Categories
Greinar

Varða á veginum

Deila grein

30/03/2021

Varða á veginum

Gott menntakerfi er grundvöllur þess að samfélag geti þróast í takt við áskoranir hvers tíma og að atvinnulífið standist alþjóðlegt samkeppnisumhverfi. Alþingi samþykkti nýlega í fyrsta sinn menntastefnu frá menntamálaráðherra, tekur hún fyrir tímabilið 2020-2030. Umsagnaraðilar voru einróma um að gott væri að stefnan væri komin fram.

Við gerð innleiðingaráætlunar er mikilvægt að horfa til allra fimm stoða menntakerfisins, þ.e. leik-, grunn- og framhaldsskóla og sí- og endurmenntunar. Menntakerfið verður að vera til þess gert að hægt sé að tryggja að vinnandi fólk geti aukið hæfni sína til að fylgja ákalli atvinnulífsins um þekkingu og hæfni starfsfólks. Menntun kostar peninga og því er það þjóðhagslega verðmætt að menntunin skili sér til uppbyggingar samfélagsins. Við þurfum að vera markvissari á þessu sviði og kortleggja menntunarog færniþörf til að bæta samspil menntakerfis og vinnumarkaðar. Nauðsynlegt er að fyrir liggi góð þekking, greining eða mat á starfstækifærum í einstökum fögum, greinum og starfssviðum til nokkurra ára og munu færnispár nýtast í öllu skóla- og fræðslustarfi.

Tækifæri til náms eiga að vera þau sömu alls staðar á landinu og fyrir alla hópa þjóðfélagsins. Tæknin gerir okkur kleift að mæta ólíkum þörfum fólks. Hún getur nýst til að skapa aukin tækifæri til menntunar á landsbyggðinni, aukið aðgengi fatlaðs fólks og þeirra sem þurfa óhefðbundnari nálgun í námi. Við eigum að sjálfsögðu að efla nám án staðsetningar og með aukinni stafrænni námsgagnaútgáfu á öllum skólastigum verður auðveldara að uppfæra námsgögnin í takt við tímann.

Aðsókn hefur aukist í kennaranám en á sama tíma er ekki næg endurnýjun í stéttinni. Fyrir því eru margar ástæður. Ein þeirra er starfsumhverfi kennara, sem er oft krefjandi. Létta mætti álagi af kennurum og bæta þjónustu við nemendur með því að styrkja stöðu annarra fagstétta í skólum eins og félagsráðgjafa, sálfræðinga, iðjuþjálfa o.s.frv. Síðast en ekki síst þarf að sjá til þess að þroskapróf verði endurskoðuð og uppfærð í takt við tímann. Nú er staðan sú að engin stofnun ber ábyrgð á útgáfu þroskaprófanna sem eiga að meta hvort og hvaða stuðning börn þurfa að fá.

Menntastefnan er fyrsta skrefið á langri vegferð. Góðar innleiðingaráætlanir, samráð, styrk verkstjórn og fjármögnun verkefna er það sem mun skila okkur alla leið.

Áfram veginn!

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 30. mars 2021.