Categories
Fréttir Greinar

Framsókn er lykillinn að breytingum í borginni

Deila grein

14/05/2022

Framsókn er lykillinn að breytingum í borginni

Kæri les­andi. Í dag göng­um við til kosn­inga til sveit­ar­stjórna. Í dag mark­ar at­kvæði okk­ar stefn­una í stjórn sveit­ar­fé­lags­ins okk­ar til næstu fjög­urra ára. Ég hef síðustu vik­ur og mánuði sem odd­viti Fram­sókn­ar í Reykja­vík átt mörg og gef­andi sam­töl við borg­ar­búa um þarf­ir þeirra og vænt­ing­ar til borg­ar­inn­ar okk­ar. Ég hef fundið fyr­ir mikl­um meðbyr og fyr­ir það er ég þakk­lát­ur.

Sterk Fram­sókn fyr­ir borg­ar­búa

Við höf­um á síðustu árum horft upp á mikla skaut­un í sam­fé­lag­inu sem birt­ist í harðari átök­um í stjórn­mál­um. Fram­sókn hef­ur komið fram sem sterk­ur full­trúi miðjunn­ar í ís­lensk­um stjórn­mál­um og staðið fyr­ir hóf­söm­um gild­um. Við erum lausnamiðuð og umb­urðarlynd og höf­um unnið hörðum hönd­um að um­bót­um í ís­lensku sam­fé­lagi á vett­vangi lands­mál­anna. Í sam­töl­um mín­um við Reyk­vík­inga hef ég fundið fyr­ir því að það þarf sterka Fram­sókn í borg­ar­stjórn.

Meiri­hlut­inn hef­ur sofið á verðinum

Það er margt gott í borg­inni okk­ar en það er fjöl­margt sem þarf að bæta. Meiri­hluti síðustu ára hef­ur sofið á verðinum hvað varðar upp­bygg­ingu á íbúðar­hús­næði. Um það eru all­ir sam­mála, Seðlabank­inn, Hús­næðis- og mann­virkja­stofn­un, Alþjóðagjald­eyr­is­sjóður­inn, íbú­ar borg­ar­inn­ar, íbú­ar lands­ins; all­ir nema meiri­hlut­inn í borg­ar­stjórn sem hef­ur lagt alla áherslu á borg­ar­línu en gleymt hús­næðismál­un­um. Af­leiðing­arn­ar eru stór­kost­leg hækk­un á hús­næði, hækk­un vaxta og verðtryggðra lána. Þess­ari þróun verður að snúa við. Það þolir enga bið. Lausn­in er að mínu mati aug­ljós: Borg­ar­stjórn verður að segja skilið við trú­ar­brögðin sem boða það að eina leiðin sé þétt­ing byggðar. Við þurf­um líka að byggja ný hverfi og skapa þannig jafn­vægi á hús­næðismarkaði.

Stór hluti ungs fólks hef­ur ekki ráð á því að koma sér þaki yfir höfuðið. Við get­um ekki búið við það að eina leiðin fyr­ir ungt fólk til að eign­ast hús­næði sé með veðsetn­ingu for­eldra og annarra aðstand­enda. Hús­næði er ekki munaðar­vara, hús­næði er ekki áhættu­fjár­fest­ing, hús­næði á að vera sjálf­sögð lífs­gæði.

Fram­sókn gef­ur þér val­kosti

Fram­sókn hef­ur ekki átt borg­ar­full­trúa síðustu árin en samt hef­ur flokk­ur­inn, með Sig­urð Inga Jó­hanns­son í for­ystu verið í lyk­il­hlut­verki við það að leysa borg­ina úr klaka­bönd­um sem ríkt höfðu í ára­tugi í sam­göngu­mál­um höfuðborg­ar­inn­ar. Sam­göngusátt­máli Sig­urðar Inga rauf kyrr­stöðuna. Upp­bygg­ing stofn­brauta til að greiða leið fjöl­skyldu­bíls­ins og upp­bygg­ing al­menn­ings­sam­gangna eru ekki and­stæður held­ur styðja hvor aðra. Mark­miðið er greiðari og ör­ugg­ari um­ferð fyr­ir alla borg­ar­búa. Við í Fram­sókn ætl­um ekki að segja þér, les­andi góður, hvernig þú ferð til og frá vinnu held­ur bjóða þér upp á val­kosti sem henta þér.

Nú­ver­andi meiri­hluti hef­ur mikið talað um framtíðina. Tákn­mynd framtíðar­inn­ar í þeirra huga er borg­ar­lína. Nú­ver­andi meiri­hluti hef­ur hins veg­ar ekki verið sam­stíga og í raun verið und­ar­lega áhuga­laus um arðsöm­ustu sam­göngu­fram­kvæmd Íslands­sög­unn­ar, Sunda­braut. Í upp­bygg­ingu Sunda­braut­ar hef­ur Fram­sókn dregið vagn­inn. Og Sunda­braut mun ekki aðeins bæta veru­lega teng­ingu borg­ar­inn­ar við Vest­ur­land held­ur bæta sam­göng­ur milli borg­ar­hverf­anna. Íbúar Grafar­vogs og Kjal­ar­ness munu upp­lifa bylt­ingu í sam­göng­um. Og með Sunda­braut spar­ast 150 þúsund kíló­metra akst­ur á degi hverj­um.

Framtíðin er ekki bara hvernig borg­in lít­ur út eft­ir 10 ár. Framtíðin er líka á morg­un. Þessu hef­ur meiri­hlut­inn í borg­ar­stjórn gleymt. Borg­ar­bú­ar upp­lifa að þjón­usta borg­ar­inn­ar sé verri en annarra sveit­ar­fé­laga á höfuðborg­ar­svæðinu. Sorp­hirða, snjómokst­ur, óviðun­andi viðhald skóla­bygg­inga með þeim af­leiðing­um að hundruð barna eru keyrð milli hverfa á hverj­um degi, allt er þetta vitn­is­b­urður um það að meiri­hlut­inn hef­ur verið sof­andi þegar kem­ur að dag­legu lífi borg­ar­búa. Þessu verður að breyta.

Breyt­ing­ar í borg­inni

Kæri les­andi. Sterk Fram­sókn í borg­inni er lyk­ill að breyt­ing­um. Lyk­ill að breytt­um stjórn­mál­um í borg­inni, lyk­ill að meiri upp­bygg­ingu, meiri sátt og meira sam­tali við borg­ar­búa. At­kvæði þitt get­ur brotið upp meiri­hlut­ann í borg­inni og haft úr­slita­áhrif um stjórn borg­ar­inn­ar næstu fjög­ur árin. Ég bið um þinn stuðning í kjör­klef­an­um í dag. X við B er stuðning­ur við breyt­ing­ar í borg­inni.

Einar Þorsteinsson

Höf­und­ur er odd­viti Fram­sókn­ar í Reykja­vík.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. maí 2022.