Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar, mælti fyrir frumvarpi til nýrra laga um samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir á Alþingi í gær.
„Frumvarp þetta, sem er eitt af áherslumálum mínum, hefur verið í undirbúningi í ráðuneytinu sl. tvö ár og snýr að því að auka nauðsynlegt fjármagn til vegaframkvæmda.“
„Álag á vegi landsins hefur aukist mikið á undanförnum árum, m.a. vegna fjölgunar ferðamanna. Á meðan við bíðum eftir að ferðamennirnir komi aftur er því skynsamlegt að nýta vel tímann til undirbúnings framkvæmda og á það hafa ýmsir bent á síðustu dögum og vikum. Markmið frumvarpsins er sem sagt að auka verulega fjármagn til vegaframkvæmda og mæta mikilli þörf fyrir fjárfestingar í samgöngum. Þannig er áætlað að samvinnuverkefni sem hér eru kynnt um vegaframkvæmdir geti skapað allt að 4.000 ársverk sem skiptist á milli hönnunar í hátæknistörfum og verktaka á framkvæmdatíma fyrir utan þau störf sem leiðir af slíkri starfsemi. Því er þetta frumvarp ákaflega mikilvægt verkfæri í því skyni að efla innlenda starfsemi á næstu mánuðum og árum, efla efnahaginn og fjölga störfum.“
Með þessu frumvarpi er komið fjárfestingartækifæri, til að mynda fyrir lífeyrissjóðina, fjárfesting til langs tíma, 15–30 ára.
Notum því tímann vel og höldum áfram
„Ríkisstjórnin hefur lagt mikla áherslu á innviðauppbyggingu á öllum sínum starfsferli, ekki síst samgöngumálin. Því til upprifjunar hef ég tvisvar sinnum lagt fram samgönguáætlun síðustu tvö árin. Í þeirri sem þingið fjallar um núna er umtalsverð aukning fjármuna. Fjármagn til vegaframkvæmda mun aukast um 4 milljarða ár hvert næstu fimm árin. Framkvæmdum upp á 214 milljarða verður flýtt innan 15 ára tímabilsins. Fjármagn til viðhalds og þjónustu mun aukast um 1 milljarð á ári næstu 15 árin. Þá er samkomulag um beina fjármögnun ríkisins í samgöngusáttmála við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu sem er á dagskrá síðar í dag upp á eina 45 milljarða, verkefni alls upp á 120 milljarða. Í samgönguáætlun sem er fyrir þinginu er einnig að finna fyrstu flugstefnu Íslands og fyrstu heildarstefnu um almenningssamgöngur milli byggða. Mikil áhersla er lögð á samgöngumálin.
Fyrir utan samgönguáætlun er síðan flýtifjármögnun og samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir sem er hér til umfjöllunar. Með flýtiframkvæmdum sem frumvarpinu er ætlað að flýta mun því losna um framkvæmdafé sem unnt verður að ráðstafa til verkefna sem annars hefðu þurft að bíða lengur en áætlað var.“
Vegfarendur eigi val um aðra leið
„Helstu forsendur fyrir ákvörðun um samvinnuverkefni í vegagerð er að vegfarendur eigi val um aðra leið þar sem ekki þarf að greiða notendagjald. Í samvinnuverkefnunum sem hér er fjallað um er lykilatriði að stytting verði á vegalengd og að þannig sé ábati vegfaranda verulegur. Gert er ráð fyrir að notendagjöld standi að mestu undir kostnaði og rekstri. Þessu til viðbótar má færa rök fyrir því að samvinnuverkefni hafi hámarkshagnað í för með sér þegar litið er til ábata samfélags af samgöngubót þar sem val á framkvæmdum er oftar en ekki háð eftirspurn eftir þjónustunni. Þannig fær samfélagið meira fyrir peningana þegar samvinnuverkefni eiga í hlut.“
Ýmsar ástæður eru fyrir því að leitað hefur verið til einkafyrirtækja um að koma í auknum mæli að uppbyggingu samgöngukerfa:
- samvinnuverkefni geta verið leið til að viðhalda fjárfestingu í erfiðu árferði.
- samvinnuverkefni eru leið til að virkja kosti einkaframtaks í samgöngum, nánar tiltekið nýsköpun og sveigjanleika í uppbyggingu og viðhaldi vegakerfisins.
- samvinnuverkefni geta stuðlað að því að skattgreiðendur fái meira fyrir peningana sína, þjónustan verði betri og áhættuskipting milli hins opinbera og einkaaðila hagfelld.
„Samvinnuverkefni felur í sér að greiðslur fyrir verkið geta falist í notendagjöldum, skuggagjöldum eða föstum greiðslum ríkissjóðs til verksala. Ekki er óalgengt að einkaaðili taki nokkra fjárhagslega áhættu, hvort sem er af fjármögnuninni sjálfri og/eða af því að umferðarþungi sé ekki undir áætlun. Það eru áhöld um hvort umferðarspár haldi.
Oft er horft til þess að aðilar á markaði búi yfir þekkingu og reynslu sem nýtist við að vinna með áhættu í framkvæmdum. Engu að síður má gera ráð fyrir því að tilboð verktakans um að ganga til samstarfs við ríkið um verkefni hækki í takt við þá áhættu sem hann tekur í samstarfinu en mismunandi mikið eftir aðilum og verkefnum. Í lok samningstíma tekur ríkið við rekstri mannvirkjanna endurgjaldslaust. Við þekkjum svona verkefni. Þarna er verið að lýsa Hvalfjarðargangamódelinu.
Þau verkefni sem lagt er til að verði unnin sem samvinnuverkefni í þessu frumvarpi eru eftirfarandi: Hringvegur norðaustan Selfoss og brú á Ölfusá, hringvegur um Hornafjarðarfljót og ný brú þar, Axarvegur, tvöföldun Hvalfjarðarganga, hringvegur um Mýrdal og jarðgöng í gegnum Reynisfjall og síðan Sundabraut. Í öllum tilvikum hafa vegfarendur val um aðra leið og allar framkvæmdirnar hafa í för með sér aukið umferðaröryggi.
Í frumvarpinu eru upplýsingar um hvert og eitt verkefni ásamt upplýsingum sem hafa áhrif á útreikninga notendagjalds, svo sem kostnaðaráætlun þar sem hún liggur fyrir og upplýsingar um vegstyttingu.
Megintilgangur frumvarpsins er að veita heimild til að fjármagna samvinnuverkefni að hluta eða að öllu leyti með gjaldtöku af umferð um vegaframkvæmdirnar. Gjaldtakan skal þó ekki hefjast fyrr en að framkvæmdum lýkur og aldrei standa lengur en í 30 ár.
Notendagjöldin geta staðið að heild eða að hluta undir byggingar- eða framkvæmdakostnaði, viðhaldi, rekstri, þróun eða eðlilegum afrakstri af fjárfestingu vega. Í frumvarpinu er veitt heimild til að semja um að eignarhald mannvirkjanna geti á samningstímanum verið hjá einkaaðilanum en í lok samningstímans skulu mannvirkin teljast eign ríkisins án sérstaks endurgjalds.“
„Við núverandi aðstæður svarar frumvarpið brýnni þörf fyrir uppbyggingu fyrir komandi tíma, nýtt álag á vegi með vaxandi ferðamannastraumi. Það svarar brýnni þörf fyrir fjölgun starfa. Það svarar því að fleiri arðsamir fjárfestingarkostir verða fyrir langtímafjárfestingar, til að mynda lífeyrissjóðanna,“ sagði Sigurður Ingi.