Categories
Greinar

Snúum (sótt)vörn í (fram)sókn

Deila grein

03/05/2021

Snúum (sótt)vörn í (fram)sókn

Efnahagslegar aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa frá upphafi faraldursins verið markvissar og árangursríkar. Aðgerðirnar hafa verið fjölbreyttar og settar af stað með því markmiði að vernda afkomu fólks og fyrirtækja í landinu.

Hlutabótaleiðin

Sú aðgerð sem hefur kannski vakið mesta athygli er hlutabótaleið Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra. Hlutabótaleiðin er afskaplega vel heppnað úrræði og hefur þjónað tilgangi sínum afar vel. Hlutabótaleiðin virkar þannig að greiddar eru tímabundnar atvinnuleysisbætur í hlutfalli við minnkað starfshlutfall starfsmanna. Hugmyndin að baki þessum aðgerðum er að viðhalda ráðningasambandi í gegnum þetta tímabundna ástand sem skapast hefur vegna Covid.

Hefjum störf

Í síðasta mánuði kynnti Ásmundur Einar til leiks vinnumarkaðsátakið „Hefjum Störf“. Með þessu úrræði á að skapa á 7.000 störf í samvinnu við atvinnulífið, félagasamtök, stofnanir og sveitarfélög. Viðtökurnar í því verkefni hafa verið fram úr björtustu vonum en hátt í 4.000 ný störf hafa nú þegar verið komið á laggirnar.

Viðspyrna framundan

Bólusetningar innanlands eru á fleygiferð og sumarið er komið, nú þurfum við að vera tilbúin að stíga næstu skref og huga að viðspyrnunni. Það er mikilvægt að íslenskt atvinnulíf sé í stakk búið að takast á við þau verkefni sem framundan eru og hafi nægt súrefni til þess að veita öfluga viðspyrnu.

Því er afar jákvætt og jafnvel táknrænt að sjá hlutabóta leiðina renna út og sjá vinnumarkaðsátakið „Hefjum Störf“ taka við. Eitt mikilvægasta verkefnið er að koma þeim sem hafa verið á hlutabótum aftur í virkni. Með þessu úrræði geta aðilar snúi aftur til fyrri starfa í fullu ráðningasambandi og fá fyrirtækin stuðning til þess í 4 mánuði. Þetta er rökrétt og skynsamlegt skref. Með þessu fá fyrirtæki í landinu stuðning til að starfa aftur á fullu afli þar til hjól atvinnulífsins verða farin að rúlla á eðlilegum hraða í haust.

Þetta er tímapunkturinn sem við snúum vörn í sókn. Það er bjart framundan og með kraftmikilli viðspyrnu munum við ná að grípa þau tækifæri sem framundan eru.

Klárum leikinn!

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 3. maí 2021.

Categories
Greinar

Ekki tjáir að deila við dómarann

Deila grein

19/04/2021

Ekki tjáir að deila við dómarann

Dómstólar eru ein af grunnstoðum réttarríkisins. Hlutverk þeirra er að skera úr um rétt og skyldu manna að lögum. Þegar kemur að skipun dómara þá er eðli málsins samkvæmt vandað til vinnubragða og miklar kröfur eru gerðar til þeirra sem fara með dómsvald. Þrátt fyrir að túlka megi stjórnarskrána svo að eingöngu embættisdómarar megi annast dómsýslu, þá er það ekki svo þegar nánar er skoðað. Aðstoðarmenn dómara fara með dómsvald. Fræðimenn hafa verið sammála um að aðrir en embættisdómarar geti farið með dómsvald í vissum tilvikum. Þessa heimild hlýtur þó að þurfa að túlka þröngt enda er hér um að ræða undantekningu frá meginreglu.

Samræming milli héraðsdóma

Árið 2012 fengu aðstoðarmenn dómara víðtækara hlutverk. Þeir hafa nú heimild til þess að annast þinghöld í einkamálum og sakamálum að vissum skilyrðum uppfylltum. Vissulega hafa aðstoðarmenn dómara verið svar við auknu álagi á dómstóla, en það má þó ekki verða á kostnað sjálfstæðis dómsvaldsins. Undirrituð sendi dómsmálaráðherra fyrirspurn í vetur um aðstoðarmenn dómara. Þau svör sem mér bárust gáfu efni til þess að leggja fram þingsályktunartillögu þar sem dómsmálaráðherra falið að undirbúa frumvarp til laga til þess að skýra frekar á um hlutverk aðstoðarmanna dómara. Markmiðið með lagasetningunni yrði m.a. að samræma skylduþjálfun, kveða á um hagsmunaskráningu og samræma hlutverk aðstoðarmanna milli héraðsdóma. En eins og staðan er í dag er þetta ekki nægilega skýrt.

Þyngri dómar og hlutverk aðstoðarmanna

Í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn minni kom einnig fram að ekki væri til skráning á því hve marga dóma aðstoðarmenn dómara hafa kveðið upp þar sem refsing er þyngri en eins árs óskilorðsbundið fangelsi. Því legg ég einnig fram í þingsályktunartillögunni að dómsmálaráðherra verði falið að tryggja skráningu og utanumhald dóma sem aðstoðarmenn dómara kveða upp og hafa kveðið upp í sakamálum þar sem refsing er þyngri en eins árs óskilorðsbundið fangelsi. Síðast en ekki síst þarf að gæta þess að að fyrirkomulag um aðstoðarmenn dómara sé í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar íslenska ríkisins, sérstaklega mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Tilgangurinn með þessari þingsályktunartillögu er að stuðlað að auknu trausti á vinnu aðstoðarmanna dómara. Þeir gegna mikilvægu hlutverki en skýra verður betur hlutverk þeirra og tilgang.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 19. apríl 2021.

Categories
Greinar

Varða á veginum

Deila grein

30/03/2021

Varða á veginum

Gott menntakerfi er grundvöllur þess að samfélag geti þróast í takt við áskoranir hvers tíma og að atvinnulífið standist alþjóðlegt samkeppnisumhverfi. Alþingi samþykkti nýlega í fyrsta sinn menntastefnu frá menntamálaráðherra, tekur hún fyrir tímabilið 2020-2030. Umsagnaraðilar voru einróma um að gott væri að stefnan væri komin fram.

Við gerð innleiðingaráætlunar er mikilvægt að horfa til allra fimm stoða menntakerfisins, þ.e. leik-, grunn- og framhaldsskóla og sí- og endurmenntunar. Menntakerfið verður að vera til þess gert að hægt sé að tryggja að vinnandi fólk geti aukið hæfni sína til að fylgja ákalli atvinnulífsins um þekkingu og hæfni starfsfólks. Menntun kostar peninga og því er það þjóðhagslega verðmætt að menntunin skili sér til uppbyggingar samfélagsins. Við þurfum að vera markvissari á þessu sviði og kortleggja menntunarog færniþörf til að bæta samspil menntakerfis og vinnumarkaðar. Nauðsynlegt er að fyrir liggi góð þekking, greining eða mat á starfstækifærum í einstökum fögum, greinum og starfssviðum til nokkurra ára og munu færnispár nýtast í öllu skóla- og fræðslustarfi.

Tækifæri til náms eiga að vera þau sömu alls staðar á landinu og fyrir alla hópa þjóðfélagsins. Tæknin gerir okkur kleift að mæta ólíkum þörfum fólks. Hún getur nýst til að skapa aukin tækifæri til menntunar á landsbyggðinni, aukið aðgengi fatlaðs fólks og þeirra sem þurfa óhefðbundnari nálgun í námi. Við eigum að sjálfsögðu að efla nám án staðsetningar og með aukinni stafrænni námsgagnaútgáfu á öllum skólastigum verður auðveldara að uppfæra námsgögnin í takt við tímann.

Aðsókn hefur aukist í kennaranám en á sama tíma er ekki næg endurnýjun í stéttinni. Fyrir því eru margar ástæður. Ein þeirra er starfsumhverfi kennara, sem er oft krefjandi. Létta mætti álagi af kennurum og bæta þjónustu við nemendur með því að styrkja stöðu annarra fagstétta í skólum eins og félagsráðgjafa, sálfræðinga, iðjuþjálfa o.s.frv. Síðast en ekki síst þarf að sjá til þess að þroskapróf verði endurskoðuð og uppfærð í takt við tímann. Nú er staðan sú að engin stofnun ber ábyrgð á útgáfu þroskaprófanna sem eiga að meta hvort og hvaða stuðning börn þurfa að fá.

Menntastefnan er fyrsta skrefið á langri vegferð. Góðar innleiðingaráætlanir, samráð, styrk verkstjórn og fjármögnun verkefna er það sem mun skila okkur alla leið.

Áfram veginn!

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 30. mars 2021.

Categories
Greinar

Hann Tóti tölvukall

Deila grein

05/03/2021

Hann Tóti tölvukall

Að vera snjall í tölvuspili er kannski ekki nóg í dag til að halda í við stafræna þróun allt og um kring, en kannski ákveðinn kostur eins og þegar ofangreint fyrrum topplag kom út með Ladda 1985. Notkun veraldarvefsins og stafrænnar tækni fjórðu iðnbyltingarinnar breytir heiminum. Hún hefur víðtæk áhrif á hagkerfi nútímans og verður samfélögum sífellt mikilvægari.

Samkeppnishæfni Íslands

Stafræn þróun er óumflýjanleg og mannkyninu gagnleg og getur skapað gríðarleg verðmæti. Í slíkri þróun felast í senn mikil tækifæri og hættur og því mikilvægt að undir hana séum við búin. Á það ekki síst við þegar kemur að atvinnulífi, vinnumarkaði og stafrænni hæfni almennings. Íslensk fyrirtæki og almenningur eru ekki nægilega meðvituð og undirbúin undir þær breytingar sem fjórða iðnbyltingin hefur í för með sér. Almenningur gegnir fyrst og fremst hlutverki neytenda stafrænnar tækni. Nauðsynlegt er að bæta tækni- og upplýsingalæsi og efla frumkvæði þegar kemur að nýtingu stafrænnar tækni til framþróunar og sköpunar. Ef svo fer fram sem horfir mun staða okkar draga úr samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs og þjóðarinnar allrar. Skortur á stafrænni hæfni getur hæglega framkallað samfélagslegan ójöfnuð.

Forðumst tvíverknað

Stafræn þróun hefur áhrif um allt samfélagið. Því er nauðsynlegt að tryggja yfirsýn og samræmingu allra aðgerða helstu hagaðila til að nýta megi samlegðaráhrif til fullnustu, tryggja þekkingaryfirfærslu, koma í veg fyrir tvíverknað og tryggja að ekkert gleymist í þessari mikilvægu vinnu. Í dag vantar m.a. mikið upp á að til staðar séu skýr stefna og aðgerðir varðandi stuðning við fyrirtæki í stafrænni umbreytingu, eflingu stafrænnar hæfni á vinnumarkaði og að efling stafrænnar hæfni sé skýrt og markvisst fram sett í menntastefnu og aðgerðum í menntamálum. Hins vegar má sjá allt þetta skýrt sett fram í fjölmörgum stefnum og aðgerðaáætlunum þeirra landa sem við helst berum okkur saman við, svo sem Norðurlandanna og í löndum sem vel hentar að líta til og læra af í þessum málum, svo sem í Hollandi og Írlandi.

Köllum eftir heildstæðri stefnu

Hvetja þarf og styðja stjórnvöld, sveitarfélög, menntakerfið, atvinnulífið og launþega til að grípa til skjótra, öflugra og markvissra aðgerða í þeim tilgangi að efla stafræna þekkingu og færni og auka þannig tækifæri til nýtingar stafrænnar tækni í íslensku atvinnulífi og samfélaginu í heild í því skyni hefur undirrituð, ásamt öðrum þingmönnum Framsóknarflokksins, lagt fram tillögu um að skipaður verði starfshópur sem eig að móta heildstæða stefnu um stafræna þróun með aðgerðaáætlun til fimm ára hið skemmsta. Við verðum að tryggja markvisst samstarf og stefnumótun á sviði stafrænnar þróunar svo tryggja megi áframhaldandi samkeppnishæfni landsins og lífsgæði.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og „takkaóður fjandi“.

Hlekkur á málið á vef Alþingis:

https://www.althingi.is/altext/151/s/0775.html

Categories
Greinar

Sorp er sexý

Deila grein

12/02/2021

Sorp er sexý

Sorpmyndun er óumflýjanlegur raunveruleiki okkar samfélags. Mikið magn sorps fylgir hverri fjölskyldu, en þess má geta að árið 2018 myndaðist um 1.300 þúsund tonn af sorpi. Aðeins 216 þúsund tonn voru urðuð af þessum 1.300 þúsund tonnum. Á sama ári var losun gróðurhúsalofttegunda frá urðun úrgangs, sorpbrennslu og jarðgerð kringum 5% af heildarlosun hér á landi, en um 95% af þeirri losun má rekja til urðunar úrgangs.

Rétt flokkun nauðsynleg

Síðastliðin ár hefur verið ákall í samfélaginu um að minnka losun gróðurhúsategunda, og þá sérstaklega meðal ungs fólks. Enn í dag sér undirrituð unga einstaklinga standa fyrir framan Alþingi á hverjum föstudegi til að ítreka þetta ákall. Þau eiga lof skilið enda berjast þau fyrir framtíð sinni og framtíðarkynslóða. Ein viðurkennd leið til að minnka umfang sorps og losun gróðurhúsaáhrifa frá sorpi er að endurvinna það. Það verður aldrei hægt nema sorpið sé flokkað. Það er okkur nauðsynlegt að endurvinna eins mikið sorp og mögulegt er og með því gæta þess að sorp sé rétt flokkað.

Vitundarvakning

Undirrituð telur að það sé vilji allra landsmanna að flokka sitt sorp á réttan hátt. Mikil vitundarvakning hefur verið á flokkun sorps, t.d. hvernig pokar eru flokkaðir, endurvinnsla raftækja og hvaða hlutir neysluvara fara í hvaða endurvinnslutunnu. Þessi vitundarvakning stigmagnast ár hvert og þá er fólk einnig að reyna á nægjusemi sína til að minnka neyslu þeirra og með því minnka sorpmyndun.

Ákall um samræmdar flokkunarreglur

Á Íslandi ætti lítið sem ekkert að vera til fyrirstöðu fyrir því að endurvinnsla sé til fyrirmyndar um allt land, frá Reykjavík og til hinna dreifðu byggða. Grundvallarskref í þá átt væri að samræma flokkun sorps á Íslandi, þ.e. milli allra sveitarfélaganna. Með þessu aukum við vitundarvakningu á flokkun og endurvinnslu sorps enn frekar ásamt því að koma í veg fyrir fljótfærnisvillur og ranga flokkun í góðri trú. Að flokka sorp á réttan hátt gæti orðið svokallað „vöðvaminni“ (e. muscle memory) hjá okkur öllum og með þessu aukum við mögulega nýtingu þeirra verðmæta sem safnast við rétta flokkun sorps.

Það er mín von að samræming sorpflokkunar verði að veruleika innan næstu ára. Við skuldum okkur og framtíðarkynslóðum okkar það að endurvinnsla sorps sé til fyrirmyndar.

Áfram veginn!

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 12. febrúar 2021.

Categories
Greinar

Reykjanesið er svæði tækifæranna

Deila grein

12/02/2021

Reykjanesið er svæði tækifæranna

Íslendingar hafa tækifæri til að byggja upp nýjan grænan iðnað á sviði þörungavinnslu. Hér landi eru kjöraðstæður á heimsvísu, hreinn sjór og stór hafsvæði. Fjárfestar eru áhugasamir en lagaumgjörðin og regluverkið er enn ekki nógu gott. Alþingi þarf að skapa trausta umgjörð um þennan iðnað og skapa skýra stefnu. Fyrir Alþingi liggur þingsályktunartillaga þess efnis frá þingflokki Framsóknarflokksins.

Vaxandi markaður

Heimsmarkaður fyrir þörunga er stór og fer vaxandi. Samkvæmt skýrslu Report Linker um heimsmarkað fyrir þörunga frá júlí 2020 er áætluð velta árið 2020 fyrir þörungaprótein 912,8 millj. dala og því spáð að hann vaxi í 1,3 milljarða dala árið 2027. Þá kemur einnig fram í skýrslunni að það sé vaxandi eftirspurn eftir matvæla- og drykkjarafurðum sem byggðar eru á þörungum. Efni úr þeim  má finna í mörgum matvælategundum, snyrtivörum og iðnaðarvörum eins og málningu, dekkjum o.fl. Á Ásbrú er t.a.m. starfandi öflugt og vaxandi fyrirtæki, Algalíf, sem ræktar smáþörunga. Úr þeim er unnið verðmætt efni, astaxanthin, sem notað er í eftirsótt fæðubótarefni. Vöxtur í þörungaframleiðslu í heiminum er áætlaður um 7,4% á ári til ársins 2024 og að veltan verði um 1,1 milljarður Bandaríkjadala árið 2024 samkvæmt greiningu Sjávarklasans frá nóvember 2019. Í þessari grein liggja mýmörg áhugaverð tækifæri fyrir íslenskt athafnalíf.

Súrefnisframleiðendur og stútfullir of næringarefnum

Þegar rætt er um þörunga þá er ekki bara átt við smáþörunga, eins og Algalíf ræktar, heldur einnig þang og þara sem vex villt allt í kringum landið okkar fagra. Yfirheiti þessara merkilegu lífvera, þ.e. þangs, þara og smáþörunga, eru þörungar. Þörungar eru ekki bara næringarrík fæða fyrir skepnur og mannfólk heldur framleiða þeir líka stóran hluta súrefnis jarðar, allavega helming alls súrefnis og sumir vísindamenn segja um 90%. Þörungar hreinsa sjóinn og þá má einnig nýta sem áburð. Sumar smáþörungategundir eru olíuríkar og úr þeim er hægt að framleiða lífeldsneyti sem endurnýtir koltvísýring úr loftinu. Það er því ljóst að sjálfbær öflun þörunga og aukin nýting þeirra getur hjálpað til við að minnka álag á önnur vistkerfi jarðarinnar, draga úr áhrifum loftslagsbreytinga og hafa jákvæð áhrif á vistkerfi hafsins. Við Reykjanesið eru kjöraðstæður fyrir öflun og verkun þangs og þara. Hér eru miklar fjörur, hreinn sjór og mikið pláss. Hér eru svo sannarlega tækifæri fyrir duglegt fólk en löggjafinn þarf að bæta umgjörðina svo að áhugasamir hafi sterkan grunn til að byggja á, ef þeir hyggjast fara út í fjárfestingar á þessu sviði.

Hvernig getum við bætt umgjörðina?

Greinarhöfundur hefur lagt fram þingsályktunartillögu ásamt þingflokki Framsóknar um að umhverfis- og auðlindaráðherra í samvinnu við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra geri aðgerðaáætlun um þörungaræktun sem liggi fyrir eigi síðar en 1. mars 2021. Einnig er kveðið á um að ráðherra leggi fram tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda hvað varðar þörungarækt eigi síðar en 1. maí 2021. Flutningsmenn telja að sá tímarammi ætti að vera nægilegur enda unnt að líta til fordæma nágrannaþjóða okkar, eins og Færeyja og Noregs, þar sem reynsla er þegar komin á framkvæmd sambærilegra lagaákvæða.

Með því að fjárfesta í menntun, rannsóknum og frumkvöðlafyrirtækjum á þessu sviði getur Ísland skapað sér sess á meðal forystuþjóða í fullnýtingu þangs og þara og ræktunar smáþörunga.

Áfram veginn!

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Hlekkur á tillöguna: althingi.is/altext/151/s/0049.html

Categories
Greinar

„Það er hægt að öðlast frelsi án vopnaðrar baráttu“

Deila grein

30/12/2020

„Það er hægt að öðlast frelsi án vopnaðrar baráttu“

Páll Pétursson, fyrrverandi ráðherra og þingmaður, lést 23. nóvember síðastliðinn á Landspítalanum. Páll var í tvígang forseti Norðurlandaráðs, í seinna skiptið árið 1990 þegar starfsemi Norðurlandaráðs markaðist mjög af sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltslandanna. Páll vildi fara hægt í sakirnar í sjálfstæðisbaráttu ríkjanna, enda um flókið mál að ræða, en segja má að Páll hafi sett spor því afskipti Norðurlandaráðs af málefnum Eystrasaltslandanna mörkuðu nýtt upphaf í starfi ráðsins.

Miklar umræður urðu í forsætisnefnd ráðsins og á Norðurlandaráðsþingi sem fram fór í Reykjavík snemma árs 1990 um það hvernig Norðurlandaráð gæti best sýnt Lettum, Litháum og Eistlendingum stuðning. Sumir vildu fara varlega í sakirnar til að styggja ekki um of sovésk yfirvöld og þar með knýja fram harkaleg viðbrögð sem gætu komið niður á Eystrasaltslöndunum. Aðrir voru mun róttækari, vildu bjóða Sovétmönnum byrginn og sýna Eistlandi, Lettlandi og Litháen samstöðu og stuðning með skýrum hætti. Þannig lagði einn þingmaður danska Framfaraflokksins til árið 1989 að þeim yrði strax boðin aðild að Norðurlandaráði.

Rætt um umhverfis-, efnahags-, og menningarmál

Í október 1990 fór sendinefnd Norðurlandaráðs undir forystu Páls, þáverandi forseta ráðsins, til Moskvu og síðan til höfuðborga Eystrasaltslandanna. Þetta var tæpu ári áður en yfirvöld í Sovétríkjunum viðurkenndu sjálfstæði ríkjanna. Ferðin vakti mikla athygli og fjölmennur hópur norrænna blaðamanna fylgdi þingmönnunum. Markmið hennar var að kanna hvernig haga mætti samstarfi Norðurlanda við Sovétríkin og Eystrasaltslöndin. Niðurstaðan var sú að heppilegast væri að koma á samvinnu á sviði umhverfis-, lýðheilsu-, mennta- og fjarskiptamála. Jafnframt var rætt um að fræða Eystrasaltslöndin um störf og hlutverk þinga í lýðræðisríkjum, en af skiljanlegum ástæðum skorti nokkuð upp á þekkingu þeirra á þessu sviði. Sendinefndin fundaði með nýjum leiðtogum Eistlands, Lettlands og Litháen. „Okkar erindi var fyrst og fremst að ræða umhverfismál, efnahags- og menningarmál og koma á sambandi,“ sagði Páll í viðtali við Tímann eftir heimsóknina. „Við gátum ekki bannað þeim að tala um pólitík eða um viðhorf sitt til hennar, sem þeir gerðu óspart.”

Ræðan um sjálfstæðisbaráttuna vakti lukku

Henrik Hagemann, þáverandi ritari dönsku landsdeildarinnar, fylgdi sendinefnd Norðurlandaráðs á ferðalaginu og skrifaði löngu síðar um hana í bókinni „Norden sett inifrån”. Þar segir meðal annars frá því þegar þingmennirnir voru í kvöldverði í Ríga í boði máttarstólpa kommúnistaflokksins á staðnum. Páll þurfti að flytja þakkarræðu fyrir hönd sendinefndarinnar. „Han var en stor rund bondemand fra Nordisland, og bensindigheden selv,“ sagði Hagemann um forseta Norðurlandaráðs, „men den dag var han godt nervøs.“ Páll þurfti að koma á framfæri jákvæðum skilaboðum um sjálfstæðisbaráttu landanna en jafnframt þurfti hann að forðast að móðga menn og valda ágreiningi. Hagemann bauðst til að skrifa fyrir hann ræðupunkta en Páll hafnaði því. Hann endaði á því að halda ræðu um sjálfstæðisbaráttu Íslendinga gegn Dönum. Þetta vakti í fyrstu nokkra furðu hjá gestgjöfunum og eflaust líka norrænu þingmönnunum, en brátt áttuðu menn sig á skilaboðunum: Það er hægt að öðlast frelsi án vopnaðrar baráttu og þeir sem takast á geta síðar náð sáttum og orðið góðir vinir. Ræðan vakti lukku.

Vandrötuð slóð

Af fréttum og greinum í blöðum frá þessum tíma má ráða að Páll vildi fara hægt í sakirnar: „Sjálfstæðisbarátta Eystrasaltsríkjanna, sem ég hef persónulega afar mikla samúð með, gerist ekki á augabragði, það hlýtur að þurfa að vera þróun og samningsatriði, en hér er um flókið mál að ræða. Á hinn bóginn hlýtur maður líka að hafa samúð með Gorbatsjov og hans mönnum, sem telja það sitt hlutverk að halda ríkinu saman, því ef ríkið leysist um þá getur þetta einnig logað allt saman í illdeilum. Það er hægt að hugsa sér það, að ef Gorbatsjov sleppti öllu lausu, þá myndi herinn taka málið í sínar hendur. Ég hef ekki trú á að það yrði undir stjórn kommúnista, það gæti alveg eins orðið einhverjir fasistadólgar eftir suður-amerískri fyrirmynd. Til þess má maður ekki hugsa. Þannig að þetta er vandrötuð slóð,“ sagði Páll í ofangreindu viðtali í Tímanum.

Áhrif Norðurlandaráðs vakti mikla athygli

Fulltrúum Eystrasaltsríkjanna var boðið á Norðurlandaráðsþing 1991 og eftir það hófst náið og traust samstarf Norðurlandaráðs við þingin í þessum löndum og samtök þeirra, Eystrasaltsþingið, sem stofnað var að norrænni fyrirmynd. Afskipti Norðurlandaráðs af málefnum Eystrasaltslandanna mörkuðu á ýmsan hátt nýtt upphaf í starfi Norðurlandaráðs sem lengi vel hafði farið mjög varlega í að skipta sér af utanríkismálum. Eftir að Gorbatsjov tók við völdum í Sovétríkjunum árið 1985 og spenna í samskiptum austurs og vesturs minnkaði var orðið auðveldara fyrir Norðurlönd og Norðurlandaráð að beita sér í sameiningu, ekki síst var staða Finnlands orðin mun frjálsari en áður. Líklega má segja að áhrif Norðurlandaráðs á alþjóðavettvangi hafi aldrei orðið meiri en einmitt á þessum árum í samskiptunum við Eystrasaltslöndin og Sovétríkin og ummæli og athafnir þingmannanna vöktu mikla athygli.

Ýmis af þeim úrlausnarefnum sem Norðurlandaráð og Norðurlönd stóðu frammi fyrir í tengslum við sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsríkjanna eiga sér eflaust hliðstæður í þeirri stöðu sem löndin eru nú í gagnvart Hvíta-Rússlandi.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður og forseti Norðurlandaráðs.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu í desember 2020.

Categories
Uncategorized

„Það er hægt að öðlast frelsi án vopnaðrar baráttu“

Deila grein

21/12/2020

„Það er hægt að öðlast frelsi án vopnaðrar baráttu“

Páll Pét­urs­son, fyrr­ver­andi ráðherra og þingmaður, lést 23. nóv­em­ber síðastliðinn á Land­spít­al­an­um. Páll var í tvígang for­seti Norður­landaráðs, í seinna skiptið árið 1990 þegar starf­semi Norður­landaráðs markaðist mjög af sjálf­stæðis­bar­áttu Eystra­saltsland­anna. Páll vildi fara hægt í sak­irn­ar í sjálf­stæðis­bar­áttu ríkj­anna, enda um flókið mál að ræða, en segja má að Páll hafi sett spor. Af­skipti Norður­landaráðs af mál­efn­um Eystra­saltsland­anna mörkuðu nýtt upp­haf í starfi ráðsins.

Mikl­ar umræður urðu í for­sæt­is­nefnd ráðsins og á Norður­landaráðsþingi sem fram fór í Reykja­vík snemma árs 1990 um það hvernig Norður­landaráð gæti best sýnt Lett­um, Lit­há­um og Eist­lend­ing­um stuðning. Sum­ir vildu fara var­lega í sak­irn­ar til að styggja ekki um of sov­ésk yf­ir­völd og þar með knýja fram harka­leg viðbrögð sem gætu komið niður á Eystra­saltslönd­un­um. Aðrir voru mun rót­tæk­ari, vildu bjóða Sov­ét­mönn­um birg­inn og sýna Eistlandi, Lett­landi og Lit­há­en sam­stöðu og stuðning með skýr­um hætti. Þannig lagði einn þingmaður danska Fram­fara­flokks­ins til árið 1989 að þeim yrði strax boðin aðild að Norður­landaráði.

Rætt um um­hverf­is-, efna­hags- og menn­ing­ar­mál

Í októ­ber 1990 fór sendi­nefnd Norður­landaráðs und­ir for­ystu Páls, þáver­andi for­seta ráðsins, til Moskvu og síðan til höfuðborga Eystra­saltsland­anna. Þetta var tæpu ári áður en yf­ir­völd í Sov­ét­ríkj­un­um viður­kenndu sjálf­stæði ríkj­anna. Ferðin vakti mikla at­hygli og fjöl­menn­ur hóp­ur nor­rænna blaðamanna fylgdi þing­mönn­un­um. Mark­mið henn­ar var að kanna hvernig haga mætti sam­starfi Norður­landa við Sov­ét­rík­in og Eystra­saltslönd­in. Niðurstaðan var sú að heppi­leg­ast væri að koma á sam­vinnu á sviði um­hverf­is-, lýðheilsu-, mennta- og fjar­skipta­mála. Jafn­framt var rætt um að fræða Eystra­saltslönd­in um störf og hlut­verk þinga í lýðræðis­ríkj­um, en af skilj­an­leg­um ástæðum skorti nokkuð upp á þekk­ingu þeirra á þessu sviði. Sendi­nefnd­in fundaði með nýj­um leiðtog­um Eist­lands, Lett­lands og Lit­há­en. „Okk­ar er­indi var fyrst og fremst að ræða um­hverf­is­mál, efna­hags- og menn­ing­ar­mál og koma á sam­bandi,“ sagði Páll í viðtali við Tím­ann eft­ir heim­sókn­ina. „Við gát­um ekki bannað þeim að tala um póli­tík eða um viðhorf sitt til henn­ar, sem þeir gerðu óspart.“

Ræðan um sjálf­stæðis­bar­átt­una vakti lukku

Henrik Hagemann, þáver­andi rit­ari dönsku lands­deild­ar­inn­ar, fylgdi sendi­nefnd Norður­landaráðs á ferðalag­inu og skrifaði löngu síðar um hana í bók­inni „Nor­d­en sett ini­från“. Þar seg­ir meðal ann­ars frá því þegar þing­menn­irn­ir voru í kvöld­verði í Ríga í boði mátt­ar­stólpa komm­ún­ista­flokks­ins á staðnum. Páll þurfti að flytja þakk­arræðu fyr­ir hönd sendi­nefnd­ar­inn­ar. „Han var en stor rund bondemand fra Nord­is­land, og bens­indig­heden selv,“ sagði Hagemann um for­seta Norður­landaráðs, „men den dag var han godt nervøs.“ Páll þurfti að koma á fram­færi já­kvæðum skila­boðum um sjálf­stæðis­bar­áttu land­anna en jafn­framt þurfti hann að forðast að móðga menn og valda ágrein­ingi. Hagemann bauðst til að skrifa fyr­ir hann ræðupunkta en Páll hafnaði því. Hann endaði á því að halda ræðu um sjálf­stæðis­bar­áttu Íslend­inga gegn Dön­um. Þetta vakti í fyrstu nokkra furðu hjá gest­gjöf­un­um og ef­laust líka nor­rænu þing­mönn­un­um, en brátt áttuðu menn sig á skila­boðunum: Það er hægt að öðlast frelsi án vopnaðrar bar­áttu og þeir sem tak­ast á geta síðar náð sátt­um og orðið góðir vin­ir. Ræðan vakti lukku.

Vandrötuð slóð

Af frétt­um og grein­um í blöðum frá þess­um tíma má ráða að Páll vildi fara hægt í sak­irn­ar: „Sjálf­stæðis­bar­átta Eystra­salts­ríkj­anna, sem ég hef per­sónu­lega afar mikla samúð með, ger­ist ekki á auga­bragði, það hlýt­ur að þurfa að vera þróun og samn­ings­atriði, en hér er um flókið mál að ræða. Á hinn bóg­inn hlýt­ur maður líka að hafa samúð með Gor­bat­sjov og hans mönn­um, sem telja það sitt hlut­verk að halda rík­inu sam­an, því ef ríkið leys­ist upp þá get­ur þetta einnig logað allt sam­an í ill­deil­um. Það er hægt að hugsa sér það, að ef Gor­bat­sjov sleppti öllu lausu, þá myndi her­inn taka málið í sín­ar hend­ur. Ég hef ekki trú á að það yrði und­ir stjórn komm­ún­ista, það gæti al­veg eins orðið ein­hverj­ir fas­ista­dólg­ar eft­ir suður­am­er­ískri fyr­ir­mynd. Til þess má maður ekki hugsa. Þannig að þetta er vandrötuð slóð,“ sagði Páll í of­an­greindu viðtali í Tím­an­um.

Áhrif Norður­landaráðs vöktu mikla at­hygli

Full­trú­um Eystra­salts­ríkj­anna var boðið á Norður­landaráðsþing 1991 og eft­ir það hófst náið og traust sam­starf Norður­landaráðs við þing­in í þess­um lönd­um og sam­tök þeirra, Eystra­saltsþingið, sem stofnað var að nor­rænni fyr­ir­mynd. Af­skipti Norður­landaráðs af mál­efn­um Eystra­saltsland­anna mörkuðu á ýms­an hátt nýtt upp­haf í starfi Norður­landaráðs sem lengi vel hafði farið mjög var­lega í að skipta sér af ut­an­rík­is­mál­um. Eft­ir að Gor­bat­sjov tók við völd­um í Sov­ét­ríkj­un­um árið 1985 og spenna í sam­skipt­um aust­urs og vest­urs minnkaði var orðið auðveld­ara fyr­ir Norður­lönd og Norður­landaráð að beita sér í sam­ein­ingu, ekki síst var staða Finn­lands orðin mun frjáls­ari en áður. Lík­lega má segja að áhrif Norður­landaráðs á alþjóðavett­vangi hafi aldrei orðið meiri en ein­mitt á þess­um árum í sam­skipt­un­um við Eystra­saltslönd­in og Sov­ét­rík­in og um­mæli og at­hafn­ir þing­mann­anna vöktu mikla at­hygli.

Ýmis af þeim úr­lausn­ar­efn­um sem Norður­landaráð og Norður­lönd stóðu frammi fyr­ir í tengsl­um við sjálf­stæðis­bar­áttu Eystra­salts­ríkj­anna eiga sér ef­laust hliðstæður í þeirri stöðu sem lönd­in eru nú í gagn­vart Hvíta-Rússlandi.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður og for­seti Norður­landaráðs.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. desember 2020.

Categories
Greinar

Framsækin frumvörp í boði Framsóknar

Deila grein

27/11/2020

Framsækin frumvörp í boði Framsóknar

Framsóknarflokkurinn hefur verið í fararbroddi á vettvangi jafnréttismála og fjölskyldumála um áratugaskeið. Páll Pétursson var félagsmálaráðherra og þingmaður Framsóknarflokksins þegar gerð var veigamikil breyting á lögum um fæðingarorlof árið 2000. Ísland var þá fyrsta landið í heiminu til að lögbinda rétt beggja foreldra til töku fæðingarorlofs.

Viðamikil endurskoðun

Núverandi félags- og barnamálaráðherra, og þingmaður Framsóknarflokksins, Ásmundur Einar Daðason hefur nú lagt fram frumvarp um breytingar á lögum um fæðingar- og foreldraorlof. Ráðherra skipaði nefnd í ágúst 2019 sem hafði það hlutverk að endurskoða lögin frá árinu 2000 í heild sinni. Alls er gert ráð fyrir að 19,1 milljarði króna verði varið í fæðingarorlof á árinu 2021 sem er tæplega tvöföldun á þeim fjármunum sem fóru til málaflokksins árið 2017, á verðlagi hvors árs.

12 mánuðir

Helstu breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu er lenging fæðingarorlofs í 12 mánuði vegna barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur frá og með 1. janúar 2021. Sjálfstæður réttur hvors foreldris um sig verður sex mánuðir en foreldrum verður heimilt að framselja einn mánuð sín á milli, og því getur annað foreldrið tekið fæðingarorlof í sjö mánuði en hitt í fimm.

Undantekningar frá reglunni

Þá eru lagðar til frekari heimildir til yfirfærslu réttinda á milli foreldra þegar annað foreldri getur ekki af nánar tilgreindum ástæðum nýtt sinn rétt til fæðingarorlofs. Það gæti t.d. átt við þegar börn hafa ekki feðruð og þegar umgengni annars foreldris við barnið er engin eða verulega takmörkuð á grundvelli niðurstöðu lögmælts stjórnvalds eða dómstóla.

Styrkur til þeirra sem búa fjarri fæðingarstað

Þá er lagt til að barnshafandi foreldri verði veittur sérstakur styrkur vegna skerts aðgengis að fæðingarþjónustu. Það þýðir aðí þeim tilvikum þegar barnshafandi foreldri þarf að mati sérfræðilæknis að dvelja fjarri heimili sínu, fyrir áætlaðan fæðingardag, í tengslum við nauðsynlega þjónustu vegna fæðingar barnsins getur það fengið fjárhagsstyrk. Því síðastnefnda fagna ég sérstaklega, en á haustþingi 2017  lagði ég fram frumvarp þess efnis að fæðingarorlof þeirra sem þyrftu að hefja töku fæðingarorlofs snemma vegna búsetu fjarri fæðingarstað, yrði lengd sem næmi þeim tíma sem fólk yrði að dvelja fjarri heimili. Þar með yrði réttur barna til samveru við foreldra fyrstu mánuði lífsins tryggður án tillits til búsetu þeirra.

Mögulegar breytingar í meðferð Alþingis

Alþingi hefur nú fengið málið til efnislegrar meðferðar. Það kann að fara svo að gerðar verði einhverjar breytingar á framlögðu frumvarpi ráðherra, því þingmenn kunna að hafa ólíka sýn á einstaka útfærslur laganna. Stóra myndin er hins vegar alltaf sú, að vegna áherslna Framsóknarflokksins mun fæðingarorlof foreldra og þar með réttur barna til samvista við foreldra sína verða lengdur úr 9 mánuðum, eins og staðan var við upphafi kjörtímabilsins 2017,  og í 12 mánuði frá og með komandi áramótum.

Enn eitt framfaraskrefið hefur verið stigið í boði Framsóknarflokksins. Áfram veginn!

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á vf.is 25. nóvember 2020.

Categories
Greinar

Mikilvægi norræns samstarfs fyrr og nú

Deila grein

27/11/2020

Mikilvægi norræns samstarfs fyrr og nú

Margt hef­ur áunn­ist frá þeim tíma sem Norður­landaráð var stofnað árið 1952 til að bæta sam­vinnu og sam­starf land­anna. Sama ár og Norður­landaráð var stofnað var tekið upp vega­bréfa­frelsi á ferðum inn­an Norður­land­anna og tveim­ur árum síðar gekk sam­eig­in­leg­ur vinnu­markaður Norður­landa í gildi með frjálsri för launa­fólks sem varð und­an­fari innri markaðar Evr­ópu­sam­bands­ins.

Árið 1955 tók Norður­landa­samn­ing­ur­inn um fé­lags­legt ör­yggi gildi. Þá höfðu farið fram viðræður um tolla- og efna­hags­banda­lag milli Norður­land­anna og Evr­ópu­ríkj­anna en í júlí árið 1959 ákváðu stjórn­völd land­anna að taka þau áform af nor­rænni dag­skrá. Tíu dög­um síðar náðu Dan­mörk, Nor­eg­ur og Svíþjóð sam­an um Fríversl­un­ar­sam­tök Evr­ópu (EFTA) en Finn­land gerðist aukaaðili árið 1961. Ekki leið á löngu þar til Dan­ir og Norðmenn sóttu um aðild að EBE, Efna­hags­banda­lagi Evr­ópu. Staðan inn­an EFTA breytt­ist og viðleitni nor­rænna landa til að ger­ast aðilar að EBE ýtti und­ir fast­an sátt­mála um nor­rænt sam­starf. Úr varð að „Nor­ræna stjórn­ar­skrá­in“ var samþykkt í Hels­inki hinn 23. mars árið 1962, svo­nefnd­ur Hels­ing­fors­samn­ing­ur. Þar var því slegið föstu að Norður­landaráð skyldi fá tæki­færi til að tjá sig um mik­ils­verð efni nor­rænn­ar sam­vinnu.

Græn­lend­ing­ar verða aðilar að ráðinu

Árið 1958 var um­fangs­meiru nor­rænu vega­bréfa­sam­bandi komið á sem var und­an­fari Schengen-sam­starfs­ins sem við þekkj­um í dag. Þá varð mun auðveld­ara fyr­ir Norður­landa­búa að ferðast til ná­granna­land­anna. Árið 1962 var nor­ræni lýðheilsu­há­skól­inn vígður í Gauta­borg og fjór­um árum síðar var samn­ing­ur um nor­ræna menn­ing­ar­sjóðinn und­ir­ritaður en sjóðnum var einkum ætlað að styrkja menn­ing­ar­verk­efni með þátt­töku eigi færri en þriggja nor­rænna landa. Í ág­úst árið 1968 var Nor­ræna húsið í Reykja­vík vígt en finnski arki­tekt­inn Al­var Aalto teiknaði það. Tveim­ur árum síðar samþykkti Norður­landaráð að full­trú­ar Álands­eyja og Fær­eyja gætu tekið þátt í störf­um ráðsins í gegn­um lands­deild­ir Dan­merk­ur og Finn­lands. Árið 1984 urðu full­trú­ar Græn­lands einnig aðilar að ráðinu í gegn­um lands­deild danska ríkja­sam­bands­ins.

Hindr­an­ir á landa­mær­um

Það er áhuga­vert að líta til baka rúm 60 ár aft­ur í tím­ann þegar und­an­fara Schengen-sam­starfs­ins var komið á en Norður­landaráð hef­ur ein­mitt á for­mennsku­ár­inu nú í ár bent á að marg­ar nýj­ar hindr­an­ir hafa komið upp á landa­mær­um nor­rænu ríkj­anna í tengsl­um við kór­ónu­veirufar­ald­ur­inn. Þetta hef­ur valdið venju­legu fólki og fyr­ir­tækj­um mikl­um vand­ræðum. Norður­landaráð tel­ur betra að komið sé í veg fyr­ir slík­ar hindr­an­ir og að erfiðleik­ar komi upp með sam­eig­in­leg­um fyr­ir­byggj­andi aðgerðum. Nor­ræna ráðherra­nefnd­in og Norður­landaráð hafa unnið mikið starf á síðustu árum að því að draga úr stjórn­sýslu­hindr­un­um á landa­mær­um ríkj­anna en sér­stakt stjórn­sýslu­hindr­anaráð er að störf­um fyr­ir Nor­rænu ráðherra­nefnd­ina og stjórn­sýslu­hindr­ana­hóp­ur á veg­um Norður­landaráðs.

Áhersla á um­hverf­is­mál

Í lok sjötta ára­tug­ar síðustu ald­ar hófu stjórn­völd ríkj­anna skuld­bind­andi sam­starf með stofn­un Nor­rænu ráðherra­nefnd­ar­inn­ar en á þeim tíma hafði ráðið opnað skrif­stofu í Stokk­hólmi. Stofn­un Nor­ræna fjár­fest­inga­bank­ans gaf til­efni til fyrsta aukaþings Norður­landaráðs sem haldið var í nóv­em­ber árið 1975 en aðal­bækistöðvar hans voru staðsett­ar í Hels­inki í Finn­landi. Í kjöl­far hins al­var­lega kjarn­orku­slyss sem varð í Tsjerno­byl í Norður-Úkraínu árið 1986 hélt Norður­landaráð tvær stór­ar ráðstefn­ur um um­hverf­is­mál þar sem umræðuefn­in voru meng­un and­rúms­lofts­ins ásamt líf­ríki sjáv­ar. Allt frá þess­um tíma hef­ur verið lögð mik­il áhersla á um­hverf­is­mál í nor­rænu sam­starfi.

Múr­inn fell­ur

Árið 1990, áður en Sov­ét­rík­in liðu und­ir lok og Eystra­salts­rík­in end­ur­heimtu sjálf­stæði sitt, höfðu verið tek­in upp sam­skipti við stjórn­mála­fólk í balt­nesku lönd­un­um. Full­trú­ar Eystra­salts­ríkj­anna sóttu þing Norður­landaráðs í Kaup­manna­höfn í lok fe­brú­ar árið 1991 en mánuði áður hafði dregið til tíðinda í Viln­íus og Riga. Þegar lönd­in end­ur­heimtu sjálf­stæði sitt hófst náið sam­starf Norður­landaráðs við ný systra­sam­tök, Eystra­salts­ríkjaráðið. Smám sam­an jókst einnig sam­starf við rúss­neska þing­menn. Árið 1996 flutti skrif­stofa Norður­landaráðs frá Stokk­hólmi til Kaup­manna­hafn­ar und­ir sama þak og skrif­stofa Nor­rænu ráðherra­nefnd­ar­inn­ar. Sam­starfið er enn að þró­ast og Norður­landaráð hef­ur myndað tengsl við þing­menn í ýms­um öðrum lönd­um utan Norður­land­anna. Árið 2007 voru tek­in upp sam­skipti við stjórn­ar­and­stöðu og stjórn­völd í Hvíta-Rússlandi. Grunn­gildi nor­rænna sam­fé­laga eru mann­rétt­indi, lýðræði og rétt­ar­ríkið. Það er mik­il­vægt að Norður­lönd­in haldi þess­um gild­um á lofti, ekki síst nú á tím­um þar sem öfga­hyggja fer vax­andi og sótt er að rétt­ar­rík­inu og lýðræðinu. Norður­lönd­in eiga að taka sér meira pláss í alþjóðasam­fé­lag­inu því þar eig­um við er­indi.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður Framsóknarflokks og forseti Norðurlandsráðs.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. nóvember 2020.