Það er ánægjulegt að sjá og meta framgang byggðaáætlunar það sem af er og ég tel að vel hafi tekist til bæði við framkvæmd og fyrirkomulag áætlunarinnar. Vel hefur gengið að samþætta byggðasjónarmið við aðrar stefnur og áætlanir ríkis og sveitarfélaga: byggðagleraugun eru nú sett upp á f leiri stöðum en áður hefur verið. Vissulega mætti vera meira fjármagn úr að spila en það fé sem til ráðstöfunar er hefur verið vel nýtt.
Einnig hefur tekist vel til við að virkja marga aðila þvert á hreppsmörk, stjórnsýslustig og málaflokka, og sveitarstjórnarstigið er mun betur tengt við framkvæmd byggðaáætlunar en áður. Það var hárrétt ákvörðun að samþætta byggða- og sveitarstjórnarmál undir einum ráðherra. Þegar horft er yfir sviðið og farinn veg tel ég fullljóst að sveitarstjórnar- og byggðamál verði ekki aðskilin héðan í frá.
Loftbrúin (Skoska leiðin) er ein mikilvægasta byggða- og samgönguaðgerð síðari ára. Loftbrúin veitir 40% afslátt af heildarfargjaldi fyrir allt að sex flugleggi á ári og er markmiðið að bæta aðgengi íbúa á landsbyggðinni sem búa fjarri höfuðborginni að miðlægri þjónustu. Ljóst er að hér er um mikið réttlætismál að ræða fyrir þá sem búa fjarri höfuðborginni og bæði vilja og þurfa að sækja þjónustu þangað. Það er því sérstaklega ánægjulegt að Loftbrúin sé nú orðin að veruleika og komin til framkvæmda.
Í byrjun sumars hélt byggðamálaráð góðan umræðufund um endurskoðun byggðaáætlunar, hvar við stöndum og hvert beri að stefna til framtíðar. Það var mjög gott að fá yfirlit yfir byggðastefnu og aðgerðir á Norðurlöndunum. Við endurskoðun byggðaáætlunar er mikilvægt að skoða sérstaklega hvaða aðgerðir eru að skila árangri og byggja áfram á þeim verkefnum sem hafa þótt reynast vel.
Um leið er ljóst að sveitarstjórnarfólk um land allt lætur sig byggðamál varða og það þurfum við líka að gera hér á höfuðborgarsvæðinu. Byggðastefna á að ná til landsins alls, en ekki bara til veikustu byggðarlaganna eins og áður var. Það er mikilvægt fyrir okkur sem munum nú bera ábyrgð á því fyrir hönd ráðherra og ríkisstjórnar að endurskoða byggðaáætlun og tryggja að hún verði það verkfæri sem byggðir landsins hafa þörf fyrir.
Við höfum úr miklu að moða og höldum glöð til móts við verkefnið. Að lokum vil ég hvetja alla landsmenn, nær og fjær, til að taka þátt í því opna samráðsferli sem nú stendur yfir. Mótum saman nýja og öfluga byggðastefnu fyrir landið.
Ágúst Bjarni Garðarsson, formaður byggðamálaráðs.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 30. september 2020.