Categories
Fréttir

„Vinna, vöxtur, velferð“

Deila grein

12/12/2021

„Vinna, vöxtur, velferð“

Ágúst Bjarni Garðarsson, alþingismaður, var með jómfrúrræðu sína í fyrstu umræðu fjárlaga 2022 á Alþingi í síðustu viku. Í ræðu sinni fór hann yfir að stjórnarsáttmáli nýrrar ríkisstjórnar væri ítarlegt skjal sem einkennist af bjartsýni varðandi þau tækifæri sem væru til staðar

Fjárlagafrumvarpið endurspegli vel markmið ríkisstjórnarinnar og að vel ígrundaðar og kröftugar efnahagsaðgerðir stjórnvalda hafi gefist vel fram að þessu. Vel hafi spilast úr fordæmalausu stöðu sem þjóðin stæði öll frammi fyrir.

„Við höfum sagt að það sé mikilvægt að einstaklingurinn sé ávallt hjartað í kerfinu og við sjáum það vel á markmiðum og forgangsröðun ríkisstjórnarinnar, bæði á því fjárlagafrumvarpi sem nú liggur fyrir og frá síðasta kjörtímabili. Framlög til velferðarmála hafa vaxið hvað mest í krónum talið. Aukin útgjöld til heilbrigðismála nema 37% af 220 milljarða kr. útgjaldaaukningu frá 2017 en félags- og tryggingamál eru næststærsti hluti eða 26%. Í því frumvarpi sem hér liggur fyrir er gert ráð fyrir að framlög til heilbrigðismála aukist um 16,3 milljarða. Geðheilbrigðismál fá aukið rými og utan um þann málaflokk þarf sérstaklega að taka. Ég treysti nýjum heilbrigðisráðherra vel til þeirra verkefna sem og annarra,“ sagði Ágúst Bjarni.

Ágúst Bjarni sagði að atvinnuleysi væri á niðurleið og væri komið niður í um 5%, glöggt merki þess að atvinnulífið er að taka við sér enda öflugt atvinnulíf forsenda velferðar og framfara.

***

„Hæstv. forseti. Ég stend hér stoltur og fullur þakklætis og auðmýktar fyrir tækifærið að fá að vinna að góðum málum í þágu samfélagsins alls hér á hinu háa Alþingi. Í upphafi ræðu minnar vil ég minnast í stuttu máli á stjórnarsáttmálann sem er ítarlegt skjal sem bæði einkennist af bjartsýni varðandi þau tækifæri sem til staðar eru og bjartsýni um að við getum áfram bætt samfélagið og lagfært það sem þarf að laga. Við ræðum hér í því samhengi frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2022. Ég tel að fjárlagafrumvarpið endurspegli vel markmið ríkisstjórnarinnar. Ljóst er að staðan er betri í efnahagsmálum en gert var ráð fyrir í fjárlögum líðandi árs. Það er vel að efnahagsbatinn hafi reynst meiri en spár gerðu ráð fyrir og áfram er útlit fyrir nokkuð sterkan vöxt árið 2022. Ég leyfi mér að fullyrða að vel ígrundaðar og kröftugar efnahagsaðgerðir stjórnvalda hafi gefist vel í þessum ólgusjó alheimsfaraldurs og skýra að stórum hluta hve vel hefur spilast úr þessari fordæmalausu stöðu sem þjóðin öll stendur enn frammi fyrir. Ég þekki það vel úr störfum mínum sem sveitarstjórnarmaður að þau ýmsu úrræði sem gripið var til af hálfu stjórnvalda og stóðu til boða skiptu sköpum. Má þar nefna hlutabótaleiðina eða hlutastarfaleiðina, tekjutengdar atvinnuleysisbætur, Allir vinna, vinnumarkaðsátakið Hefjum störf, stuðning til íþróttafélaga og sérstakan stuðning til tekjulágra heimila sem hafði og hefur það markmið að jafna tækifæri barna til íþrótta- og tómstundaiðkunar. Ríkisstjórnin ætlar að beita sér fyrir að svo verði áfram.

Hér er bæði um að ræða óbeinan stuðning til sveitarfélaga í gegnum þessi úrræði og beinan stuðning til fólks. Ég hef nefnt ýmis úrræði en við þau mætti bæta fjölda annarra úrræða í gegnum faraldurinn. Það má því segja heilt yfir að það hafi gefið góða raun að beita ríkisfjármálunum af krafti. Atvinnuleysi er á niðurleið og er komið í um 5%. Það er glöggt merki þess að atvinnulífið er að taka við sér, sem eru góðar fréttir. Öflugt atvinnulíf er forsenda velferðar og framfara. Auka þarf verðmætasköpun og gefa fyrirtækjum nauðsynlegt svigrúm til að sækja fram, fjárfesta í tækjum og tólum, til að auka samkeppnishæfni þeirra og ekki síður til að ráða fólk til starfa að nýju. Slíkt treystir ríkisfjármálin á ný og gefur okkur sem þjóð tækifæri til að vaxa og dafna til frekari velsældar. Þetta er stærsta verkefni okkar í upphafi nýs kjörtímabils og áfram inn í framtíðina. Vinna, vöxtur, velferð, virðulegur forseti.

Við höfum sagt að það sé mikilvægt að einstaklingurinn sé ávallt hjartað í kerfinu og við sjáum það vel á markmiðum og forgangsröðun ríkisstjórnarinnar, bæði á því fjárlagafrumvarpi sem nú liggur fyrir og frá síðasta kjörtímabili. Framlög til velferðarmála hafa vaxið hvað mest í krónum talið. Aukin útgjöld til heilbrigðismála nema 37% af 220 milljarða kr. útgjaldaaukningu frá 2017 en félags- og tryggingamál eru næststærsti hluti eða 26%. Í því frumvarpi sem hér liggur fyrir er gert ráð fyrir að framlög til heilbrigðismála aukist um 16,3 milljarða. Geðheilbrigðismál fá aukið rými og utan um þann málaflokk þarf sérstaklega að taka. Ég treysti nýjum heilbrigðisráðherra vel til þeirra verkefna sem og annarra.

Einnig fagna ég því að frítekjumark atvinnutekna ellilífeyrisþega verði hækkað í 200.000 kr. á mánuði um næstu áramót og þar með tvöfaldað. Stigin hafa verið ákveðin skref í barnabótakerfinu til að bæta hag lágtekjufólks og lægri millitekjuhópa. Það er vel og við þurfum að vera sammála um að létta þeim róðurinn sem þyngstar byrðar bera.

Til viðbótar má nefna að útgjöld vegna félags-, húsnæðis- og tryggingamála hækka um 8,1 milljarð árið 2022 og vegur þar m.a. þyngst kostnaður vegna lengingar fæðingarorlofs í 12 mánuði, um 1,1 milljarð. Þetta er jafnréttismál.

Stærsta einstaka fjárfestingarverkefni í fjárlagafrumvarpinu er bygging nýs Landspítala en gert er ráð fyrir að verja til þess 14 milljörðum kr. árið 2022. Þá er gert ráð fyrir 10,4 milljörðum í endurgreiðslu rannsóknar- og þróunarkostnaðar, 31,5 milljörðum í samgöngumannvirki, 5,2 milljörðum í byggingu hjúkrunarheimila og 1,5 milljörðum í Stafrænt Ísland, svo að dæmi séu tekin. Það er því ljóst að við munum áfram byggja upp af krafti, styrkja innviði, byggja upp greiðar, öruggar og hagkvæmar samgöngur, styðja við menntun, nýsköpun og öflugt heilbrigðiskerfi enn frekar. Fjárlagafrumvarpið hér ber merki þess, eins og fram hefur komið.

Hæstv. forseti. Talandi um húsnæðismarkaðinn og lóðaframboð, og þá er ég kannski sérstaklega að horfa til okkar á höfuðborgarsvæðinu: Ég tel að við séum að stíga gott skref og þarft með því að setja á fót sérstakt innviðaráðuneyti sem m.a. hefur það að markmiði að samþykkja skipulagsáætlanir sveitarfélaga og svæðisskipulagsstefnu til að ná betri nýtingu á innviðum og annarri þjónustu og fá mun betri yfirsýn yfir framboð á lóðum og húsnæði, bæði í nútíð og framtíð. Þetta styður við alla stjórnsýslu skipulagsmála. Að mínu mati er staðan talsvert snúin hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem við vinnum samkvæmt svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins til ársins 2040. Þar inni má finna vaxtarmörk, þ.e. hversu mikið sveitarfélögin geta í raun þanið sig út. Þetta verður nefnilega að fara saman í allri umræðu, bæði þegar kemur að þéttingu byggðar og nýbyggingarsvæðum.

Ef við horfum á vaxtarmörkin í dag er okkur þröngur stakkur sniðinn. Árið er 2021 og heil 19 ár í árið 2040 með allri væntri uppbyggingu á þeim tíma. Þarna verðum við sem samfélag að horfa inn á við og segja að mögulega þurfi að taka þetta allt saman til endurskoðunar, íbúum til heilla, og rétta kúrsinn, eins og oft er sagt. Hér erum við auðvitað komin í sveitarstjórnarmál en þetta tengist allt þessu nýja ráðuneyti sveitarstjórna og skipulagsmála. Þetta snýst um skilvirkni.

Það sem ég hef nefnt hér að ofan hefur nefnilega áhrif á húsnæðismarkaðinn og húsnæðisverð sem hækkað hefur mikið á síðustu árum. Líklega myndu einhverjir segja þá hækkun að mörgu leyti og að miklu leyti komna til vegna skorts á lóðum og þar með á uppbyggingu húsnæðis.

Virðulegur forseti. Sumir kjósa alltaf að horfa á glasið hálftómt en ég kýs hins vegar að vera bjartsýnn, sem ég er nú almennt, og horfa á glasið hálffullt. Staðan er nokkuð góð og það er bjart fram undan.“