Categories
Greinar

Við­brögð við náttúru­ham­förum

Deila grein

11/06/2021

Við­brögð við náttúru­ham­förum

Áskoranir hafa alla tíð fylgt sambúð við náttúruöflin á Íslandi og þar eru síðustu ár engin undantekning. Náttúruhamfarir hafa valdið umtalsverðu eigna- og rekstrartjóni, en þar nægir að nefna aðventustorminn í desember 2019, snjóflóð á Flateyri og aurflóð á Seyðisfirði. Samkvæmt nýjustu ársskýrslu Náttúruhamfaratryggingar Íslands voru 14 stórtjón á árinu 2020, en frá árinu 1987 hafa slík tjón verið að meðaltali sjö á ári.

Samræmi í tryggingarvernd er nauðsyn

Tjón af völdum náttúruhamfara geta reynst hvort sem er einstaklingum, fyrirtækjum eða annarri starfsemi ofviða og þar með ógnað heilu samfélögunum. Tryggingarvernd vegna náttúruhamfara hefur því verulega þýðingu hér á landi, sem og skilvirk og sanngjörn úrvinnsla í kjölfar hamfara.

Á síðustu árum hefur verið farið í margvíslegar aðgerðir til að verjast náttúruhamförum og koma á samtryggingu vegna slíkra tjóna. Má þar nefna ýmiss konar vöktun náttúruvár, Náttúruhamfaratryggingu Íslands, verkefni Ofanflóðasjóðs og Bjargráðasjóð ásamt þróun verklags stjórnvalda í viðbrögðum og úrvinnslu afleiðinga einstakra atburða. Þá spila tryggingar sem keyptar eru af tryggingarfélögum inn í verndina, bæði lögboðnar tryggingar og valfrjálsar tryggingar.

Þó við séum miklu betur í stakk búin fyrir glímuna við náttúruöflin núna heldur en lengst af í Íslandssögunni þá er ljóst að enn er hægt er að gera betur. Mikilvægar upplýsingar verða til hjá heimamönnum jafnt og stjórnvöldum í kjölfar hvers atburðar. Mikilvægt er að læra af reynslunni til að halda áfram að bæta vinnubrögð. Eftir skriðuföllin á Seyðisfirði hafa komið fram ýmsar áskoranir sem við höfum ekki séð áður, ásamt öðrum sem við höfum margoft heyrt umræður um. Þar má nefna að ítrekað hefur verið bent á ósamræmi í bótum til þeirra sem missa húsnæði sitt í hamförum og þeirra sem þurfa að flytja úr húsnæði vegna hættu á hamförum. Þá er margt óljóst varðandi vernd og tryggingar atvinnulífsins, atvinnutækja og atvinnuhúsnæðis.

Tillaga um úttekt á tryggingarvernd og verklagi

Ég álít að það sé löngu tímabært að gerð verði úttekt á þessum málum og hef því, ásamt öðrum þingmönnum Framsóknar, lagt fram þingsályktunartillögu um úttekt á tryggingarvernd og úrvinnslu tjóna í kjölfar náttúruhamfara. Markmið tillögunnar er að greina hverju sé helst ábótavant í tryggingarvernd og úrvinnslu tjóna og að draga fram leiðir til úrbóta. Þar þarf að meta samræmi í viðbrögðum, hvort einhvers staðar séu göt í kerfinu, hvað hefur ekki fengist bætt og hvers vegna ekki, og á hverja kostnaður vegna hreinsunaraðgerða og annarra verkefna í kjölfar hamfara fellur.

Þá er lagt til að í úttektinni verði metið hvernig hægt sé að auka skilvirkni, jafnræði og sanngirni í viðbrögðum vegna náttúruhamfara til framtíðar, svo sem með breytingum á lögum, reglugerðum eða verklagsreglum. Þá væri þarft að bæta upplýsingagjöf og fræðslu til einstaklinga og fyrirtækja sem búa við náttúruvá eða hafa lent í hamförum. Úttekt sem þessi er löngu orðin tímabær. Það er margt hægt að læra af liðnum atburðum og mikilvægt er að nýta reynsluna til frekari framfara.

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknar og frambjóðandi flokksins í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 11. júní 2021.