Categories
Fréttir

Treystum atvinnu og byggð um land allt

Deila grein

09/06/2022

Treystum atvinnu og byggð um land allt

Ingibjörg Isaksen og Stefán Vagn Stefánsson töluðu fyrir hönd Framsóknar í eldhúsdagsumræðum á Alþingi.

Ingibjörg talaði um orkumál, fæðuöryggi og heilbrigðismál. Hún sagði að á síðustu árum hafi verið gríðarlegt álag á heilbrigðiskerfið en það væri ekkert nema fyrir mannauðinn sem þar starfar.

Takk, framlínufólk í heilbrigðiskerfinu!

Covid faraldurinn reyndi mikið á framlínufólkið í heilbrigðiskerfinu, sem lagði á sig ómælda vinnu. Samstaða þess og ósérhlífni hélt heilbrigðiskerfinu gangandi. Sagði hún að við getum seint þakkað þeim nægilega. Nýtti hún tækifærið og sagði takk!

Nauðsynlegt að gefa út ný virkjanaleyfi

Hún sagði að það sé Alþingis að standa vaktina að ná kolefnishlutleysi. Það þurfi fjölbreyttar lausnir í orkumálum; nýjar virkjanir og styrking núverandi virkjana. Nauðsynlegt sé að gefa út ný virkjanaleyfi, því vernd og virkjun geti haldist í hendur. Hún sagði nóg af grænni orku sem mætti nýta í sátt við náttúruna.

Ingibjörg sagði afleiðingar stríðsins í Úkraínu hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir bændur. Það geti leitt til þess að framboð á innlendri vöru dragist saman og leitt til þess að fæðuöryggi verði í hættu. Það þurfi að bregðast við.

Samtal og samvinna leiðarljós í þágu samfélagsins alls

Stefán Vagn fór yfir það sem ríkisstjórninni hefur tekist vel upp með og að nú þurfi að halda áfram. Með samtali og samvinnu að leiðarljósi vinnum við best í þágu samfélagsins alls. Fólk á ekki að sæta mismunun vegna búsetu í neinni mynd og hvað þá innan stjórnsýslunnar.

Byggðamál og byggðaþróun eru málaflokkar sem við eigum að gera hátt undir höfði. Í tíð þessarar ríkisstjórnar hafa skref verið stigin í átt að jöfnun búsetuskilyrða.

Búsetuskilyrði jöfnuð enn frekar með skattkerfinu

Stefán Vagn nefndi t.d. verkefnið „Óstaðbundin störf“ og að tryggja þurfi góðar samgöngur um allt land því það skapi fleiri atvinnutækifæri. Hann ræddi hvort ekki væri kominn tími til að nýta skattkerfið til að jafna búsetuskilyrði enn frekar og aðstöðumun fólks í dreifðari byggðum. Þannig mætti t.d. hvetja lítil og meðalstór fyrirtæki áfram utan höfuðborgarsvæðisins.

Stefán Vagn sagði engan tíma mega missa að bregðast við vanda bænda, og að mikilvægt sé að taka samtalið en á sama tíma bera virðingu fyrir ólíkum skoðunum. Það sé mikilvægt til þess að ná árangri.