám eins og ít­rekað hafi verið lýst yfir.

Á síðustu árum höf­um við verið að for­gangsraða fjár­mun­um og áhersl­um í þágu starfs- og tækni­náms og séð veru­lega aukn­ingu í aðsókn víða, eins og til að mynda rafiðn, húsa­smíði, pípu­lögn­um og fleiri grein­um. Jafn­framt sjá­um við fram á aukna innviðafjár­fest­ingu í upp­bygg­ingu í skól­un­um okk­ar ásamt því að starfs- og tækni­skól­arn­ir hafa verið að fjár­festa í nýj­um tækj­um og búnaði. Þetta er fagnaðarefni.

Við vilj­um fylgja enn frek­ar eft­ir þess­ari sókn sem við sjá­um. Við boðum aðgerðir sem eru til framtíðar og til þess falln­ar að auka færni í sam­fé­lag­inu okk­ar. Við ætl­um að efla verk-, tækni og list­greina­kennslu í grunn­skól­um. Við vilj­um veita ungu fólki og for­eldr­um betri inn­sýn í starfs- og tækni­nám á fram­halds­skóla­stigi og hvaða mögu­leika og tæki­færi slíkt nám veit­ir til framtíðarstarfa. Jafn­framt ætl­um við að jafna aðgengi fram­halds­skóla­nema að há­skól­um, svo dæmi séu nefnd. Við ætl­um að vinna að því að ein­falda skipu­lag starfs- og tækni­náms, svo að námið verði í aukn­um mæli á ábyrgð skóla frá inn­rit­un til út­skrift­ar. Jafn­framt þarf að auka fyr­ir­sjá­an­leika í starfs­námi á vinnustað og að það verði án hindr­ana.

Breyt­ing­ar verða aðeins gerðar ef marg­ir taka hönd­um sam­an. Slíkt sam­starf er nú í burðarliðnum, þar sem lyk­ilaðilar hafa sam­mælst um mark­viss­ar aðgerðir til að fjölga starfs- og tækni­menntuðum á vinnu­markaði. Nú verður farið í enn mark­viss­ari aðgerðir til að efla starfs- og verk­nám til að auka færni í sam­fé­lag­inu okk­ar.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtst fyrst í Morgunblaðinu 25. febrúar 2020.