Categories
Greinar

Okkur ber að verja börn og unglinga gegn klámi

Deila grein

27/02/2013

Okkur ber að verja börn og unglinga gegn klámi

Strax og farið er að ræða um klám og klámvæðingu kemur upp spurningin hvað flokkist sem klám. Það má réttilega segja að í skilgreiningunni felist huglægt mat – gildismat, breytilegt frá kynslóð til kynslóðar og á milli menningarheima. Að mínu mati er klám orð eða efni sem sýnir kynlíf samofið misnotkun, valdbeitingu og niðurlægingu og líkist ekki samskiptum kynjanna sem tengjast virðingu, samþykki, ábyrgð og jákvæðri upplifun.

Ábyrgð allra
Í íslenskum lögum er klám refsivert, sbr. 210. grein í almennum hegningarlögum. Það er á ábyrgð opinberra aðila að setja mörk hvað varðar leyfi til birtingar eða sýningar. Eftirlitsaðilar eiga síðan að fylgja eftir lögum og reglum, foreldrar að ala upp börn og unglinga með dómgreind sem byggir á gildismati sem tekur afstöðu gegn ofbeldi, kúgun og misbeitingu valds. Síðan kemur til kasta skóla að skapa skólabrag og vinna með nemendum í anda námsskrár. Jafnrétti er ein af grunnstoðum í starfi leik-, grunn- og framhaldsskóla og gefur það vonir um að skólakerfið komi til með að leggja enn meiri áherslu á jafnréttisfræðslu, kynfræðslu og þar með fræðslu og umræðu um klám. Vinna í góðu samstarfi við foreldra og þá aðila sem bjóða skólum upp á vandaða fræðslu. Ekki má gleyma ábyrgð fjölmiðla og allra þeirra sem með einum eða öðrum hætti koma að því að móta lífsstíl og gildismat barnanna okkar.

Áherslur Framsóknar og Barnasáttmálinn
Framsóknarmenn styðja endurskoðun barnalaga og þá sérstaklega með tilliti til Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna. Í honum er lögð áhersla á velferð barna, en einstaklingur telst barn til 18 ára aldurs. Allar ákvarðanir yfirvalda eiga að tryggja börnum þá vernd sem velferð þeirra krefst. Vernd gegn óæskilegu efni, kynferðislegu ofbeldi og þátttöku í klámiðnaði. Ég hef unnið með unglingum í yfir 30 ár og allan þann tíma fléttað kynfræðslu inn í starf mitt. Einn þáttur fræðslunnar hefur alltaf verið umfjöllun um klám. Unglingar hafa á reiðum höndum skilgreiningu á klámi, eiga auðvelt með að koma með dæmi, sjá hvað klám sýnir óraunverulega mynd af jákvæðu kynlífi en neita því ekki að hafa horft á klám – sérstaklega strákar. Að þeirra sögn er klám alls staðar og auðvelt að nálgast það. Ég sé mikinn mun á túlkun og umfjöllun unglinga í dag og unglinga fyrir áratugum. Fyrir 30 árum byggði skilgreining þeirra og dæmi á allt öðrum veruleika en í dag. Nú eru dæmin allt önnur, mun grófara ofbeldi, nákvæmari og nærgöngulli lýsingar af athöfnum. Tilkoma tölvuleikja sem flokkast ekki undir neitt annað en klám og ofbeldi og netið með allt sitt aðgengi og magn af efni hefur bæst við flóruna. Ég er viss um að foreldrar og þeir sem vinna með börnum og unglingum hafa áhyggjur af þessari þróun. Ég fagna nýju átaki þriggja ráðuneyta sem í samstarfi við skóla vilja vekja unglinga til umhugsunar um klám og kynferðislegt ofbeldi. Það má fagna myndinni Fáðu já en hún tekur á samskiptum kynjanna sem tengjast virðingu, samþykki, ábyrgð og jákvæðri upplifun af kynlífi.

Klámvæðingin
Kynferðislegar og klámfengnar tilvísanir er mjög víða að finna í lífi unglinga og línan á milli kynlífs, kláms og ofbeldis er alltaf að verða óljósari. Nýleg rannsókn sýnir að strákar neyta kláms í stórum stíl og himinn og haf er á milli notkunar stráka og stelpna. Mismunandi hlutverk og staða kynjanna kemur berlega í ljós í heimi klámvæðingar. Ef þeir sem ekki vilja sjá að í heimi kláms eru konur þolendur og hafa ekki völdin ættu í huganum að skipta um kyn á persónum og leikendum og sjá hvort skoðun þeirra breyttist ekki. Rannsóknir hafa sýnt að stöðvar í heilanum sem lesa og túlka tilfinningar mynda þol og við getum horft á grófara ofbeldi og klám án þess að bregðast við – þolmörkin færast til.

En hvað á að gera?

Ég hef fyrst og fremst áhyggjur af börnum, unglingum og ungu fólki sem er að móta gildismat sitt og lífsstíl. Það má kalla þetta viðhorf mitt forræðishyggju og telja það neikvætt en ég læt mér það í léttu rúmi liggja. Ef það er gerlegt að stemma stigu við því flóði af klámefni sem stendur börnum okkar og unglingum til boða þá er ég því fylgjandi. Alveg á sama hátt og okkur sem samfélagi á að finnast það eðlilegt að hefta aðgengi að ákveðnum kvikmyndum og tölvuleikjum. Ég er ekki sérfræðingur í netheimum og get því ekki skorið úr um hvort til séu aðgengilegar leiðir. Vegir netsins eru það óútreiknanlegir að ég óttast að erfitt reynist að festa hönd á óæskilegu efni án þess að reglur og eftirlit verði allt of íþyngjandi fyrir almenna notendur netsins. Það þarf að fara fram almenn umræða um forvarnir, skilgreina betur hvað fellur undir klám og refsirammann. En fyrst og síðast er það gildismatið í þjóðfélaginu sem þarf að taka afstöðu gegn klámi. Allir þurfa að gefa skýr skilaboð á heimavelli, vinnustöðum og opinberlega. Skýr afstaða er það aðhald sem ég held að virki vel. Það er skylda okkar að standa vörð um velferð barnanna okkar.

Fanný Gunnarsdóttir