Undanfarnar vikur höfum við fengið fréttir af yfirvofandi orkuskorti hér á landi. Í desember fengu fiskimjölsverksmiðjur þá tilkynningu frá Landsvirkjun að ekki væri hægt að veita þeim hreina raforku í upphafi loðnuvertíðar. Þær neyðast til að skipta yfir í óákjósanlega orkugjafa, eins og olíu, með tilheyrandi kostnaði og umhverfisáhrifum. Áætlað er að um 20 milljónum lítra af olíu verði brennt á yfirstandandi vertíð.
Neyðarkall
Á þriðjudaginn í síðustu viku sendu umhverfis- og auðlindaráðuneytið og Orkustofnun neyðarkall til íslenskra raforkuframleiðenda. Óskað var eftir aukinni orkuframleiðslu umfram þær skuldbindingar sem áður höfðu verið gerðar. Ofangreint neyðarkall varðar húshitun á köldum svæðum því vegna raforkuskorts búa t.d Orkubú Vestfjarða og RARIK sig undir að brenna milljónum lítra af olíu á næstu mánuðum til þess að tryggja húshitun á Vestfjörðum og á Seyðisfirði. Þessu fylgir töluverður kostnaður fyrir íbúa og fyrirtæki þessara svæða. Og nú berast fregnir af því að til standi að skerða raforku til ferjunnar Herjólfs og mun olíunotkun skipsins þá margfaldast.
Þetta er sorgleg og ótrúleg staða sem við eigum ekki að þurfa að búa við sem íslensk þjóð með allar okkar endurnýjanlegu orkuauðlindir. Þetta getur ekki verið svona til frambúðar. Þetta er ástand sem við viljum ekki búa við, svo einfalt er það.
Ástandið er alvarlegt
Staðan í orkumálum er alvarleg og kom meginþorra landsmanna líklegast verulega á óvart. Þessi staða hefur hins vegar haft sinn aðdraganda. Landsnet varaði í skýrslu um afl- og orkujöfnum 2019-2023 við mögulegum aflskorti árið 2022. Þar var bent á að á tímabilinu myndi ekki nægilega mikið af nýjum orkukostum bætast inn á kerfið til að duga fyrir sívaxandi eftirspurn eftir rafmagni samkvæmt raforkuspá.
Skiljanlega spyrja landsmenn sig; hvað kemur til? Hvernig endar þjóð, sem er þekkt fyrir sjálfbæra hreina orku, í ástandi sem þessu? Staðreyndin er sú að mörg ljón eru á veginum. Nauðsynlegt er að kljást við þau til að leysa orkumál, tryggja orkuöryggi og hagsæld þjóðarinnar. Tryggja þarf nægt framboð af grænni orku fyrir heimilin í landinu, atvinnulífið og orkuskiptin. Upp á síðkastið hefur í umræðunni verið rætt um hvort þörf sé á meiri raforku fyrir orkuskiptin. Ég spyr, hvernig getur verið að ekki þurfi meiri orku fyrir orkuskiptin þegar svo lítið má út af bera til að ekki sé næg raforka fyrir núverandi notendur?
Glötum bæði orku og tækifærum
Styrking flutningskerfis raforku þolir enga bið. Í viðtali við fjölmiðla áætlaði forstjóri Landsnets að orkan sem tapast í flutningskerfinu á hverju ári samsvari afkastagetu Kröfluvirkjunar sökum annmarka flutningskerfisins. Á hverju ári tapast milljarðar króna vegna þess og enn meira vegna glataðra atvinnu og uppbyggingartækifæra um allt land.
Í dag er verið að leggja nýjar raflínur á hinum ýmsu stöðum. Þó eru sumir hlutar kerfisins hátt í 50 ára gamlir og því er augljóst að þörf er á bráðnauðsynlegri uppfærslu. Sífellt fleiri gígavattstundir tapast á þennan hátt og í fyrra var talið að um 500 gígavattstundir hefðu glatast sökum annmarka flutningskerfisins. Það samsvarar meðalorkunotkun 100.000 heimila, sem eru tveir þriðju allra heimila á Íslandi. Sérfræðingar telja þá tölu einungis fara vaxandi í óbreyttu ástandi. Af þessu er ljóst að bregðast þarf hratt við. Viðfangsefnið er stórt en ekki óyfirstíganlegt.
Tími aðgerða er núna
Mikilvægt er að ráðast í eflingu fyrirliggjandi virkjana þar sem það er hægt, hefja undirbúning að þeim orkukostum sem auðveldast er að hrinda í framkvæmd fljótlega og einfalda svo ferlið frá hugmynd að framkvæmd þannig að nýting orkukosta sem samfélagið þarfnast gangi betur og hraðar fyrir sig í framtíðinni. Á Íslandi hefur það sýnt sig að tíminn sem það tekur frá hugmynd um hefðbundna orkukosti þar til framkvæmdir verða að veruleika er um 10-20 ár. Sagan sýnir að það er of langur tími ef tryggja á orkuöryggi þjóðarinnar. Vissulega eru til aðstæður þar sem það er vel skiljanlegt og alltaf þarf að vanda til verka. En oft og tíðum eru óþarfa tafir sem sóa dýrmætum tíma án þess að það skili sér í betri framkvæmd með tilliti til umhverfisins. Við okkur blasir að úrbóta er þörf og tími aðgerða er núna.
Ingibjörg Isaksen, þingmaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. janúar 2022.