Á liðnu vori var kórónuveiran bremsa á samfélagslega virkni. Leikhúsum var lokað. Tónleikum var aflýst. Mörgum skólabyggingum læst. Vinnustaðir sendu starfsfólk heim og göturnar tæmdust. Samstaða ríkti um að kveða veiruna í kútinn og aðgerðir skiluðu árangri.
Þótt veiran hafi uppvakin minnt á sig á undanförnum vikum er mikilvægt að halda samfélaginu virku. Finna ábyrgar leiðir til að lifa lífinu; halda skólum opnum, fyrirtækjum gangandi, listalífi kviku. Heilsa þjóðarinnar ræðst nefnilega af mörgum þáttum, andlegri næringu og líðan, samskiptum við aðra, jákvæðum hugsunum og frelsi.
Sóttvarnareglur taka í auknum mæli mið af því. Í framhalds- og háskólum eru nándarmörk nú einn metri í stað tveggja í vor. Börn í grunn- og leikskólum þurfa ekki að lúta nándarreglum og heimild hefur fengist til æfinga og keppni í íþróttum. Hár- og snyrtistofur standa opnar að uppfylltum ákveðnum skilyrðum og þjónusta af ýmsum toga blómstrar. Listviðburðir eru enn takmörkunum háðir, þar sem nándar- og fjöldasamkomureglur gera menningarstarf ýmist ómögulegt eða fjárhagslega óráðlegt. Slíkt getur menningarþjóð ekki látið stöðva sig og við getum fundið leiðir til að njóta menningar og lista. Til dæmis standa vonir til að gildandi nándarreglur í skólum og íþróttastarfi fáist fyrr en síðar yfirfærðar á leikhúsið, svo leikarar á sviði geti hafið æfingar. Með beinum stuðningi hins opinbera gæti viðburðahald hafist, þrátt fyrir reglur um hámarksfjölda. Hugmyndir í þá veru hafa verið ræddar, þar sem stuðningurinn fæli frekar í sér hvata til aukinnar menningarvirkni frekar en bætur vegna glataðra tækifæra. Samhliða þarf að tryggja listamönnum réttindi sambærileg þeim sem launþegar almennt njóta, en sjálfstætt starfandi listafólk hefur í mörgum tilvikum fallið milli skips og bryggju þegar kemur að rétti til atvinnuleysisbóta.
Almennar sóttvarnareglur, aðgerðir á landamærum, persónulegt hreinlæti og ábyrg hegðun hvers og eins okkar er forsenda þeirrar samfélagslegu virkni sem við æskjum. Við getum með réttum viðhorfum og lausnamiðaðri hugsun blásið lífi í menningarstarf og þannig samfélagið allt. Við getum fylgt íslenska ferðasumrinu eftir með íslenskum menningarvetri. Undanfarnir mánuðir hafa sýnt að við búum í sterku samfélagi, því þrátt fyrir fordæmalausar aðstæður er staðan almennt góð. Atvinnustig er betra en óttast var, kaupmáttur og einkaneysla er meiri, opinberar framkvæmdir að aukast og skólastarf er að hefjast. Með samstöðu og bjartsýni að leiðarljósi munum við sigrast á aðstæðunum.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. ágúst 2020.