Categories
Fréttir

Kaupandi lands búi á Íslandi

Deila grein

29/06/2020

Kaupandi lands búi á Íslandi

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Suðurkjördæmi, ræddi frumvarp forsætisráðherra um nýtingu og ráðstöfun landeigna á Alþingi í dag. Fram kom í ræðu hennar að ríkisstjórnin hafi frá upphafi kjörtímabilsins verið skýr með afstöðu sína. Stjórnarsáttmálinn kveður á um að setja skilyrði við kaup á landi sem taka mið af stefnu stjórnvalda um þróun byggðar, landnýtingu og umgengni um auðlindir. 

Silja Dögg fór yfir að Framsóknarflokkurinn geri þá kröfu „að kaupandi lands búi á Íslandi, að kaupandi hafi búið á Íslandi í a.m.k. fimm ár eða hafi starfsemi í landinu, þ.e. hafi bein tengsl  við landið. Að mati okkar Framsóknarmanna þarf tilgangur jarðakaupa að vera skýr. Margskonar markmið sem styrkja búsetu og samfélög gætu fallið þar undir, s.s. búfjárrækt, uppbygging gróðurauðlindar, landfrek atvinnustarfsemi eða nýsköpun byggð á sérstöðu viðkomandi jarðar eins og menningarverðmætum eða náttúru. Aðalatriði er eins og fyrr segir, að tilgangur jarðnýtingar liggi fyrir. Það er einnig algert lykilatriði að sveitarfélög og ríkisvald fái aðkomu að ráðstöfun landsins. Regluverkið þarf að vera það sveigjanlegt svo hægt sé að bregðast við ólíkum aðstæðum í byggðarlögum og landshlutum“.

Silja Dögg fór yfir helstu breytingar á gildandi lögum og þær viðbætur sem birtast í framlögðu frumvarpi forsætisráðherra. Sagði hún m.a. að ráðherra fái heimild til að veita aðilum frá ríkjum utan EES leyfi til að öðlast eignarrétt eða afnotarétt yfir fasteign ef þeir uppfylla ekki skilyrði laganna um íslenskan ríkisborgararétt eða skilyrði um lögheimili hér á landi. Þá gæti ráðherra veitt einstaklingi eða lögaðila utan EES, heimild til að öðlast eignar- eða afnotarétt yfir fasteign til beinna nota í atvinnustarfsemi. Verði þetta frumvarp að lögum fær ráðherra einnig heimilað einstaklingi, sem hefur sterk tengsl við Ísland, s.s. vegna hjúskapar við íslenskan ríkisborgara, að eignast hér fasteign“.

Þá er lögð til „breyting á þinglýsingalögum þess efnis að upplýsingar um kaupverð eignar verði meðal skilyrða fyrir þinglýsingu afsals nema skýrt komi fram að ekkert endurgjald komi fyrir hina seldu eign. Þá er lagt til að í lög um skráningu og mat fasteigna komi ákvæði um landeignaskrá, sem er hluti fasteignaskrár og inniheldur m.a. upplýsingar um eignarmörk lands í samræmdum kortagrunni. Ákvæðinu er ætlað að ryðja úr vegi hindrunum fyrir frekari uppbyggingu landeignaskrár Þjóðskrár Íslands“.

„Það sem snýr að breytingum á jarðarlögum í frumvarpinu, eru m.a. að markmiðsákvæði laganna verði fyllra og ítarlegra en nú og innihaldi markmið um landnýtingu í samræmi við skilgreind markmið, þ.á.m. um að land sem vel er fallið til búvöruframleiðslu verði nýtt í því skyni. Lagðar eru til breytingar á ákvæðum um lögbýli þannig að þau verði einungis stofnuð til starfsemi á sviði landbúnaðar eins og hann er skilgreindur í lögunum,“ sagði Silja Dögg.

Silja Dögg segir að gerð landeignaskrár sé lykilatriði, hún sé forsenda þess að hægt sé að uppfæra fasteignamat í dreifbýli.

„Það er tími til kominn að löggjafinn setji skýrari ramma um landakaup og ræði jafnframt hvort það sé eðlilegt að vatnsréttindi fylgi landsréttindum. Hér eru erlendir fjárfestar að fjárfesta fyrir á fimmta milljarð í vatnsverksmiðjum. Þeir eru að fjárfesta í vatnsréttindum og vatnsauðlindinni. Ég er ekki viss um að það þjóni hagsmunum Íslands til lengri tíma.

Við höfum ekki enn sett regluverk um kaup á landi og endurskoðað þar með þá löggjöf sem sett var fyrir 16 árum. Þá voru allar gáttir opnaðar, sem var ekki til bóta. Það felast miklir almannahagsmunir í ráðstöfun og meðferð lands og því geta ekki gilt sömu reglur um kaup og sölu á landi eins og á hverri annarri fasteign.

Það frumvarp sem við ræðum nú, tekur ekki á öllum þeim þáttum í jarðamálum, sem gera þarf breytingar á. En frumvarpið er tvímælalaust skref í rétta á, eins og ég hef þegar farið yfir,“ sagði Silja Dögg.