Categories
Greinar

Að efna loforð

Deila grein

17/08/2021

Að efna loforð

Þing var rofið í vik­unni og með því hófst í raun kosn­inga­bar­átt­an fyr­ir alþing­is­kosn­ing­arn­ar þann 25. sept­em­ber. Þær munu marka nýtt upp­haf, annað hvort end­ur­nýjað umboð sitj­andi rík­is­stjórn­ar eða færa þjóðinni nýja.

Fleiri flokk­ar en áður munu bjóða fram. Auk­inn áhugi fólks á stjórn­málaþátt­töku er gleðileg­ur, enda eiga fram­bjóðend­ur það sam­eig­in­legt að vilja bæta sam­fé­lagið. Við höf­um ólík­ar skoðanir á leiðum og aðgerðum, en tak­mark okk­ar allra er að vinna til góðs.

Í upp­hafi kjör­tíma­bils­ins setti rík­is­stjórn­in sér metnaðarfull mark­mið. Þau hafa meira og minna náðst, hvort sem horft er til mýkri eða harðari mála. Kerf­is­breyt­ing­ar hafa orðið í mik­il­væg­um mála­flokk­um og ekki síður löngu tíma­bær­ar viðhorfs­breyt­ing­ar. Mála­flokk­ar Fram­sókn­ar­ráðherr­anna hafa blómstrað á kjör­tíma­bil­inu og með um­hyggju fyr­ir fólki í fartesk­inu hef­ur tek­ist að efna svo til öll lof­orð okk­ar úr stjórn­arsátt­mál­an­um. Kjör og lífs­gæði náms­manna hafa stór­breyst til batnaðar, menntuðum kenn­ur­um hef­ur fjölgað, rétt­indi og starfsþró­un­ar­mögu­leik­ar aukn­ir og sam­starf stjórn­valda við lyk­ilfólk í skóla­kerf­inu auk­ist. Jafn­vægi milli bók- og verk­náms hef­ur stór­auk­ist, há­skól­ar hafa verið opnaðir fyr­ir iðnmenntuðum og grund­vall­ar­breyt­ing hef­ur orðið í viðhorf­um til starfs- og tækni­náms. Hola ís­lenskra fræða er nú hús, fjár­veit­ing­ar í lista- og menn­ing­ar­sjóði hafa stór­auk­ist, bóka­út­gáfa stend­ur í blóma vegna op­in­bers stuðnings við út­gáfu bóka á ís­lensku og ís­lensk kvik­mynda­gerð hef­ur verið sett á viðeig­andi stall, með skýrri stefnu og mark­viss­um aðgerðum. Við höf­um skapað spenn­andi um­gjörð fyr­ir sviðslist­ir með nýj­um lög­um, tryggt betri fjár­mögn­un fram­halds- og há­skóla, sett lög um lýðskóla, stækkað bóka­safns­sjóð rit­höf­unda, und­ir­búið menn­ing­ar­hús um allt land og fram­kvæmd­ir af ýms­um toga – nýj­ar skóla­bygg­ing­ar fyr­ir list-, verk- og bók­nám, þjóðarleik­vanga í íþrótt­um o.fl. Við höf­um staðið vörð um skólastarf á tím­um heims­far­ald­urs og stutt mark­visst við íþrótta- og menn­ing­ar­fé­lög, svo þau komi stand­andi út úr kóf­inu.

Af­rekalist­inn er sam­bæri­leg­ur í öðrum ráðuneyt­um Fram­sókn­ar­flokks­ins – þar sem rétt­indi barna hafa t.d. fengið for­dæma­lausa at­hygli og marg­vís­leg­ar kerf­is­breyt­ing­ar hafa skilað frá­bær­um ár­angri og rétt­ar­bót­um. For­eldra­or­lof hef­ur verið lengt, nýj­ar hús­næðis­lausn­ir kynnt­ar til leiks og fé­lags­lega kerfið eflt. Í sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðuneyt­inu hef­ur ráðherra leyst úr flókn­um mál­um, komið langþráðum sam­göngu­bót­um til leiðar stuðlað að auknu jafn­ræði milli lands­byggðar og SV-horns­ins, t.d. með Loft­brúnni svo­nefndu.

Efnd­ir kosn­ingalof­orða er besta vís­bend­ing­in sem kjós­end­ur geta fengið um framtíðina. Á þessu kjör­tíma­bili hef­ur Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn vökvað sam­fé­lagið með góðri sam­vinnu við aðra, opn­um hug og hóf­semd. Við höf­um sýnt kjark í verki og sam­fé­lagið hef­ur notið góðs af. Við vilj­um halda áfram okk­ar góða starfi, í sam­vinnu við hvern þann sem deil­ir með okk­ur sýn­inni um gott sam­fé­lag.

Lilja Dögg Alfreðsdóttirmennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og þingmaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. ágúst 2021.