Categories
Greinar

Matur er mannréttindi

Það var gleðilegt að sjá á dögunum að matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna hlaut Friðarverðlaun Nóbels því þar er unnið mikilvægt starf í þágu friðar og mannréttinda fólks sem á um sárt að binda og lifir við ósæmandi kjör í heiminum. Markmiðið með áætluninni er að bjarga og breyta lífum fólks og stefna að engu hungri í heiminum. En eins og á flestum sviðum þjóðlífsins um allan heim hefur COVID-19 faraldurinn haft gríðarlega mikil áhrif á starf áætlunarinnar.

Deila grein

26/10/2020

Matur er mannréttindi

Það var gleðilegt að sjá á dögunum að matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna hlaut Friðarverðlaun Nóbels því þar er unnið mikilvægt starf í þágu friðar og mannréttinda fólks sem á um sárt að binda og lifir við ósæmandi kjör í heiminum. Markmiðið með áætluninni er að bjarga og breyta lífum fólks og stefna að engu hungri í heiminum. En eins og á flestum sviðum þjóðlífsins um allan heim hefur COVID-19 faraldurinn haft gríðarlega mikil áhrif á starf áætlunarinnar.

300 milljónir við hungurmörk

Þegar krísan skall á vöruðu forystumenn matvælaáætlunarinnar við því að alheimsfaraldurinn gæti orsakað hungurfaraldur og ekki er ólíklegt að sú verði niðurstaðan. Nýlega gáfu Sameinuðu þjóðirnar út að í lok árs myndu hátt í 300 milljónir manna lifa við hungurmörk í 88 löndum sem er 82 prósenta aukning frá sama tíma í fyrra. Þetta eru beinar afleiðingar af COVID-19. Þetta er sláandi aukning. Ljóst er að starf matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna hefur aldrei verið jafn mikilvægt eins og nú á tímum.

António Guterres á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík

Í fyrsta sinn í sögu Norðurlandaráðs er árlegu þingi ráðsins, sem halda átti í Hörpu í lok október, aflýst. Þess í stað verður það stafrænt. Þar verða mörg mikilvæg málefni norrænu ríkjanna í brennidepli og ljóst að COVID-19 fær sinn sess á þinginu. Það er mikil viðurkenning fyrir starf Norðurlandaráðs að António Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, mun taka þátt í sameiginlegum stafrænum fundi Norðurlandaráðs um COVID-19 í þingvikunni þann 27. október næstkomandi. Þá fáum við Norðurlandabúar innsýn inn í hvaða áskoranir alheimsfaraldurinn hefur haft í för með sér fyrir alla heimsbyggðina. Áskoranir sem ekki enn sér fyrir endann á.

Það er ákaflega spennandi að fá að heyra sýn António Guterres á hinu alþjóðlega starfi í baráttunni við COVID-19. Það er barátta sem við vinnum ekki einsömul heldur með sameiginlegu átaki og samvinnu, bæði á Norðurlöndunum og á alþjóðlegum vettvangi. Við höfum upplifað að Sameinuðu þjóðirnar hafa mikilvægu hlutverki að gegna þegar kemur að alþjóðlegum krísum, ekki hvað síst við að standa vörð um líf fólks sem býr á átakasvæðum eða við ósæmandi kjör. Norðurlöndin styðja löglega heimsskipun og öflugar Sameinaðar þjóðir.

Samræður um alheimssamvinnu

Fundurinn með António Guterres hefur mikla þýðingu fyrir Norðurlandaráð enda hafa markmið og stefnur Sameinuðu þjóðanna oft á tíðum gengið í takt við þau gildi sem Norðurlöndin vinna eftir. Þar eru mannréttindi og jafnrétti burðarstólpar í starfi samtakanna beggja. Sameinuðu þjóðirnar fagna 75 ára afmæli á þessu ári og hafa á undanförnum áratugum efnt til umfangsmestu samræðu sem um getur um alheimssamvinnu til að móta betri framtíð í þágu allra jarðarbúa. Starfsemi samtakanna er samofið þeirri hugmyndafræði sem Norðurlandaráð byggir á en það voru einmitt Danir og Norðmenn sem stofnuðu Sameinuðu þjóðirnar árið 1945. Íslendingar og Svíar bættust síðan í hópinn ári eftir og Finnar urðu aðilar árið 1955. Því má með sanni segja að norræna samstarfið, sem er elsta samstarf í heimi af sínu tagi, hafi lagt grundvöll að því farsæla starfi sem Sameinuðu þjóðirnar hafa gefið af sér í gegnum tíðina.

Áskoranir og afleiðingar COVID-19

Í kjölfar erindis António Guterres á þingi Norðurlandaráðs þann 27. október næstkomandi gefst norrænum þingmönnum og forsætisráðherrum landanna í fyrsta sinn tækifæri til að ræða sameiginlega um alheimsfaraldurinn, áskoranir sem honum hefur fylgt og hvaða afleiðingar hann hefur haft í för með sér. Einnig verða umræður milli þátttakenda hvaða lærdóm Norðurlöndin geta tekið með sér eftir krísuna. Norrænu ríkisstjórnirnar hafa valið ólíkar aðferðir við að berjast gegn COVID-19 sem hefur meðal annars leitt til hertara landamæraeftirlits og takmörkunum á frjálsri för fólks sem er einn af kjarnanum í norræna samstarfinu.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu fimmtudaginn 22. október 2020.