Categories
Greinar

Virkni mikilvægust

Deila grein

17/08/2020

Virkni mikilvægust

Á liðnu vori var kór­ónu­veir­an bremsa á sam­fé­lags­lega virkni. Leik­hús­um var lokað. Tón­leik­um var af­lýst. Mörg­um skóla­bygg­ing­um læst. Vinnustaðir sendu starfs­fólk heim og göt­urn­ar tæmd­ust. Samstaða ríkti um að kveða veiruna í kút­inn og aðgerðir skiluðu ár­angri.

Þótt veir­an hafi upp­vak­in minnt á sig á und­an­förn­um vik­um er mik­il­vægt að halda sam­fé­lag­inu virku. Finna ábyrg­ar leiðir til að lifa líf­inu; halda skól­um opn­um, fyr­ir­tækj­um gang­andi, list­a­lífi kviku. Heilsa þjóðar­inn­ar ræðst nefni­lega af mörg­um þátt­um, and­legri nær­ingu og líðan, sam­skipt­um við aðra, já­kvæðum hugs­un­um og frelsi.

Sótt­varn­a­regl­ur taka í aukn­um mæli mið af því. Í fram­halds- og há­skól­um eru nánd­ar­mörk nú einn metri í stað tveggja í vor. Börn í grunn- og leik­skól­um þurfa ekki að lúta nánd­ar­regl­um og heim­ild hef­ur feng­ist til æf­inga og keppni í íþrótt­um. Hár- og snyrti­stof­ur standa opn­ar að upp­fyllt­um ákveðnum skil­yrðum og þjón­usta af ýms­um toga blómstr­ar. Listviðburðir eru enn tak­mörk­un­um háðir, þar sem nánd­ar- og fjölda­sam­komu­regl­ur gera menn­ing­ar­starf ým­ist ómögu­legt eða fjár­hags­lega óráðlegt. Slíkt get­ur menn­ing­arþjóð ekki látið stöðva sig og við get­um fundið leiðir til að njóta menn­ing­ar og lista. Til dæm­is standa von­ir til að gild­andi nánd­ar­regl­ur í skól­um og íþrótt­a­starfi fá­ist fyrr en síðar yf­ir­færðar á leik­húsið, svo leik­ar­ar á sviði geti hafið æf­ing­ar. Með bein­um stuðningi hins op­in­bera gæti viðburðahald haf­ist, þrátt fyr­ir regl­ur um há­marks­fjölda. Hug­mynd­ir í þá veru hafa verið rædd­ar, þar sem stuðning­ur­inn fæli frek­ar í sér hvata til auk­inn­ar menn­ing­ar­virkni frek­ar en bæt­ur vegna glataðra tæki­færa. Sam­hliða þarf að tryggja lista­mönn­um rétt­indi sam­bæri­leg þeim sem launþegar al­mennt njóta, en sjálf­stætt starf­andi lista­fólk hef­ur í mörg­um til­vik­um fallið milli skips og bryggju þegar kem­ur að rétti til at­vinnu­leys­is­bóta.

Al­menn­ar sótt­varn­a­regl­ur, aðgerðir á landa­mær­um, per­sónu­legt hrein­læti og ábyrg hegðun hvers og eins okk­ar er for­senda þeirr­ar sam­fé­lags­legu virkni sem við æskj­um. Við get­um með rétt­um viðhorf­um og lausnamiðaðri hugs­un blásið lífi í menn­ing­ar­starf og þannig sam­fé­lagið allt. Við get­um fylgt ís­lenska ferðasumr­inu eft­ir með ís­lensk­um menn­ing­ar­vetri. Und­an­farn­ir mánuðir hafa sýnt að við búum í sterku sam­fé­lagi, því þrátt fyr­ir for­dæma­laus­ar aðstæður er staðan al­mennt góð. At­vinnu­stig er betra en ótt­ast var, kaup­mátt­ur og einka­neysla er meiri, op­in­ber­ar fram­kvæmd­ir að aukast og skólastarf er að hefjast. Með sam­stöðu og bjart­sýni að leiðarljósi mun­um við sigr­ast á aðstæðunum.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. ágúst 2020.