Alþingi samþykkti í gær fimm ára samgönguáætlun 2020-2024, samgönguáætlun fyrir árin 2020-2034 og samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir á síðasta fundi fyrir þingfrestun. Þessu til viðbótar voru samþykkt lög um heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.
- Fimm ára samgönguáætlun 2020–2024
- Samgönguáætlun fyrir árin 2020-2034
- Samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir
- Heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu
„Nýsamþykkt samgönguáætlun sem nær til áranna 2020-2034 er stórt stökk í samgöngum á Íslandi. Þetta er ein mikilvægasta áætlun sem ríkið stendur að enda er samgöngukerfið, vegakerfið, flugvellir og hafnir, líklega stærsta eign íslenska ríkisins, metið á tæpa 900 milljarða króna. Aldrei áður hefur jafnmiklum fjármunum verið varið til samgangna og gert er í þessari áætlun sem á eftir að skila sér í öruggari og greiðari umferð um allt land,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar, í færslu á Facebook í gær.
Sigurður Ingi sagði við atkvæðagreiðsluna í gær vilja þakka þingheimi fyrir að fara í gegnum þetta flókna og mikla úrlausnarefni. „Við erum að leggja af stað með sókn í samgöngumálum og atvinnusköpun,“ sagði Sigurður Ingi. Jafnframt þakkaði hann nefndarmönnum samgöngunefndar Alþingis þeirra mikla framlag.
Stóra byggðastefnan
„Í nágrannalöndum okkar er stundum talað um stóru byggðastefnuna þegar rætt er um samgönguáætlanir landanna. Í samgönguáætlun felast enda gríðarlega miklir hagsmunir fyrir samfélögin vítt og breytt um landið. Efnahagslegir hagsmunir eru líka mjög miklir því allar styttingar á leiðum innan og milli svæða fela í sér þjóðhagslegan sparnað,“ segir Sigurður Ingi.
Sigurður Ingi segir samgönguáætlunina marka tímamót, en nú hefur verið mörkuð fyrsta flugstefna stjórnvalda enda þótt flug á Íslandi hafi átt aldarafmæli á síðasta ári. Þá mun „Skoska-leiðin“, baráttumál Framsóknar um að taka upp niðurgreiðslu á flugi innanlands fyrir íbúa á landsbyggðinni, verða að veruleika. „Það er mikið réttlætismál að þeir sem búa fjarri höfuðborginni og vilja og þurfa að sækja þjónustu þangað fái niðurgreiðslur á ferðum sínum með flugi. Þetta er mikilvægt skref í því að jafna aðstöðumun þeirra sem búa annar staðar en á suðvesturhorninu“.
Samvinnuverkefni í samgöngum
„Samhliða samgönguáætlun voru líka samþykkt lög um samvinnuverkefni í samgöngum sem byggja á Hvalfjarðargangamódelinu. Þau verkefni sem falla undir löggjöfina eru ný brú yfir Ölfusá ofan Selfoss, láglendisvegur og göng í gegnum Reynisfjall, ný brú yfir Hornafjarðarfljót, nýr vegur yfir Öxi, önnur göng undir Hvalfjörð og hin langþráða Sundabraut. Allt eru þetta verkefni sem fela í sér verulega styttingu leiða og aukið öryggi en þeir sem vilja ekki nýta sér þessi mannvirki geta áfram farið aðra leið en munu þá verða af þeim ávinningi, fjárhagslegum og varðandi öryggi,“ sagði Sigurður Ingi.
Samgönguinnviðir á höfuðborgarsvæðinu
Alþingi samþykkti og stofnun hlutafélags um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðisins. Hlutafélaginu er ætlað að halda utan um fjármögnun uppbyggingar á samgönguinnviðum og hrinda þeirri uppbyggingu í framkvæmd, þ.m.t. innviðum almenningssamgangna, til 15 ára.
„Hér er stigið stærsta skref sem stigið hefur verið í uppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu. Byggja þær framkvæmdir á samgöngusáttmála ríkisins og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem undirritaður var í fyrra. Með honum var höggvið á þann hnút sem hefur verið í samskiptum ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og komið hafði í veg fyrir alvöru uppbyggingu á svæðinu. Sáttmálinn markar tímamót sem mun skila sér í greiðari samgöngum, hvort sem litið er á fjölskyldubílinn, almenningssamgöngur eða gangandi og hjólandi umferð,“ segir Sigurður Ingi.
Vegna þessa er áætlað beint heildarframlag ríkisins 45 milljarðar kr. að lágmarki til og með 2033. Bein framlög sveitarfélaganna verða samtals einn milljarður kr. á ári eða 15 milljarðar kr. á tímabilinu, þ.e. til og með 2033. Samkvæmt samgöngusáttmálanum er gert ráð fyrir að flýti- og umferðargjöld verði tekin upp með sérstakri lagasetningu til að standa undir hluta af fjármögnun verkefnisins eða um 60 (nettó) milljarðar kr. Er gjöldunum ætlað að standa straum af stofnframkvæmdum, fjármögnun og afleiddum kostnaði. Aðrir fjármögnunarkostir verða þó einnig skoðaðir samhliða orkuskiptum og endurskoðuð skattlagning á ökutæki og eldsneyti, enda raski það ekki fjármögnun framkvæmdaáætlunar.