Categories
Greinar

Okkar ástkæra og ylhýra

Deila grein

18/06/2021

Okkar ástkæra og ylhýra

Í gær fögnuðu Íslend­ing­ar þjóðhátíðar­deg­in­um. Við gleðjumst sam­an á ári hverju hinn 17. júní og heiðrum þá sem börðust fyr­ir sjálf­stæði Íslands. Við erum stolt af því að hafa öðlast sjálf­stæði og vera þjóð meðal þjóða.

En hvað ger­ir þjóð að þjóð? Al­geng skil­grein­ing á þjóð er þegar hóp­ur fólks upp­fyll­ir ákveðin skil­yrði, þ.e. deil­ir sam­eig­in­legri sögu, menn­ingu, þjóðar­vit­und og síðast en ekki síst sam­eig­in­legu tungu­máli. Þjóð þarf ekki endi­lega að deila sam­eig­in­legu landsvæði. Við Íslend­ing­ar erum vissu­lega, sem eyríki, land­fræðilega af­mörkuð þjóð en ís­lensk­an er samt sem áður meðal þess sem ger­ir ís­lensku þjóðina að þjóð. Okk­ur ber því að standa vörð um tungu­málið okk­ar því ís­lensk­an er ekki ein­ung­is hluti af okk­ar dag­lega lífi, held­ur varðveit­ir tungu­málið sögu okk­ar og menn­ing­ar­arf. „Tung­an geym­ir sjóð minn­ing­anna,“ sagði frú Víg­dís Finn­boga­dótt­ir í sinni fyrstu ræðu sem for­seti ís­lenska lýðveld­is­ins hinn 1. ág­úst árið 1980 og það eru mik­il sann­indi fólg­in í þeim orðum.

Í því alþjóðlega um­hverfi sem við búum við í dag verður sí­fellt mik­il­væg­ara að standa vörð um ís­lensk­una – okk­ar dýr­asta arf. Að tryggja var­an­leika henn­ar verður aðeins gert með mark­viss­um aðgerðum. Grunn­ur­inn er auðvitað góð ís­lensku­kennsla í skól­um lands­ins, aðgengi og stuðning­ur að bók­um á ís­lensku og öðru afþrey­ing­ar­efni. Kvik­mynd­ir og tölvu­leik­ir eru yf­ir­leitt á ensku. Vissu­lega hjálp­ar slíkt efni mikið við að læra ensku en það reyn­ist oft vera á kostnað ís­lensk­unn­ar.

Lilja Al­freðsdótt­ir mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra hef­ur lagt áherslu á fjöl­marg­ar aðgerðir í sinni ráðherratíð sem bein­ast að varðveislu tungu­máls­ins. Ráðherra hef­ur t.a.m. lagt áherslu á að gera ís­lensku að gjald­gengu tungu­máli í sta­f­ræn­um heimi þar sem til dæm­is gervi­greind og radd­stýrð tæki spila stór hlut­verk í lífi fólks. Sjálf­seign­ar­stofn­un­in Al­mannaróm­ur og SÍM – sam­starfs­hóp­ur um ís­lenska mál­tækni hafa leitt vinnu á þeim vett­vangi, und­ir for­ystu ráðherra. Fyrstu áfang­ar þess verk­efn­is fela í sér gagna­söfn­un en síðan verður smíðaður hug­búnaður með stoðtól­um fyr­ir mál­tækni, vél­ræn­ar þýðing­ar, mál­rýni, tal­greini og tal­gervil.

Þá má nefna ný­leg sam­skipti mennta­málaráðherra við afþrey­ing­arris­ann Disney um út­gáfu mynd­efn­is gegn­um Disney plús. Í kjöl­far sam­skipta ráðherra við fyr­ir­tækið hef­ur Disney tryggt ís­lenska textun og/​eða tal­setn­ingu á fleiri en 600 mynd­um eða þátt­um á Disney+. Meðal þeirra eru Star Wars-mynd­irn­ar og Mar­vel-mynd­irn­ar, sem eru vin­sæl­ar meðal allra ald­urs­hópa.

Það eru ein­mitt svona hlut­ir, svona dugnaður og frum­kvæði, sem eiga þátt í varðveislu tungu­máls­ins.

Silja Dögg Gunn­ars­dótt­ir, þingmaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 18. júní 2021.