Categories
Greinar

Hamingjan er heima

Deila grein

10/06/2021

Hamingjan er heima

Síðustu mánuðir hafa kennt okkur að mörg störf krefjast ekki stöðugrar viðveru á tilteknum stað. Við sinnum vinnunni hvar sem er í veröldinni. Forsenda þess eru góð og örugg fjarskipti. Stjórnvöld eiga að skapa umhverfi fyrir störf án staðsetningar í samvinnu við sveitarfélög í öllum landbyggðum.

Sveigjanleiki og starfsánægja

Tæknin til þess að sinna störfum án staðsetningar er löngu komin fram. Kórónufaraldurinn kenndi okkur nýja hluti og við aðlögumst nýjum veruleika. Nágrannaþjóðir okkar eru þó margar komnar lengra hvað varðar hlutfall fjarvinnu. Fyrirtæki geta sparað miklar fjárhæðir í fastan rekstrarkostnað. Víða hefur starfsánægja aukist og um leið afköst. Margir kunna að meta sveigjanleikann og tímasparnað vegna ferða. Kolefnisfótsporið minnkar og mögulega dregur úr streitu. Kostir fjarvinnu eru augljósir.

Góðar fréttir

Störf án staðsetningar er markviss aðgerð sem finna má bæði í ríkisstjórnarsáttmálanum og í Byggðaáætlun.  Nýleg niðurstaða vinnuhóps ríkisstjórnarinnar sýnir okkur að það sé raunhæft markmið að 10% allra starfa í ráðuneytum og stofnunum verði auglýst án staðsetningar árið 2024.  100 stofnanir af 122 skiluðu greiningu þar að lútandi. Þar kemur fram að mögulegt er að auglýsa allt að 890 störf án staðsetningar eða 13% stöðugilda þeirra stofnana sem svöruðu.

Samvinnuverkefni

Tryggja þarf aðgengi að húsnæði og aðstöðu til þess að koma upp starfsstöðvum. Góðar fyrirmyndir má t.a.m. finna á Þingeyri og á Flateyri. Byggðastofnun hefur tekið saman upplýsingar um mögulegt húsnæði fyrir störf án staðsetningar. Upplýsingum var safnað saman með aðstoð landshlutasamtaka sveitarfélaga og hafa verið settar fram á sérstöku korti. Kortinu er ætlað að vera lifandi upplýsingagátt fyrir forstöðumenn ráðuneyta og stofnana og alla þá sem hugsa sér að sinna opinberu starfi án staðsetningar. Á kortinu eru nú 83 staðir þar sem hægt er að taka við fólki sem vinnur starf án staðsetningar með rúmlega 100 starfsstöðvar fyrir einstaklinga.

Stjórnvöld, sveitarfélög og einkageirinn þurfa að eiga samtal um hvaða stefnu sé best að taka þannig að tryggja megi öflugar starfsstöðvar um allt land.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 10. júní 2021.