Categories
Fréttir

Störf þingsins: Halla Signý og Jóhann Friðrik

Deila grein

09/06/2022

Störf þingsins: Halla Signý og Jóhann Friðrik

Halla Signý Kristjánsdóttir og Jóhann Friðrik Friðriksson voru í störfum þingsins á Alþingi í dag. Halla Signý segir Vestfirðinga eiga Íslandsmet í þolinmæði er kemur að samgöngubótum en nú hillir loks undir aðgerðir enda fullfjármagnaðar framkvæmdir komnar á rekspöl. Metnaðarfullar samgönguáætlanir á Vestfjörðum upp á 20 milljarða kr. eru nú á áætlun í samræmi við samgönguáætlun til 2024.

Jóhann Friðrik benti á að áfengislög eru frá 1998 og að margt breyst frá þeim tíma, ekki síst á sviði forvarna og rannsókna. Lagði hann áherslu á mikilvægi þess að fram fari heildarendurskoðun á áfengislögum með að markmiði að taka tillit til samkeppnissjónarmiða, misræmis á milli innlendra og erlendra aðila, en fyrst og síðast sjónarmiða er snúa að forvörnum, áhrifum áfengisneyslu á börn og unglinga og lýðheilsu í landinu.

Halla Signý Kristjánsdóttir í störfum þingsins:

„Virðulegi forseti. Við Vestfirðingar, líkt og íbúar annarra landshluta, erum háð greiðum samgöngum í okkar daglega lífi alla daga ársins. Með samþjöppun grunnþjónustu og stærri atvinnusvæðum skiptir enn meira máli en áður að hafa greiðar samgöngur og sú þróun er ekki að fara að breytast næstu áratugi. Vestfirðingar eiga örugglega Íslandsmet í þolinmæði þegar kemur að samgöngubótum og nú er útlit fyrir að þeir sem búa og starfa á Vestfjörðum geti farið að anda léttar. 20 milljarða kr. metnaðarfullar samgönguáætlanir á Vestfjörðum eru nú í áætlun og fullfjármagnaðar í samræmi við fimm ára samgönguáætlun, 2020–2024. Upphafið var stórframkvæmd við Dýrafjarðargöng sem kallar á enn meiri framkvæmdir. Já, við skulum tala um Dynjandisheiðina. Framkvæmdir við mikilvægar endurbætur á Vestfjarðavegi um Dynjandisheiði eru þegar hafnar. Í síðustu viku var auglýst útboð á 13 km kafla sem skal vera lokið árið 2024. Þegar þessum kafla lokið erum við að sjá nýframkvæmdir á 25 km kafla á heiðinni. Frá opnun Dýrafjarðarganga hefur ekki alltaf verið auðvelt að halda veginum um heiðinna opnum yfir verstu vetrarmánuðina. Uppbygging vegarins bætir aðstæður til vetrarþjónustu og þegar hann verður tilbúinn verður það raunverulegur möguleiki að halda greiðum samgöngum milli norður- og suðursvæðis allt árið um kring.

Virðulegi forseti. Enn eitt stóra verkefnið er hafið í Gufudalssveit. Það hillir undir að vegur um Teigsskóg verði að veruleika. Vinna við veginn hafin og þar með er séð fyrir áratugadeilur um vegstæðið. Það er ánægjulegt að sjá að þeir sem fengu verkið eru meðvitaðir um að það er verið að vinna á ósnortnu landi og hafa það að leiðarljósi að lágmarka röskun. Víðar er verið að vinna að endurbótum í fjórðungnum og samtals er verið að vinna á nærri 18 km kafla á þessu svæði. Allar þessar endurbætur eru mikilvægar fyrir okkur, hvort sem við búum á Vestfjörðum eða annars staðar á landinu.“

Jóhann Friðrik Friðriksson í störfum þingsins:

„Virðulegi forseti. Eitthvert vinsælasta viðfangsefni hér á þingi ár eftir ár snýr að áfengislöggjöfinni í landinu. Enginn þarf að velkjast í vafa um þá staðreynd að áfengi er alls ekki eins og hver önnur vara. Heilsufarslegur og samfélagslegur skaði af áfengisneyslu er gríðarlegur og veldur umtalsvert meiri skaða en öll önnur vímuefni, enda eina löglega vímuefnið á markaði. Sem betur fer nota flestir áfengi í hófi en rannsóknir sýna að hömlur á aðgengi skila árangri í þeirri viðleitni stjórnvalda að lágmarka óæskileg áhrif á lýðheilsu í landinu. Sem dæmi um frumvörp sem snúa að breytingum á áfengislögum og koma upp í hugann má nefna frumvarp um aðkomu sveitarfélaga að staðarvali áfengisverslana, sala áfengis á framleiðslustað, frumvarp um sölu áfengis á sunnudögum og leyfi til sölu áfengis í íslenskum netverslunum. Mér að vitandi liggur ekki lýðheilsumat til grundvallar þessum frumvörpum. Myndi það vera verulega til bóta og mun ég því leggja slíkt til.

Virðulegi forseti. Sjálfur er ég hlynntur frelsi með ábyrgð og vill því taka fram að í 1. gr. áfengislaga segir, með leyfi forseta: „Tilgangur laga þessara er að vinna gegn misnotkun áfengis.“ Lögin eru frá 1998, en frá þeim tíma hefur margt breyst, sér í lagi á sviði forvarna og rannsókna. Ég tel því mikilvægt að farið verði í heildarendurskoðun á áfengislögum með það að markmiði að taka tillit til samkeppnissjónarmiða, misræmis á milli innlendra og erlendra aðila, en fyrst og fremst þeirra sjónarmiða er snúa að forvörnum, áhrifum áfengisneyslu á börn og unglinga og lýðheilsu í landinu.“