Categories
Greinar

Endómetríósa

Deila grein

01/02/2022

Endómetríósa

Fram að þessu hef­ur lít­il at­hygli beinst að þeim sjúk­dóm­um sem leggj­ast sér­stak­lega á kon­ur. Þær hafa mætt höfn­un þegar þær leita til heil­brigðis­kerf­is­ins og gengið gegn­um erfitt grein­ing­ar­ferli, en skort­ur er á al­mennri fræðslu um slíka sjúk­dóma.

Einn þeirra sjúk­dóma sem hrjá kon­ur og hef­ur fengið litla at­hygli hingað til, er en­dómetríósa. En­dómetríósa er krón­ísk­ur, fjöl­kerfa sjúk­dóm­ur sem get­ur verið þung­bær og afar sárs­auka­full­ur. Sjúk­dóm­ur­inn leggst á ein­stak­linga sem fæðast í kven­lík­ama og er gjarn­an kallaður „endó“ í dag­legu tali, en einnig er not­ast við hug­takið legs­límuflakk. Af þeim sem hafa sjúk­dóm­inn eru um 60% með ein­kenni og um 20% með mjög sár ein­kenni. Sjúk­dóm­ur­inn ein­kenn­ist meðal ann­ars af mikl­um sárs­auka við blæðing­ar, sárs­auka við egg­los, verkj­um í kviðar­holi á milli blæðinga, verkj­um við sam­far­ir, þvag­lát og hægðalos­un. Auk þess ger­ir sjúk­dóm­ur­inn það erfitt að verða barns­haf­andi og leiðir til erfiðleika á meðgöngu og við fæðingu. Á 20 ára tíma­bili greind­ust um 1.400 kon­ur með sjúk­dóm­inn á Íslandi. Því má reikna með að á hverj­um tíma eigi hundruð ef ekki þúsund­ir kvenna í vanda vegna sjúk­dóms­ins hér á landi, en hjá mörg­um þeirra grein­ist sjúk­dóm­ur­inn seint og ekki fyrr en óaft­ur­kræf­ar vefja­skemmd­ir hafa orðið. Í gegn­um tíðina hafa verið uppi rang­hug­mynd­ir um en­dómetríósu og upp­lýs­inga­gjöf vill­andi, enda er ekki auðvelt að út­skýra sjúk­dóms­mynd­ina. Það hef­ur leitt til þess að minna er gert úr hon­um en ella. Ein rang­hug­mynd­in er að verk­ir séu eðli­leg­ur hluti af lífi kon­unn­ar eða að tíðaverk­ir séu fyrst og fremst sál­ræn­ir.

Jafn­rétti í heilsu og heil­brigðisþjón­ustu

Nú­ver­andi stjórn­völd hafa lagt áherslu á jafn­rétti lands­manna til heil­brigðisþjón­ustu eins og fram kem­ur í heil­brigðis­stefnu sem samþykkt var á Alþingi á vor­dög­um 2019. Það þarf líka að huga að heil­brigðisþjón­ustu út frá kynj­um. Í skýrslu sem dr. Fann­borg Salome Steinþórs­dótt­ir, nýdoktor í kynja­fræði við Há­skóla Íslands, tók sam­an fyr­ir heil­brigðisráðherra á liðnu ári um heilsu­far og heil­brigðisþjón­ustu út frá kynja- og jafn­rétt­is­sjón­ar­miðum kem­ur fram að kon­ur lifi mun fleiri ár við slæma heilsu en karl­ar þótt meðalævi þeirra sé lengri. Það seg­ir kannski til um að nokkuð vanti upp á að kon­ur hafi haft nægj­an­lega aðkomu að heil­brigðisþjón­ustu.

Beina þarf at­hygli að heilsu kvenna

Fyr­ir tveim­ur árum fékk ég samþykkta þings­álykt­un mína um að fela heil­brigðisráðherra að beita sér fyr­ir fræðslu til al­menn­ings um vefjagigt og láta fara fram end­ur­skoðun á skip­an sér­hæfðrar end­ur­hæf­ing­arþjón­ustu sjúk­linga. Vorið 2020 kom út end­ur­hæf­ing­ar­stefna sem fel­ur í sér að gera sam­an­tekt um end­ur­hæf­ing­arþjón­ustu sem til staðar er í land­inu og benda á leiðir til úr­bóta í þeim efn­um. Í kjöl­farið var unn­in aðgerðaáætl­un um end­ur­hæf­ingu til fimm ára þar sem m.a. er lögð áhersla á end­ur­hæf­ingu sjúk­linga með vefjagigt. Í maí 2021 komu fram stöðuskýrsla og til­lög­ur starfs­hóps heil­brigðisráðherra um end­ur­hæf­ingu fyr­ir fólk með lang­vinna verki. Í skýrsl­unni eru tekn­ar sam­an tölu­leg­ar upp­lýs­ing­ar um fjölda þess fólks og þær meðferðir sem standa til boða kortlagðar. Auk þess eru gerðar til­lög­ur að úr­bót­um og auk­inni þjón­ustu við ein­stak­linga með lang­vinna verki. Ekk­ert er talað um en­dómetríósu í þess­ari skýrslu þó sjúk­dóm­ur­inn sé or­sök lang­vinnra verkja fjölda kvenna hér á landi. Í loka­orðum skýrsl­unn­ar er tekið fram að hér á landi skorti veru­lega upp á hvert skuli vísa ein­stak­ling­um þegar meðferð hef­ur ekki gagn­ast og talað um að tölu­vert vanti upp á að heil­brigðis­starfs­fólk fái fræðslu og þjálf­un í meðferð lang­vinnra verkja.

Auka þarf fræðslu og þjón­ustu

Ég hef lagt fram þings­álykt­un­ar­til­lögu um að fela heil­brigðisráðherra að beita sér fyr­ir að efla fræðslu meðal al­menn­ings og starfs­fólks heil­brigðis­stofn­ana. Í álykt­un­inni er ráðherra falið að láta fara fram end­ur­skoðun á heild­ar­skipu­lagi þjón­ust­unn­ar með það að mark­miði að stytta grein­ing­ar­ferlið og bjóða upp á heild­ræna meðferð, en í því felst m.a. að skoða verk­ferla, niður­greiðslu lyfja og fjár­mögn­un til að tryggja mönn­un og aðstöðu til að sinna ein­stak­ling­um með en­dómetríósu með sem bestu móti.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. janúar 2022.