Við þurfum að skara fram úr. Velmegun og öryggi okkar þjóðar ræðst af getu okkar til að keppa við aðrar þjóðir um lífsgæði. Við þurfum að setja markið hátt og vera reiðubúin að keppa við þá sem lengst hafa náð. Slíkt gerist ekki sjálfkrafa, en með hugrekki, hugvit og þrautseigju að vopni getum við keppt við þróuðustu hagkerfi heimsins.
Við tökumst nú á við eina alvarlegustu efnahagskreppu nútímasögunnar. Í kjölfar heimsfaraldurs standa þjóðir heims frammi fyrir miklum þrengingum og er Ísland þar engin undantekning. Ábyrgðarhlutverk stjórnvalda er stórt og okkur ber að grípa til margháttaðra varnaraðgerða til að vernda heimili og atvinnulíf fyrir verstu áhrifum kreppunnar. Við eigum þó ekki að gleyma okkur í vörninni heldur þora að sækja fram. Markviss efling hugvits, tækni og skapandi greina getur leikið stórt hlutverk í þeim efnum. Ríkisfjármálaáætlun og fjárlagafrumvarpið bera þess skýr merki.
Við þurfum ekki að líta langt, því bestu tækifærin búa í okkur sjálfum! Við höfum byggt upp atvinnulíf á auðlindum íslenskrar náttúru; fiskimiðum, fallvötnum og fegurð landsins. Við höfum líka litið til okkar sjálfra, en þurfum að gera meira því tækifæri framtíðarinnar liggja ekki síst í menningunni sem hér hefur þróast.
Þar geta runnið saman sterkir alþjóðlegir straumar og sérstaða Íslands og þegar er hafin vinna við eflingu skapandi greina; þar sem menning, listir, hugvit og iðnaður renna saman í eitt. Skapandi greinar eru þannig svar við áskorunum og tækifærum sem fylgja fjórðu iðnbyltingunni, þar sem skil milli efnislegra, stafrænna og líffræðilegra kerfa mást út. Sjálfvirknivæðing og margvísleg hátækni sýna okkur eina hlið á nýjum veruleika. Þar verða tækifærin best nýtt með sköpunargáfu, gagnrýnni hugsun og getu til að horfa á hlutina með nýjum hætti.
Við nýtum nú þegar þá miklu auðlind sem er að finna í kraftmiklu menningar- og listalífi. Sú auðlind skilar nú þegar miklum efnahagslegum gæðum til samfélagsins í formi atvinnu, framleiðslu á vöru og þjónustu. Þessi öfluga atvinnugrein veitir ekki aðeins tæplega 8% vinnuaflsins beina atvinnu, heldur hefur rík áhrif á ferðaþjónustu og fleiri atvinnugreinar. Skapandi greinar eru sveigjanlegri og vaxa hraðar en aðrar atvinnugreinar, en til að standast samkeppni við aðrar þjóðir þurfum við að greiða leið frumkvöðla og skapandi fyrirtækja með hvetjandi aðgerðum.
Mikil tækifæri eru til vaxtar á öllum sviðum hugvitsdrifinna atvinnugreina á Íslandi. Ný kvikmyndastefna sem lögð var fram fyrir fáum dögum er dæmi um þær aðgerðir sem opinberir aðilar þurfa að grípa til ef við ætlum að nýta okkur tækifæri framtíðarinnar. Aðrar greinar eins og leikjaframleiðsla, tónlistariðnaður, hönnun og arkitektúr, myndlist, bókmenntir og sviðslistir þarf að styðja með líkum hætti með því að tryggja þeim bestu mögulegu skilyrði til að blómstra í þágu okkar allra.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. október 2020.