Categories
Greinar

Lausn úr skuldafjötrum

Deila grein

27/02/2013

Lausn úr skuldafjötrum

Ung hjón keyptu íbúð með yfirtöku á tuttugu milljónir króna láni á tæplega 6% verðtryggðum vöxtum.  Nokkrum mánuðum áður hafði sambærileg íbúð selst á sautján milljónir. „Ég get ekki mælt með kaupum á þessari eign, íbúðin er of dýr og lánið óhagstætt.“ sagði fasteignasalinn þeirra.  Hjónin létu ekki segjast: „Við verðum að tryggja okkur öruggt húsnæði.  Góðar íbúðir í langtímaleigu eru eins og hvítir hrafnar, heldur sjaldgæfar.  Þetta er eini valkosturinn.“

Þar með var enn ein ung íslensk fjölskylda búin að sökkva sér í skuldir.

Evrópumeistarar í vanskilum

Hagstofan birti nýlega samanburð á lífskjörum íslenskra og evrópskra heimila fyrir árið 2010.  Í könnuninni kom margt athyglisvert fram.  Íslendingar virðast vera Evrópumeistarar í vanskilum húsnæðislána, en þjóðin hefur vermt efstu sætin í vanskilum í Evrópu um nokkurt skeið.  Þar af eru þrefalt fleiri heimili á Íslandi í miklum erfiðleikum með að standa undir útgjöldum en á hinum Norðurlöndunum.  Þetta er þrátt fyrir að mánaðarleg útgjöld íslenskra heimila vegna húsnæðis sem hlutfalls af ráðstöfunartekjum séu lægri en í mörgum öðrum Evrópulöndum.

Af hverju?  Í markaðspunktum Arion banka er því velt upp hvort ein helsta ástæðan geti verið að hér leggi fólk fyrr á sig að eignast húsnæði.  Jafnvel þótt það taki ansi langan tíma í mörgum tilvikum að eignast í raun eitthvað eigið fé í því.  Í samanburði við önnur Evrópulönd hefur verið tiltölulega auðvelt að taka lán og fjárfesta í húsnæði.  Erlendis er fólk eldra þegar það ákveður að kaupa húsnæði, erfiðara er að komast í gegnum greiðslumat og þar af leiðandi minni líkur á að viðkomandi íbúðareigandi lendi af og til í vanskilum.

Áratugum saman hefur íslensk húsnæðisstefna verið séreignastefna.  Árangur þess er meðal annars mikil fækkun leiguíbúða.  Árið 1920 voru 62,9% íbúða leiguíbúðir, um 1980 voru 17% íbúða á leigumarkaði og árið 2009 var hlutfallið komið niður í 13%.  Stuðningur hins opinbera hefur fyrst og fremst beinst að því að auðvelda einstaklingum að eignast eigið húsnæði.  Litið hefur verið á leigu sem skammtímalausn og nánast eingöngu fyrir þá sem vegna félagslegra aðstæðna geta ekki komið sér upp eigin húsnæði.

Að eiga húsnæði er hreinlega orðið órjúfanlegur hluti menningar okkar.

„Öruggt húsnæði

Eftir að eiginmaður minn og ég komum úr námi og tókum okkur fyrstu skref á leigumarkaðnum, var þess ekki langt að bíða að ættingjar og vinir færu að spyrja hvort við ætluðum ekki að fara að kaupa.  Sú spurning var næstum því jafn algeng og spurningin um hvort ekki væri von á einu litlu.  Eftir að frumburðurinn fæddist jókst svo þrýstingurinn á okkur að fjárfesta í íbúð enn meira.

Með góðri aðstoð okkar nánustu tókst að dekka útborgunina og við fluttum stolt í okkar fyrstu íbúð í útjaðri höfuðborgarinnar.  Við vorum komin í „öruggt“ húsnæði.  Allar vangaveltur um verðtryggingu, vexti og eigið fé máttu sín lítils í samanburði við pælingar um val á parketi og eldhústækjum.

Öllum létti.

Eftir á að hyggja vorum við einfaldlega að skipta um leigusala, frá yndislegu hjónunum á neðri hæðinni yfir í embættismennina hjá Íbúðalánasjóði.  Í dag dreymir okkur bara um að hætta að „leigja“ hjá sjóðnum, jafnvel þótt það eina sem bjóðist á hinum vanþróaða íslenska leigumarkaði séu tveggja til þriggja herbergja íbúðir.

Við værum allavega án skuldafjötranna, laus úr vistarböndunum.

Lærum af reynslunni

Eflaust hugsar einhver að þingmaður Framsóknarflokksins ætti ekki að tjá sig mikið um húsnæðismál.  Lög sem komu á verðtryggingu hafa verið kennd við fyrrum formann flokksins Ólaf Jóhannesson og eitt af helstu baráttumálum flokksins fyrir kosningarnar 2003 voru 90% lán Íbúðalánasjóðs.

Í ályktunum flokksins um húsnæðismál hefur áherslan verið á að hver og einn búi við öryggi í samræmi við hóflegar þarfir hvers og eins og hafi raunverulegt val um búsetuform.  Þetta hefur alltaf verið markmiðið og reynsla síðustu ára hefur sýnt okkur að séreignastefna getur ekki uppfyllt þessi markmið.  Gera verður breytingar á húsnæðiskerfinu.  Fólk er síður tilbúið að skuldsetja sig eftir áföll undanfarinna ára, en á í dag ekki marga aðra kosti líkt og sagan af ungu hjónunum segir okkur.

Því verðum við að tryggja raunverulegt val um búsetuform, auka hagkvæmni í byggingu húsnæðis og búa til sambærilegt húsnæðislánakerfi og þekkist í nágrannalöndunum.  Fjölga verður húsnæðissamvinnu- og leigufélögum, endurskoða byggingareglugerðir og fjölga ódýrum byggingalóðum fyrir þessar íbúðir.  Setja þarf lög um fasteignalán og endurskoða stöðu Íbúðalánasjóðs út frá mikilvægi hans við að tryggja öllum landsmönnum öruggt húsnæði.  Afnema þarf verðtryggingu á neytendamarkaði og setja 4% þak á hækkun verðbóta.

Við verðum að taka á vanda fortíðarinnar, bregðast við þörfum dagsins í dag og leggja drög að nýju kerfi til framtíðar.

Eygló Harðardóttir

(Birtist fyrst í DV 28. janúar 2013)