Categories
Fréttir

Finnum bestu lausnirnar hverju sinni til hagsbóta fyrir samfélagið allt – í krafti grænnar nýsköpunar

Deila grein

12/12/2021

Finnum bestu lausnirnar hverju sinni til hagsbóta fyrir samfélagið allt – í krafti grænnar nýsköpunar

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttiralþingismaður, var með jómfrúrræðu sína í fyrstu umræðu fjárlaga 2022 á Alþingi í síðustu viku.

Hafdís Hrönn sagði ógrynni tækifæra til staðar til að bæta samkeppnisstöðu Íslands á hinum ýmsu sviðum og þá sérstaklega á sviði þekkingar og nýsköpunar. „Fjárfesting í nýsköpun er ekki bara fjárfesting í nýsköpun; fjárfesting í loftslagsmálum, fjárfesting í heilbrigðiskerfinu, fjárfesting í landbúnaði, fjárfesting í sjávarútvegi, fjárfesting í hraðari orkuskiptum hér á landi. Með því að styðja við nýsköpun, hugverkaiðnað og skapandi greinar erum við að fjárfesta í samfélaginu öllu, fjárfesta í fólki.“

Minnti hún á að þess konar áherslur séu í takt við áherslur er Framsóknarflokkurinn lagði upp með í aðdraganda síðustu kosninga. Athygli vakti er framleiðandinn og streymisveitandinn HBO lýsti yfir áhuga á því að framleiða kvikmyndir og sjónvarpsþætti á Íslandi, að því gefnu að kosningaloforð Framsóknar yrðu að veruleika. Þetta kom fram í bréfi frá HBO til formanns og varaformanns Framsóknar.

„Við sem þjóð eigum að geta verið fremst meðal jafningja með skilvirku kerfi og hvötum sem stuðla að auknum áhuga og fjölgun verkefna til landsins. Ég bind miklar vonir við þann árangur sem fæst með hvötum sem þessum. Sköpun nýrra og fjölbreyttra starfa veitir okkur tækifæri til framtíðar. Samhliða þurfum við að efla kvikmyndanám og kennslu á háskólastigi með auknum stuðningi í fjárlögum. Íslendingar hafa sýnt sig og sannað á heimsvísu á þessu sviði og við getum skarað fram úr, enn frekar,“ sagði Hafdís Hrönn.

***

„Virðulegur forseti. Ég stend hér stolt og auðmjúk við flutning minnar fyrstu ræðu á Alþingi, jómfrúrræðu. Ég er fyrst og fremst þakklát fyrir það tækifæri sem ég fæ til að standa hér í dag, það er alls ekki sjálfgefið. Talandi um tækifæri: Hér á landi höfum við ógrynni tækifæra til að bæta samkeppnisstöðu Íslands á hinum ýmsu sviðum og þá sérstaklega á sviði þekkingar og nýsköpunar. Nýsköpun stuðlar að framförum með nýjum hugmyndum, verklagi og uppgötvunum. Nýsköpun er mikilvægur þáttur í allri framþróun. Það kemur til með að skipta efnahag Íslands öllu máli að við verðum ekki eftirbátar annarra þjóða sem við berum okkur saman við þegar kemur að atvinnusköpun, hugverkaiðnaði, nýsköpun á sviði orkumála og skapandi greina og í því felast tækifæri sem við eigum að grípa. Fjárfesting í nýsköpun er ekki bara fjárfesting í nýsköpun; fjárfesting í loftslagsmálum, fjárfesting í heilbrigðiskerfinu, fjárfesting í landbúnaði, fjárfesting í sjávarútvegi, fjárfesting í hraðari orkuskiptum hér á landi. Með því að styðja við nýsköpun, hugverkaiðnað og skapandi greinar erum við að fjárfesta í samfélaginu öllu, fjárfesta í fólki.

Við höfum öll fylgst með þeirri sérstöðu sem landið hefur þegar kemur að framleiðslu á afþreyingarefni, t.d. kvikmyndaframleiðslu. Erlendir kvikmyndaframleiðendur keppast við að taka upp og framleiða efni hér á landi, skiljanlega, enda er landið okkar ótrúlegt sjónarspil. Þetta er ekki einungis glæsileg landkynning sem styður hraustlega við íslenska ferðaþjónustu heldur geta þær tekjur sem við höfum af þessu reynst umtalsverðar. Að auki leiðir þetta til nýrra fjölbreyttra og afleiddra starfa sem við sem samfélag þurfum að líta til. Þessu tek ég fagnandi. Það er því einstaklega ánægjulegt að sjá í fjárlögum skref stigið í átt að því að auka endurgreiðslur til kvikmyndagerðar á Íslandi. Með slíkri aðgerð getum við bætt samkeppnisstöðu og sérstöðu okkar í alþjóðlegu samhengi og búið til tækifæri til framtíðar í sívaxandi geira. Við getum skipað okkur á bekk með ríkjum á borð við Írland og Spán þar sem kvikmyndaframleiðsla hefur gífurlega jákvæð áhrif á ríkistekjur. Íslensk kvikmyndaframleiðsla hefur verið að færa út kvíarnar síðastliðin ár og við eigum sérfræðinga í fremstu röð á öllum sviðum tengdum kvikmyndaframleiðslu, m.a. tónskáld, leikstjóra, klippara, leikara, og af því hefur íslenskt samfélag notið góðs, íslenskur efnahagur notið góðs af. Með auknum stuðningi er hægt að stuðla að frekari vexti og uppbyggingu á spennandi iðnaði. Við sem þjóð eigum að geta verið fremst meðal jafningja með skilvirku kerfi og hvötum sem stuðla að auknum áhuga og fjölgun verkefna til landsins. Ég bind miklar vonir við þann árangur sem fæst með hvötum sem þessum. Sköpun nýrra og fjölbreyttra starfa veitir okkur tækifæri til framtíðar. Samhliða þurfum við að efla kvikmyndanám og kennslu á háskólastigi með auknum stuðningi í fjárlögum. Íslendingar hafa sýnt sig og sannað á heimsvísu á þessu sviði og við getum skarað fram úr, enn frekar.

Þessar áherslur slá í takt við það sem Framsóknarflokkurinn lagði upp með í aðdraganda kosninga og kemur skýrt fram í stjórnarsáttmálanum og endurspeglast í fjárlögum næsta árs. Þetta hefur heldur betur vakið athygli erlendis. Hinn risastóri framleiðandi og streymisveitandi HBO hefur nú þegar lýst yfir áhuga á því að framleiða kvikmyndir og sjónvarpsþætti á Íslandi verði umrædd áform að veruleika. Þessu lýsti afþreyingarrisinn yfir í bréfi sem stílað var á formann og varaformann Framsóknar: Verkefni frá framleiðendum á borð við HBO eru með þeim stærstu sem bjóðast í kvikmyndageiranum. Tekjurnar geta því orðið verulegar með tilheyrandi atvinnusköpun og sérþekkingu sem myndast í kringum slík verkefni. Þetta er fögur framtíðarsýn um uppbyggingu nýrra starfa og jafnvel upphafið að nýrri og öflugri stoð í íslensku atvinnulífi.

Virðulegi forseti. Ef við ætlum að skapa atvinnu verðum við að auka þátt nýsköpunar og ef við gerum það sköpum við störf og þau skapa hagvöxt. Með hagvexti vöxum við út úr aukinni skuldsetningu sem skapast hefur í kjölfarið á heimsfaraldri sem geisað hefur í tæp tvö ár. Við getum þar með bætt enn frekar velferð samfélagsins. Þetta endurspeglast í þeim fjárlögum sem hér eru til umræðu, að við vöxum út úr því ástandi sem skapast hefur í Covid í krafti grænnar nýsköpunar.

Virðulegi forseti. Ég fer full vonar inn í þetta kjörtímabil og það er mín einlæga von að við getum haldið áfram að eiga í víðtæku samtali við samfélagið um þær breytingar sem ráðast skal í á kjörtímabilinu og með því fundið bestu lausnina hverju sinni til hagsbóta fyrir samfélagið allt.“