Categories
Fréttir

Hjólað í vinnuna: Landsmenn hvattir til að nýta virka ferðamáta til og frá vinnu

Deila grein

06/05/2020

Hjólað í vinnuna: Landsmenn hvattir til að nýta virka ferðamáta til og frá vinnu

Heilsu- og hvatningarátakið Hjólað í vinnuna var sett í morgun í Laugardalnum en þetta er í átjánda sinn sem Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands stendur fyrir verkefninu í samvinnu við landsmenn. Markmiðið er að vekja athygli á heilsusamlegum, umhverfisvænum og hagkvæmum ferðamáta og eru þátttakendur hvattir til þess að hjóla, ganga, hlaupa eða nýta almenningssamgöngur til og frá vinnu. Hjólað í vinnuna stendur yfir dagana 6.-26. maí og á þeim tíma er hægt að skrá virkan ferðamáta til og frá vinnu í keppni vinnustaða.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, setti átakið af stað við athöfnina í Laugardag í morgun. Hann sagði að þrátt fyrir að undanfarnar vikur hafi verið okkur öllum erfiðar hafa þær líka haft jákvæð áhrif á daglegt líf. „Á einhvern einstakan hátt hefur ástand liðinna mánaða um margt haft hvetjandi áhrif á útivist og heilsamlega hreyfingu. Aldrei hafa fleiri farið út að ganga eða hjóla, einir sér eða með sínum nánustu, svo nánast ríkir örtröð á göngu- og hjólastígunum sem lagðir hafa verið á undanförnum árum í samstarfi ríkis og sveitarfélaga,“ sagði Sigurður Ingi.

Aukið fjármagn til hjóla og göngustíga

Ráðherra sagði að sú stefna sín og fyrirrennara í embætti að hvetja fólk til fjölbreyttra og heilsueflandi ferðamáta hafi þegar skilað sér í meira fé til hjóla- og göngustíga. „Fjármagn til hjóla- og göngustíga verður aukið verulega á næstu árum með samgöngusáttmála ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Samhliða eykst rými til að leggja slíka stíga samhliða þjóðvegum sem tengja þéttbýliskjarna vinnusóknarsvæða víða um land.  Hjólastígar hafa verið nú lagðir eða eru í undirbúningi við Hrafnagil, í  Árborg og Ölfusi, Borgarnesi, á Suðurnesjum og Vogum, á  Dalvík, Akureyri og í Fellabæ svo nokkuð sé nefnt.“
Mikilvægi hreyfingar fyrir þjóðina alla var sameiginlegur tónn í hvatningarávörpum sem haldin voru á setningarhátíðinni í morgun. Ávörp héldu þau Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ, Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur og Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra. Að setningarhátíðinni lokinni var hjólað af stað einn hring í Laugardalnum.

  • Frá setningarathöfn Hjólað í vinnuna í Laugardal.
  • Frá setningarathöfn Hjólað í vinnuna í Laugardal.
  • Frá setningarathöfn Hjólað í vinnuna í Laugardal.

Heimild: stjornarradid.is