Categories
Greinar

Okkar ástkæra og ylhýra

Deila grein

18/06/2021

Okkar ástkæra og ylhýra

Í gær fögnuðu Íslend­ing­ar þjóðhátíðar­deg­in­um. Við gleðjumst sam­an á ári hverju hinn 17. júní og heiðrum þá sem börðust fyr­ir sjálf­stæði Íslands. Við erum stolt af því að hafa öðlast sjálf­stæði og vera þjóð meðal þjóða.

En hvað ger­ir þjóð að þjóð? Al­geng skil­grein­ing á þjóð er þegar hóp­ur fólks upp­fyll­ir ákveðin skil­yrði, þ.e. deil­ir sam­eig­in­legri sögu, menn­ingu, þjóðar­vit­und og síðast en ekki síst sam­eig­in­legu tungu­máli. Þjóð þarf ekki endi­lega að deila sam­eig­in­legu landsvæði. Við Íslend­ing­ar erum vissu­lega, sem eyríki, land­fræðilega af­mörkuð þjóð en ís­lensk­an er samt sem áður meðal þess sem ger­ir ís­lensku þjóðina að þjóð. Okk­ur ber því að standa vörð um tungu­málið okk­ar því ís­lensk­an er ekki ein­ung­is hluti af okk­ar dag­lega lífi, held­ur varðveit­ir tungu­málið sögu okk­ar og menn­ing­ar­arf. „Tung­an geym­ir sjóð minn­ing­anna,“ sagði frú Víg­dís Finn­boga­dótt­ir í sinni fyrstu ræðu sem for­seti ís­lenska lýðveld­is­ins hinn 1. ág­úst árið 1980 og það eru mik­il sann­indi fólg­in í þeim orðum.

Í því alþjóðlega um­hverfi sem við búum við í dag verður sí­fellt mik­il­væg­ara að standa vörð um ís­lensk­una – okk­ar dýr­asta arf. Að tryggja var­an­leika henn­ar verður aðeins gert með mark­viss­um aðgerðum. Grunn­ur­inn er auðvitað góð ís­lensku­kennsla í skól­um lands­ins, aðgengi og stuðning­ur að bók­um á ís­lensku og öðru afþrey­ing­ar­efni. Kvik­mynd­ir og tölvu­leik­ir eru yf­ir­leitt á ensku. Vissu­lega hjálp­ar slíkt efni mikið við að læra ensku en það reyn­ist oft vera á kostnað ís­lensk­unn­ar.

Lilja Al­freðsdótt­ir mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra hef­ur lagt áherslu á fjöl­marg­ar aðgerðir í sinni ráðherratíð sem bein­ast að varðveislu tungu­máls­ins. Ráðherra hef­ur t.a.m. lagt áherslu á að gera ís­lensku að gjald­gengu tungu­máli í sta­f­ræn­um heimi þar sem til dæm­is gervi­greind og radd­stýrð tæki spila stór hlut­verk í lífi fólks. Sjálf­seign­ar­stofn­un­in Al­mannaróm­ur og SÍM – sam­starfs­hóp­ur um ís­lenska mál­tækni hafa leitt vinnu á þeim vett­vangi, und­ir for­ystu ráðherra. Fyrstu áfang­ar þess verk­efn­is fela í sér gagna­söfn­un en síðan verður smíðaður hug­búnaður með stoðtól­um fyr­ir mál­tækni, vél­ræn­ar þýðing­ar, mál­rýni, tal­greini og tal­gervil.

Þá má nefna ný­leg sam­skipti mennta­málaráðherra við afþrey­ing­arris­ann Disney um út­gáfu mynd­efn­is gegn­um Disney plús. Í kjöl­far sam­skipta ráðherra við fyr­ir­tækið hef­ur Disney tryggt ís­lenska textun og/​eða tal­setn­ingu á fleiri en 600 mynd­um eða þátt­um á Disney+. Meðal þeirra eru Star Wars-mynd­irn­ar og Mar­vel-mynd­irn­ar, sem eru vin­sæl­ar meðal allra ald­urs­hópa.

Það eru ein­mitt svona hlut­ir, svona dugnaður og frum­kvæði, sem eiga þátt í varðveislu tungu­máls­ins.

Silja Dögg Gunn­ars­dótt­ir, þingmaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 18. júní 2021.

Categories
Greinar

Skip sem landi ná

Deila grein

12/06/2021

Skip sem landi ná

Mennt er máttur og menningin auðgar andann og því þurfa mennta- og menningarstofnanir okkar að vera lifandi og kröftugar. Undirrituð hefur átt sæti í allsherjar- og menntamálanefnd síðustu misseri og fengið að fylgja eftir nokkrum málum  í gegnum nefndina sem menntamálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, hefur lagt fram. Þar eru mál sem þjóna að sjálfsögðu landinu öllu en líka nokkur verkefni sem snúa beint að Suðurnesjum og ætla ég að rekja nokkur þeirra hér.

Árangursríkar aðgerðir

Þegar Wow varð gjaldþrota vorið 2019, ákvað ríkisstjórnin að setja 45 milljónir í fyrri hluta aðgerðaráætlunar til að efla menntaúrræði á Suðurnesjum sem andsvar við miklu atvinnuleysi. Aðgerðaáætlunin var unnin í nánu samráði við fræðsluaðila á svæðinu og Vinnumálastofnun. Í áætluninni var lögð áhersla á íþrótta- og æskulýðsstarf sveitarfélaga og frjálsra félagasamtaka, raunfærnimat með náms- og starfsráðgjöf og styttri námslínur og námskeið. Það er óumdeilt að það skipti miklu máli fyrir svæðið að menntamálaráðherra brást strax við kalli íbúa á þessum erfiða tíma.

Menntanetið og Keilir

Atvinnuleysi á Suðurnesjum hélt áfram að vaxa vegna Covid-19. Þá ákvað ríkisstjórnin, í samráði við sveitarfélög, atvinnurekendur, menntastofnanir og fleiri, að koma á fót menntaneti til að efla náms- og starfsúrræði fyrir atvinnuleitendur. Þrjú hundruð milljónum var ráðstafað úr ríkissjóði til að kaupa þjónustu hjá menntanetinu sem hluti af átakinu Nám er tækifæri. Þá var ákveðið að styrkja námsleiðir Keilis, gegn því að sveitarfélögin á Suðurnesjum kæmu einnig inn með fjármuni. Þannig var hægt að styrkja rekstrarstöðu Keilis.

Niðurfelling námslána

Meðal þeirra framfaramála sem Alþingi hefur samþykkt frá menntamálaráðherra á kjörtímabilinu eru lög um lýðskóla, lög um Menntasjóð sem fela m.a. í sér 30% niðurfellingu á námslánum, styrki til barnafólks og afnám ábyrgðamannakerfisins, menntastefna, kvikmyndastefna, lög um leyfisbréf kennara, hvatar til fjölgunar nema í kennaranámi og nýlega samþykkti Alþingi lög um breytingum á aðgengi í háskóla. Nú getur fólk sem hefur lokið 3. hæfnisstigi í starfs- eða tækninámi fengið aðgang í háskólanám. Nú gildir ekki einungis stúdentspróf, eins og áður. Ég tel að þessi breyting svari kalli atvinnulífsins um fjölbreyttari hæfni á vinnumarkaði, sér í lagi hæfni á tæknisviði og starfsmenntun.

Fiskur og flug

Fisktækniskóli Íslands er staðsettur í Grindavík en þjónar öllu landinu og er afar mikilvæg menntastofnun. Fyrirhuguð er að gera samning við skólann um fisktækninám og annað nám tengt því. Áætlað er að samningurinn muni taka gildi 1. ágúst 2021, verði til fimm ára og að árlegt framlag ríkisins verði 71 milljón króna.

Stækkun Fjölbrautaskóla Suðurnesja er einnig verkefni sem sett hefur verið af stað á þessu kjörtímabili, sem ég er mjög stolt af. Reist verður 300 fermetra viðbyggingu sem mun hýsa félagsrými nemenda. Þá mun ríkissjóður leggja til 80 milljónir á ári næstu þrjú árin til Flugakademíu Keilis til stuðnings flugnáms í landinu.

Forsenda velferðar og lífsgæða á Íslandi er öflugt og fjölbreytt atvinnulíf. Sterkar menntastofnanir um land allt eru algjört lykilatriði í því samhengi.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á vf.is 10. júní 2021.

Categories
Greinar

Hamingjan er heima

Deila grein

10/06/2021

Hamingjan er heima

Síðustu mánuðir hafa kennt okkur að mörg störf krefjast ekki stöðugrar viðveru á tilteknum stað. Við sinnum vinnunni hvar sem er í veröldinni. Forsenda þess eru góð og örugg fjarskipti. Stjórnvöld eiga að skapa umhverfi fyrir störf án staðsetningar í samvinnu við sveitarfélög í öllum landbyggðum.

Sveigjanleiki og starfsánægja

Tæknin til þess að sinna störfum án staðsetningar er löngu komin fram. Kórónufaraldurinn kenndi okkur nýja hluti og við aðlögumst nýjum veruleika. Nágrannaþjóðir okkar eru þó margar komnar lengra hvað varðar hlutfall fjarvinnu. Fyrirtæki geta sparað miklar fjárhæðir í fastan rekstrarkostnað. Víða hefur starfsánægja aukist og um leið afköst. Margir kunna að meta sveigjanleikann og tímasparnað vegna ferða. Kolefnisfótsporið minnkar og mögulega dregur úr streitu. Kostir fjarvinnu eru augljósir.

Góðar fréttir

Störf án staðsetningar er markviss aðgerð sem finna má bæði í ríkisstjórnarsáttmálanum og í Byggðaáætlun.  Nýleg niðurstaða vinnuhóps ríkisstjórnarinnar sýnir okkur að það sé raunhæft markmið að 10% allra starfa í ráðuneytum og stofnunum verði auglýst án staðsetningar árið 2024.  100 stofnanir af 122 skiluðu greiningu þar að lútandi. Þar kemur fram að mögulegt er að auglýsa allt að 890 störf án staðsetningar eða 13% stöðugilda þeirra stofnana sem svöruðu.

Samvinnuverkefni

Tryggja þarf aðgengi að húsnæði og aðstöðu til þess að koma upp starfsstöðvum. Góðar fyrirmyndir má t.a.m. finna á Þingeyri og á Flateyri. Byggðastofnun hefur tekið saman upplýsingar um mögulegt húsnæði fyrir störf án staðsetningar. Upplýsingum var safnað saman með aðstoð landshlutasamtaka sveitarfélaga og hafa verið settar fram á sérstöku korti. Kortinu er ætlað að vera lifandi upplýsingagátt fyrir forstöðumenn ráðuneyta og stofnana og alla þá sem hugsa sér að sinna opinberu starfi án staðsetningar. Á kortinu eru nú 83 staðir þar sem hægt er að taka við fólki sem vinnur starf án staðsetningar með rúmlega 100 starfsstöðvar fyrir einstaklinga.

Stjórnvöld, sveitarfélög og einkageirinn þurfa að eiga samtal um hvaða stefnu sé best að taka þannig að tryggja megi öflugar starfsstöðvar um allt land.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 10. júní 2021.

Categories
Greinar

Of sein til að ættleiða

Deila grein

26/05/2021

Of sein til að ættleiða

Á síðustu árum hafa fjölskyldumynstur tekið miklum breytingum. Þáttur stjúpforeldra í uppeldi barna hefur aukist. Hvergi í Evrópu eru jafn mörg börn fædd utan hjónabands og á Íslandi. Stjúpforeldrar líkt og foreldrar verða mikilvægir í lífi stjúpbarns, sem og stjúpbarnið í augum stjúpforeldris.

Krafa um samfellda sambúð

Stjúpættleiðing er ættleiðing á barni eða kjörbarni maka umsækjanda, hjúskapar- eða sambúðarmaka og oft á tíðum eðlileg framvinda þegar einstaklingur hefur gengið barni í móður- eða föðurstað. Við stjúpættleiðingu rofna öll tengsl barnsins við annað kynforeldri og stjúpforeldrið verður lagalegt foreldri í öllum skilningi. Í þeim kringumstæðum þegar kynforeldri er litlum eða engum kringumstæðum við barn sitt eða ef það er látið hefur stjúpforeldri fengið leyfi til þess að ættleiða barnið. Til þess að einstaklingur geti lagt fram umsókn um stjúpættleiðingu skal umsækjandi hafa verið í samfelldri sambúð með foreldri eða kjörforeldri barns í að minnsta kosti fimm ár.

Stjúpættleiðing ekki möguleg eftir skilnað eða andlát

Lífið er nú þannig að ekki öll hjónabönd eða sambúðir halda út, en tengsl sem myndast á þeim tíma milli einstaklinga halda þó áfram út lífið. Íslensk lög um ættleiðingar gera ekki ráð fyrir því að stjúpforeldri óski eftir að ættleiða stjúpbarn sitt eftir að hafa slitið hjónabandi eða sambúð við foreldrið. Eins og staðan er nú getur einstaklingur sem alið hefur upp barn í fjölda ára ekki sótt um að stjúpættleiða það barn ef viðkomandi hefur slitið sambúð eða hjónabandi við hitt foreldrið. Þá eru skilyrði umsækjanda heldur ekki uppfyllt ef foreldrið fellur frá þar sem umsækjandi er ekki í hjúskap eða sambúð þegar umsókn berst. Samkvæmt núgildandi lögum getur einstaklingur sem óskar eftir að ættleiða barn sem alist hefur upp hjá umsækjanda einungis sótt um ættleiðingu sem einstaklingur, það hefur þau réttaráhrif að lagatengsl við báða blóðforeldra rofnar.

Hægt að breyta lögunum

Þetta gat á lögum um ættleiðingar er ekki stórt og það er auðvelt að stoppa í það. Eðlilegast væri að einstaklingur sem gengið hefur barni í móður- eða föðurstað í fjölda ára geti enn fengið að vera foreldri barnsins og veitt því sömu réttindin og mögulega önnur börn viðkomandi þrátt fyrir sambandsslit eða andlát. Því hef ég lagt fram frumvarp um breytingu á lögum um ættleiðingar þar sem einstaklingi sem hefur verið í hjúskap eða sambúð í að minnsta kosti fimm ár með foreldri barns óskað eftir að ættleiða barnið þrátt fyrir að hafa slitið samvistum. Einnig legg ég til í frumvarpinu að mögulegt sé að óska eftir að ættleiða barn hafi maki eða sambúðarmaki fallið frá.

Það er óvíst að frumvarpið nái fram að ganga á þessu þingi, en mikilvægt er að opna þessa umræðu. Þetta eru litlar breytingar á löggjöfinni en geta verið gríðarlega mikilvægar fyrir þá einstaklinga sem eiga hér undir. Samfélagið breytist og löggjafinn þarf að fylgjast með.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 26. maí 2021.

Categories
Greinar

Fræ sem verða blóm

Deila grein

26/05/2021

Fræ sem verða blóm

Mennt er máttur og menningin auðgar andann og því þurfa mennta- og menningarstofnanir okkar að vera lifandi og kröftugar. Undirrituð hefur átt sæti í allsherjar- og menntamálanefnd síðustu misseri og fengið að fylgja eftir nokkrum málum í gegnum nefndina sem menntamálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir hefur lagt fram. Þar eru mál sem þjóna að sjálfsögðu landinu öllu en líka nokkur verkefni sem snúa beint að Suðurlandinu og ætla ég að rekja nokkur þeirra hér.

Menningarsalurinn
Menningarsalurinn í Hótel Selfossi hefur staðið fokheldur í tæp 40 ár. Í fjárlagafrumvarpi ársins 2021 var aukafjárveiting upp á 140,5 milljónir króna til framkvæmda við menningarsalinn og gert er ráð fyrir annarri eins upphæð árið 2022. Framkvæmdirnar eru hluti af fjárfestingarákvæði ríkisstjórnarinnar til að sporna gegn niðursveiflu í efnahagslífinu í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Stefnt er á að framkvæmdum við salinn verði lokið á næstu tveimur árum. Við getum verið sammála um að nýr menningarsalur verði mikil lyftistöng fyrir menningarlíf á Suðurlandi.

Niðurfelling námslána
Meðal þeirra framfaramála sem Alþingi hefur samþykkt frá menntamálaráðherra á kjörtímabilinu eru lög um lýðskóla, lög um Menntasjóð sem fela m.a. í sér 30% niðurfellingu á námslánum, styrki til barnafólks og afnám ábyrgðamannakerfisins, menntastefna, kvikmyndastefna, lög um leyfisbréf kennara, hvatar til fjölgunar nema í kennaranámi og nýlega samþykkti Alþingi lög um breytingum á aðgengi í háskóla. Nú getur fólk sem hefur lokið 3. hæfnisstigi í starfs- eða tækninámi fengið aðgang í háskólanám. Nú gildir ekki einungis stúdentspróf, eins og áður. Ég tel að þessi breyting svari kalli atvinnulífsins um fjölbreyttari hæfni á vinnumarkaði, sér í lagi hæfni á tæknisviði og starfsmenntun.

Ný heimavist
Ákall var um að komið yrði upp heimavist fyrir nemendur FSu sem geta ekki farið daglega á milli heimilis og skóla vegna fjarlægðar. Sér í lagi fyrir yngri nemendur. Ráðherra tók vel í hugmyndina og heimavistin var opnuð sl. haust. Ásókn hefur verið minni en gert var ráð fyrir sem skýrist fyrst og fremst af áhrifum Covid-19. Ný heimavist er ánægjuefni fyrir Sunnlendinga enda er um að ræða lykilþátt þess að tryggja jafnrétti til náms fyrir ungmenni í landshlutanum.

Græn framtíð
Málefni Garðyrkjuskóla Íslands eru á borði ráðherra til úrlausnar og ég geri ráð fyrir að niðurstaðan verði farsæl fyrir framtíð garðyrkjunáms hér landi. Markmiðið er að efla garðyrkjunámið. Við sem tölum fyrir grænni framtíð og aukinni sjálfbærni, vitum að öflug menntastofnun á þessu sviði gerir þessi framtíðarsýn okkar að raunhæfum möguleika.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á sunnlenska.is 25. maí 2021.

Categories
Greinar

Snúum (sótt)vörn í (fram)sókn

Deila grein

03/05/2021

Snúum (sótt)vörn í (fram)sókn

Efnahagslegar aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa frá upphafi faraldursins verið markvissar og árangursríkar. Aðgerðirnar hafa verið fjölbreyttar og settar af stað með því markmiði að vernda afkomu fólks og fyrirtækja í landinu.

Hlutabótaleiðin

Sú aðgerð sem hefur kannski vakið mesta athygli er hlutabótaleið Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra. Hlutabótaleiðin er afskaplega vel heppnað úrræði og hefur þjónað tilgangi sínum afar vel. Hlutabótaleiðin virkar þannig að greiddar eru tímabundnar atvinnuleysisbætur í hlutfalli við minnkað starfshlutfall starfsmanna. Hugmyndin að baki þessum aðgerðum er að viðhalda ráðningasambandi í gegnum þetta tímabundna ástand sem skapast hefur vegna Covid.

Hefjum störf

Í síðasta mánuði kynnti Ásmundur Einar til leiks vinnumarkaðsátakið „Hefjum Störf“. Með þessu úrræði á að skapa á 7.000 störf í samvinnu við atvinnulífið, félagasamtök, stofnanir og sveitarfélög. Viðtökurnar í því verkefni hafa verið fram úr björtustu vonum en hátt í 4.000 ný störf hafa nú þegar verið komið á laggirnar.

Viðspyrna framundan

Bólusetningar innanlands eru á fleygiferð og sumarið er komið, nú þurfum við að vera tilbúin að stíga næstu skref og huga að viðspyrnunni. Það er mikilvægt að íslenskt atvinnulíf sé í stakk búið að takast á við þau verkefni sem framundan eru og hafi nægt súrefni til þess að veita öfluga viðspyrnu.

Því er afar jákvætt og jafnvel táknrænt að sjá hlutabóta leiðina renna út og sjá vinnumarkaðsátakið „Hefjum Störf“ taka við. Eitt mikilvægasta verkefnið er að koma þeim sem hafa verið á hlutabótum aftur í virkni. Með þessu úrræði geta aðilar snúi aftur til fyrri starfa í fullu ráðningasambandi og fá fyrirtækin stuðning til þess í 4 mánuði. Þetta er rökrétt og skynsamlegt skref. Með þessu fá fyrirtæki í landinu stuðning til að starfa aftur á fullu afli þar til hjól atvinnulífsins verða farin að rúlla á eðlilegum hraða í haust.

Þetta er tímapunkturinn sem við snúum vörn í sókn. Það er bjart framundan og með kraftmikilli viðspyrnu munum við ná að grípa þau tækifæri sem framundan eru.

Klárum leikinn!

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 3. maí 2021.

Categories
Greinar

Ekki tjáir að deila við dómarann

Deila grein

19/04/2021

Ekki tjáir að deila við dómarann

Dómstólar eru ein af grunnstoðum réttarríkisins. Hlutverk þeirra er að skera úr um rétt og skyldu manna að lögum. Þegar kemur að skipun dómara þá er eðli málsins samkvæmt vandað til vinnubragða og miklar kröfur eru gerðar til þeirra sem fara með dómsvald. Þrátt fyrir að túlka megi stjórnarskrána svo að eingöngu embættisdómarar megi annast dómsýslu, þá er það ekki svo þegar nánar er skoðað. Aðstoðarmenn dómara fara með dómsvald. Fræðimenn hafa verið sammála um að aðrir en embættisdómarar geti farið með dómsvald í vissum tilvikum. Þessa heimild hlýtur þó að þurfa að túlka þröngt enda er hér um að ræða undantekningu frá meginreglu.

Samræming milli héraðsdóma

Árið 2012 fengu aðstoðarmenn dómara víðtækara hlutverk. Þeir hafa nú heimild til þess að annast þinghöld í einkamálum og sakamálum að vissum skilyrðum uppfylltum. Vissulega hafa aðstoðarmenn dómara verið svar við auknu álagi á dómstóla, en það má þó ekki verða á kostnað sjálfstæðis dómsvaldsins. Undirrituð sendi dómsmálaráðherra fyrirspurn í vetur um aðstoðarmenn dómara. Þau svör sem mér bárust gáfu efni til þess að leggja fram þingsályktunartillögu þar sem dómsmálaráðherra falið að undirbúa frumvarp til laga til þess að skýra frekar á um hlutverk aðstoðarmanna dómara. Markmiðið með lagasetningunni yrði m.a. að samræma skylduþjálfun, kveða á um hagsmunaskráningu og samræma hlutverk aðstoðarmanna milli héraðsdóma. En eins og staðan er í dag er þetta ekki nægilega skýrt.

Þyngri dómar og hlutverk aðstoðarmanna

Í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn minni kom einnig fram að ekki væri til skráning á því hve marga dóma aðstoðarmenn dómara hafa kveðið upp þar sem refsing er þyngri en eins árs óskilorðsbundið fangelsi. Því legg ég einnig fram í þingsályktunartillögunni að dómsmálaráðherra verði falið að tryggja skráningu og utanumhald dóma sem aðstoðarmenn dómara kveða upp og hafa kveðið upp í sakamálum þar sem refsing er þyngri en eins árs óskilorðsbundið fangelsi. Síðast en ekki síst þarf að gæta þess að að fyrirkomulag um aðstoðarmenn dómara sé í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar íslenska ríkisins, sérstaklega mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Tilgangurinn með þessari þingsályktunartillögu er að stuðlað að auknu trausti á vinnu aðstoðarmanna dómara. Þeir gegna mikilvægu hlutverki en skýra verður betur hlutverk þeirra og tilgang.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 19. apríl 2021.

Categories
Greinar

Varða á veginum

Deila grein

30/03/2021

Varða á veginum

Gott menntakerfi er grundvöllur þess að samfélag geti þróast í takt við áskoranir hvers tíma og að atvinnulífið standist alþjóðlegt samkeppnisumhverfi. Alþingi samþykkti nýlega í fyrsta sinn menntastefnu frá menntamálaráðherra, tekur hún fyrir tímabilið 2020-2030. Umsagnaraðilar voru einróma um að gott væri að stefnan væri komin fram.

Við gerð innleiðingaráætlunar er mikilvægt að horfa til allra fimm stoða menntakerfisins, þ.e. leik-, grunn- og framhaldsskóla og sí- og endurmenntunar. Menntakerfið verður að vera til þess gert að hægt sé að tryggja að vinnandi fólk geti aukið hæfni sína til að fylgja ákalli atvinnulífsins um þekkingu og hæfni starfsfólks. Menntun kostar peninga og því er það þjóðhagslega verðmætt að menntunin skili sér til uppbyggingar samfélagsins. Við þurfum að vera markvissari á þessu sviði og kortleggja menntunarog færniþörf til að bæta samspil menntakerfis og vinnumarkaðar. Nauðsynlegt er að fyrir liggi góð þekking, greining eða mat á starfstækifærum í einstökum fögum, greinum og starfssviðum til nokkurra ára og munu færnispár nýtast í öllu skóla- og fræðslustarfi.

Tækifæri til náms eiga að vera þau sömu alls staðar á landinu og fyrir alla hópa þjóðfélagsins. Tæknin gerir okkur kleift að mæta ólíkum þörfum fólks. Hún getur nýst til að skapa aukin tækifæri til menntunar á landsbyggðinni, aukið aðgengi fatlaðs fólks og þeirra sem þurfa óhefðbundnari nálgun í námi. Við eigum að sjálfsögðu að efla nám án staðsetningar og með aukinni stafrænni námsgagnaútgáfu á öllum skólastigum verður auðveldara að uppfæra námsgögnin í takt við tímann.

Aðsókn hefur aukist í kennaranám en á sama tíma er ekki næg endurnýjun í stéttinni. Fyrir því eru margar ástæður. Ein þeirra er starfsumhverfi kennara, sem er oft krefjandi. Létta mætti álagi af kennurum og bæta þjónustu við nemendur með því að styrkja stöðu annarra fagstétta í skólum eins og félagsráðgjafa, sálfræðinga, iðjuþjálfa o.s.frv. Síðast en ekki síst þarf að sjá til þess að þroskapróf verði endurskoðuð og uppfærð í takt við tímann. Nú er staðan sú að engin stofnun ber ábyrgð á útgáfu þroskaprófanna sem eiga að meta hvort og hvaða stuðning börn þurfa að fá.

Menntastefnan er fyrsta skrefið á langri vegferð. Góðar innleiðingaráætlanir, samráð, styrk verkstjórn og fjármögnun verkefna er það sem mun skila okkur alla leið.

Áfram veginn!

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 30. mars 2021.

Categories
Greinar

Hann Tóti tölvukall

Deila grein

05/03/2021

Hann Tóti tölvukall

Að vera snjall í tölvuspili er kannski ekki nóg í dag til að halda í við stafræna þróun allt og um kring, en kannski ákveðinn kostur eins og þegar ofangreint fyrrum topplag kom út með Ladda 1985. Notkun veraldarvefsins og stafrænnar tækni fjórðu iðnbyltingarinnar breytir heiminum. Hún hefur víðtæk áhrif á hagkerfi nútímans og verður samfélögum sífellt mikilvægari.

Samkeppnishæfni Íslands

Stafræn þróun er óumflýjanleg og mannkyninu gagnleg og getur skapað gríðarleg verðmæti. Í slíkri þróun felast í senn mikil tækifæri og hættur og því mikilvægt að undir hana séum við búin. Á það ekki síst við þegar kemur að atvinnulífi, vinnumarkaði og stafrænni hæfni almennings. Íslensk fyrirtæki og almenningur eru ekki nægilega meðvituð og undirbúin undir þær breytingar sem fjórða iðnbyltingin hefur í för með sér. Almenningur gegnir fyrst og fremst hlutverki neytenda stafrænnar tækni. Nauðsynlegt er að bæta tækni- og upplýsingalæsi og efla frumkvæði þegar kemur að nýtingu stafrænnar tækni til framþróunar og sköpunar. Ef svo fer fram sem horfir mun staða okkar draga úr samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs og þjóðarinnar allrar. Skortur á stafrænni hæfni getur hæglega framkallað samfélagslegan ójöfnuð.

Forðumst tvíverknað

Stafræn þróun hefur áhrif um allt samfélagið. Því er nauðsynlegt að tryggja yfirsýn og samræmingu allra aðgerða helstu hagaðila til að nýta megi samlegðaráhrif til fullnustu, tryggja þekkingaryfirfærslu, koma í veg fyrir tvíverknað og tryggja að ekkert gleymist í þessari mikilvægu vinnu. Í dag vantar m.a. mikið upp á að til staðar séu skýr stefna og aðgerðir varðandi stuðning við fyrirtæki í stafrænni umbreytingu, eflingu stafrænnar hæfni á vinnumarkaði og að efling stafrænnar hæfni sé skýrt og markvisst fram sett í menntastefnu og aðgerðum í menntamálum. Hins vegar má sjá allt þetta skýrt sett fram í fjölmörgum stefnum og aðgerðaáætlunum þeirra landa sem við helst berum okkur saman við, svo sem Norðurlandanna og í löndum sem vel hentar að líta til og læra af í þessum málum, svo sem í Hollandi og Írlandi.

Köllum eftir heildstæðri stefnu

Hvetja þarf og styðja stjórnvöld, sveitarfélög, menntakerfið, atvinnulífið og launþega til að grípa til skjótra, öflugra og markvissra aðgerða í þeim tilgangi að efla stafræna þekkingu og færni og auka þannig tækifæri til nýtingar stafrænnar tækni í íslensku atvinnulífi og samfélaginu í heild í því skyni hefur undirrituð, ásamt öðrum þingmönnum Framsóknarflokksins, lagt fram tillögu um að skipaður verði starfshópur sem eig að móta heildstæða stefnu um stafræna þróun með aðgerðaáætlun til fimm ára hið skemmsta. Við verðum að tryggja markvisst samstarf og stefnumótun á sviði stafrænnar þróunar svo tryggja megi áframhaldandi samkeppnishæfni landsins og lífsgæði.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og „takkaóður fjandi“.

Hlekkur á málið á vef Alþingis:

https://www.althingi.is/altext/151/s/0775.html

Categories
Greinar

Sorp er sexý

Deila grein

12/02/2021

Sorp er sexý

Sorpmyndun er óumflýjanlegur raunveruleiki okkar samfélags. Mikið magn sorps fylgir hverri fjölskyldu, en þess má geta að árið 2018 myndaðist um 1.300 þúsund tonn af sorpi. Aðeins 216 þúsund tonn voru urðuð af þessum 1.300 þúsund tonnum. Á sama ári var losun gróðurhúsalofttegunda frá urðun úrgangs, sorpbrennslu og jarðgerð kringum 5% af heildarlosun hér á landi, en um 95% af þeirri losun má rekja til urðunar úrgangs.

Rétt flokkun nauðsynleg

Síðastliðin ár hefur verið ákall í samfélaginu um að minnka losun gróðurhúsategunda, og þá sérstaklega meðal ungs fólks. Enn í dag sér undirrituð unga einstaklinga standa fyrir framan Alþingi á hverjum föstudegi til að ítreka þetta ákall. Þau eiga lof skilið enda berjast þau fyrir framtíð sinni og framtíðarkynslóða. Ein viðurkennd leið til að minnka umfang sorps og losun gróðurhúsaáhrifa frá sorpi er að endurvinna það. Það verður aldrei hægt nema sorpið sé flokkað. Það er okkur nauðsynlegt að endurvinna eins mikið sorp og mögulegt er og með því gæta þess að sorp sé rétt flokkað.

Vitundarvakning

Undirrituð telur að það sé vilji allra landsmanna að flokka sitt sorp á réttan hátt. Mikil vitundarvakning hefur verið á flokkun sorps, t.d. hvernig pokar eru flokkaðir, endurvinnsla raftækja og hvaða hlutir neysluvara fara í hvaða endurvinnslutunnu. Þessi vitundarvakning stigmagnast ár hvert og þá er fólk einnig að reyna á nægjusemi sína til að minnka neyslu þeirra og með því minnka sorpmyndun.

Ákall um samræmdar flokkunarreglur

Á Íslandi ætti lítið sem ekkert að vera til fyrirstöðu fyrir því að endurvinnsla sé til fyrirmyndar um allt land, frá Reykjavík og til hinna dreifðu byggða. Grundvallarskref í þá átt væri að samræma flokkun sorps á Íslandi, þ.e. milli allra sveitarfélaganna. Með þessu aukum við vitundarvakningu á flokkun og endurvinnslu sorps enn frekar ásamt því að koma í veg fyrir fljótfærnisvillur og ranga flokkun í góðri trú. Að flokka sorp á réttan hátt gæti orðið svokallað „vöðvaminni“ (e. muscle memory) hjá okkur öllum og með þessu aukum við mögulega nýtingu þeirra verðmæta sem safnast við rétta flokkun sorps.

Það er mín von að samræming sorpflokkunar verði að veruleika innan næstu ára. Við skuldum okkur og framtíðarkynslóðum okkar það að endurvinnsla sorps sé til fyrirmyndar.

Áfram veginn!

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 12. febrúar 2021.